Barátta Lóu heldur áfram

Hefur fengið viðbrögð frá sjö þingmönnum

Ekkert eðlilegt við það að ég sé að borga rúmlega 50.000 krónur á einum degi fyrir sjálfsagða heilbrigðisþjónustu

23.Mars'17 | 15:10
loa_bald_cr-001

Lóa Baldvinsdóttir Andersen

Bréf Lóu Baldvinsdóttur Andersen sem hún sendi til 26 alþingismanna hefur vakið gríðarlega athygli. Þar lýsir hún veikindum yngri dóttur sinnar og því úrræðaleysi sem mætir þeim í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Við ræddum við Lóu um hver viðbrögðin hafa verið við neyðarkalli hennar.

Hefur þú fengið viðbrögð við bréfi þínu til þingmanna?

Já ég hef fengið viðbrögð frá 7 þingmönnum af þeim 26 sem ég sendi. Tveir þeirra hafa beðið mig um að hitta sig og fara yfir málin og mun ég að sjálfsögðu gera það. Flestir svöruðu því til að þeir vissu ekki alveg hvert þeir ættu að benda mér eða hvað þeir gætu gert fyrir mig. En öll áttu þau það sameiginlegt að lýsa yfir áhyggjum sínum af ástandi í geðheilbrigðismálum og þá sérstaklega barna og unglinga og vilja öll beita sér fyrir bætingu í þessum málaflokki.

Ég sagði þeim að valdið væri þeirra, þau réðu hér flestu og gætu gert eitthvað í þessum málum. Ég er þessu fólki afar þakklát að hafa svarað mér og svarað mér heiðarlega. Það er mér afar mikils virði að þau hafi lesið ákall mitt til þeirra og vonandi beita þau sér fyrir því að geðheilbrigði barna og unglinga fái mikið vægi í heilbrigðismálum.

Fjöldi fólks hefur haft samband við mig sem á börn í sömu sporum og Emma Rakel, fólk sem hefur ekki talað upphátt því enn erum við að skammast okkar fyrir geðsjúkdóma. Fólk sem á börn sem hafa ekki farið í skólann í marga mánuði, hafa ekki farið út á meðal fólks í marga mánuði, börn sem hafa marg oft reynt að taka sitt eigið líf vegna þess að þeim líður svo illa.

Þetta eru börnin okkar og ég neita að trúa því að við ætlum að láta þau veslast upp í sjúkdómum sem svo vel er hægt að ráða við ef það eru settir peningar í málin og fjölskyldum veitt hjálp við að takast á við þetta.

Vill sjá þverfagleg teymi sálfræðinga, geðlækna og félagsráðgjafa í kringum þessi börn

Ertu vongóð um að fá aukna aðstoð frá hinu opinbera?

Nei, ég get ekki sagt það. Mér finnast svörin vera þannig að allir vilja gera eitthvað, allir vilja breyta þessu en hvort efndirnar verði slíkar er ég ekki vongóð um. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er erfiður málaflokkur og breytingar gerast ekki á einni nóttu. En það er einfaldlega fáránlegt að það séu fjórir sálfræðingar með rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands, einn á Selfossi, einn á Akureyri og tveir í Reykjavík. Það segir sig sjálft að þessir fjórir sálfræðingar anna ekki nema brotabroti af þeim börnum sem þurfa aðstoð.

Ég er nú  ekki sérfræðingur en er orðin ansi vel að mér í kvíða og þunglyndismálum eftir baráttu mína með stelpunum mínum og því veit ég vel að lyf slá bara á einkennin, þau bjarga engu ein og sér. Ég vil sjá þverfagleg teymi sálfræðinga, geðlækna og félagsráðgjafa í kringum þessi börn. Teymi sem styður við þau, hittir þau reglulega og veitir þeim meðferð við hæfi. Vissulega er þetta dýrt en þegar til lengri tíma litið erum við að skila út í þjóðfélagið heilbrigðum einstaklingum sem hafa fengið aðstoð við sínum sjúkdómi og ,,fúnkera“ í samfélaginu.

Í dag er mikið af einstaklingum sem virka ekki í þjóðfélaginu því þeir hafa ekki fengið meðferð við hæfi þegar sjúkdómurinn lætur á sér kræla. Og á ábyrgð hverra er það? Það er á ábyrgð yfirvalda að veita börnum og unglingum þá heilbrigðismeðferð sem þau þurfa hverju sinni.

Ég sagði einmitt Eygló Harðardóttur frá því að einn dag í febrúar fór ég með eldri dóttur minni til tannlæknis þar sem þurfti að gera við eina tönn, sú ferð kostaði 38.000. Seinna þennan dag fór ég með yngri dóttur mína til sálfræðings, sú heimsókn kostaði okkur 15.000. þannig að á einum degi þurfti ég að leita til lækna vegna barna minna og kostuðu þær heimsóknir samtals 53.000. Ég spurði Eygló í framhaldi af þessu í hvað skattarnir mínir færu ef þær færu ekki þangað. Ég vil að mínir skattar skili sér til mín þegar ég þarf á þjónustu að halda. Það er ekkert eðlilegt við það að ég sé að borga rúmlega 50.000 krónur á einum degi fyrir sjálfsagða heilbrigðisþjónustu.


Geðsjúkdómar eru stór ógn í samfélaginu

Hver eru næstu skref hjá þér í málinu?

Mín næstu skref eru að byrja á því að hitta þá þingmenn sem hafa áhuga á því og ræða þessi málefni málefnalega og lausnamiðað. Síðan er áframhaldandi barátta fyrir bata Emmu Rakelar og annarra barna í sömu sporum.

Geðsjúkdómar eru dauðans alvara alveg eins og sykursýki, krabbamein, nýrnasjúkdómar og aðrir skelfilegir sjúkdómar. Geðsjúkdómar eru stór ógn í samfélaginu okkar en enn í dag berst fólk við skömmina, skömm yfir því að vera með kvíða, þunglyndi, geðhvörf og aðra geðsjúkdóma. Við verðum að opna umræðuna um geðheilbrigði, verðum að hjálpa þeim sem berjast við þessa sjúkdóma að tjá sig, koma úr felum, bera höfuðið hátt og segja ,,Ég er veik/ur og á rétt á þjónustu og hjálp við að verða heilbrigð/ur á ný“

Ég mun aldrei hætta að berjast fyrir vitundarvakningu í þessum málum, aldrei, segir Lóa Baldvinsdóttir Andersen í samtali við Eyjar.net.

 

Bréf Lóu til þingmanna má lesa hér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%