Lóa fundaði með þingmönnum

„Ég mun berjast alla leið“

Barnið mitt á ekki að líða fyrir það að búa í Vestmannaeyjum

29.Mars'17 | 11:54
loa_thing

Lóa með þingmönnunum Páli Magnússyni, Nichole Mosty og Óla Birni Kárasyni.

Lóa Baldvinsdóttir Andersen fór í gær til fundar við þingmenn vegna veikinda dóttur sinnar og skorts á úrræðum fyrir fólk sem glímir við samskonar veikindi. Þeir þingmenn sem Lóa ræddi við voru Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Nichole Mosty, Óli Björn Kárason og Eygló Harðardóttir.

Ritstjóri Eyjar.net tók Lóu tali um fundinn og framhaldið.

Ótækt að þurfa að sækja alla þjónustu eða meðferðir til Reykjavíkur

Kom eitthvað útúr fundi þínum með þingmönnum?

Það kom margt gott út úr þessum fundi með þingmönnum. Þau lýstu öll yfir áhyggjum sínum af ástandi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga og vorum við öll sammála um það að það þyrfti að lyfta grettistaki í þeim málum.

Eins og ég vissi þá er þetta ekki eitthvað sem breytist á einni nóttu og er ég heldur ekki að fara fram á það, ég er að fara fram á það að geðsjúkdómar séu viðurkenndir og fólk geri sér grein fyrir að geðræn veikindi eru jafn mikil dauðans alvara og önnur alvarleg veikindi.

Þingmennirnir sem ég fundaði með eiga það öll sameiginlegt að vilja sjá meðferð og aðstoð við börn og unglinga með geðræn vandamál inn í almenna heilbrigðiskerfinu og því þurfi að breyta úr þeirri mynd sem þetta er í dag.

Mér þótti mjög virðingavert að þau spurðu mig hvernig ég myndi vilja sjá hlutina breytast og gat ég því sagt þeim hvernig ég myndi vilja sjá meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðræn vandamál. Ég sagði þeim einnig að það yrði að veita peninga í þennan málaflokk svo að meðferðarúrræðin gætu orðið eins góð og þau þurfa að vera.

Ég lagði einnig mikla áherslu á það að þó að við værum búsettar úti á landi þá væri mikilvægt að meðferðarúrræðin væru til staðar. Barnið mitt á ekki að líða fyrir það að búa í Vestmannaeyjum. Það er algerlega ótækt að þurfa að sækja alla þjónustu eða meðferð til Reykjavíkur. Ég sagði þeim að kostnaðurinn við að fá lækningu væri vægast sagt fáránlegur og ég hreinlega tryði því ekki að við værum að verða þannig land að aðeins ríka fólkið gæti fengið viðeigandi aðstoð.

Ég lagði gríðarlega áherslu á það að við verðum að hafa aðgang að úrræði þegar veikindin láta á sér kræla, að grípa snemma inn í er hrikalega mikilvægt því þannig er að hægt að koma í veg fyrir að veikindin ágerist og verði slæm.

Sjá einnig: Heil og sæl kæru Alþingismenn

Hefur fengið holskeflu pósta frá foreldrum

Ég sagði þeim einnig frá þeirri holskeflu pósta sem ég hef fengið frá foreldrum sem eiga börn í sömu stöðu og Emma Rakel. Það var afar átakanlegur pósturinn frá einni móður sem á 18 ára gamla stúlku sem veiktist á svipuðum aldri og Emma Rakel. Þessi unga stúlka fékk ekki viðeigandi meðferð og móðir hennar rakst sífellt á veggi í kerfinu. Í dag er verið að fylla út umsókn um örorkumat því þessi yndislega 18 ára stúlka virkar ekki lengur í samfélaginu, getur ekki mætt í skóla og hvað þá sinnt vinnu. Þetta er bara ekkert í boði í velferðarsamfélaginu Íslandi og þetta er bara ekki hægt að sætta sig við og þetta mun ég aldrei sætta mig við.

Þeir sem öllu ráða státa sig stanslaust af því hvað allt er frábært hér, samkvæmt þeim drýpur smjör af hverju strái og peningarnir hrúgast inn. Af hverju eru þá börnin okkar veik? Af hverju fer ekki eitthvað af þessu pening í þjónustu við börnin okkar og unglingana?

Ég borga mína skatta og ég ætlast til þess að fá þjónustu fyrir þann pening sem fer í skatta.

 

Ætla að leyfa mér að vera bjartsýn

Nú fórstu með litlar væntingar á fundinn. Ertu bjartsýnni á framhaldið eftir að hafa hitt kjörna fulltrúa?

Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn, það hjálpar engum að leggja árar í bát og velta sér upp úr vandamálinu. Ég gerði þessu frábæra fólki það alveg ljóst að ég ætlaði mér ekki að sitja þegjandi á hliðarlínunni á meðan barnið mitt lokaðist inn í dimmunni, ég mun berjast alla leið fyrir því að hún og önnur börn í hennar stöðu fái þá aðstoð sem þau eiga skilið og eiga rétt á.
 

Aðgengi að meðferðarúrræðum ekki nógu gott

Hver eru næstu skref í málinu?

Næstu skref eru þau að ég ætla að heyra í þeim eftir viku og þá ætlum við að skoða hvað hefur gerst, hvað er á döfinni og hvort eitthvað hafi gerst í málunum hennar Emmu Rakelar. Þá tökum við stöðuna þaðan.

Mér fannst afar áhugavert að einn þingmannanna sem ég hitti sagðist hafa hitt hóp ungs fólks fyrir síðustu kosningar, þetta var fólk um og yfir tvítugt. Hann spurði þetta fólk hvað brynni á þeim fyrir þessar kosningar. Hann sagðist hafa haldið að LÍN og húsnæðismál yrðu efst á blaði en allir í þessum hópi nefndu geðheilbrigði ungs fólks og meðferðarúrræði til handa fólki með geðræn vandamál. Hann sagði að það hefði slegið sig að allir í þessum hópi höfðu annað hvort sjálf glímt við geðræn vandamál eða einhver í þeirra nánasta vinahópi. Allt þetta unga fólk átti það svo sameiginlegt að finnast aðgengi að meðferðarúrræðum ekki nógu gott og ekki nógu skilvirkt. Þetta segir nákvæmlega allt sem segja þarf um þetta mál.

Að lokum vil ég taka það fram að ég fór afar sátt frá þingmönnum í gær. Þau sýndu veikindum Emmu Rakelar mikla samúð og hlustuðu á það sem ég hafði að segja af mikilli virðingu og samkennd. Ég fékk mikla hlýju frá þeim og þau voru svo sannarlega öll af vilja gerð til að aðstoða okkur, það verður seint fullþakkað.

 

Ásmundur: Munum leggja okkur fram um að leggja henni lið

Blaðamaður Eyjar.net ræddi stuttlega við Ásmund Friðriksson um málið:

„Mér fannst Lóa vera hetja dagsins að opna umræðuna um hennar stöðu og dótturinnar Emmu. Ég bauð Lóu a fund í Alþingishúsinu og með okkur á fundinum voru alþingismennirnir Páll Magnússon og Nicole Mosty. Við fórum yfir stöðuna og munum leggja okkur fram um að leggja henni lið og skoða stöðu fólks í sambærilegri stóðu.“ sagði Ásmundur.

 

Þessu tengt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%