Lóa Baldvinsdóttir Andersen skrifar:

Heil og sæl kæru Alþingismenn

Hvert færuð þið með ykkar börn ef þau væru svona veik?

21.Mars'17 | 13:59
leid

Mynd/úr safni.

Heil og sæl kæru Alþingismenn. Mig langar að segja ykkur söguna hennar Emmu Rakelar. Kannski nennið þið ekkert að lesa hana en ég ætla samt að biðja ykkur að taka nokkrar mínútur af annasömum degi til að lesa hana.

Emma Rakel fæddist 8.september 2003 og er því 13 ára að verða 14. Hún fæddist með þær allra stærstu kinnar sem ég hef séð, rauðbirkið hár og minnstu fætur í heimi, svo stuttar að Amma Halla hélt að það vantaði eitthvað á þær.....Það var samt ekki raunin, hún var bara stutt í annann endann eins og hún á kyn til. Emma Rakel var afar velkomin og tekið opnum örmum af fjölskyldunni sinni, spenntust var Kamilla Rún stóra systir, þá tæplega 5 ára.

Árin liðu og fljótlega  kom í ljós að þarna var á ferðinni magnaður karakter. Hún var alltaf glöð, alltaf brosandi og elskaði að vera til. Hún fór á leikskóla 17 mánaða, eignaðist marga vini og strax kom í ljós að þarna var á ferð upprennandi félagsmálaráðherra, ég hef aldrei kynnst eins félagslega færu barni.

Árið 2009 breyttust hagir fjölskyldunnar. Við foreldrarnir skildum og ég hélt heim til Vestmannaeyja og bjó okkur  mæðgum líf þar. Emma Rakel fór í skóla og eins og á leikskólanum blómstraði hún. Í fyrsta foreldraviðtali litlu skottunnar minnar sagði kennarinn hennar ,,Þetta er einstaklega skemmtileg og glöð stelpa, góð við alla og trúðu mér hún verður komin í unglingaráð 13 ára og mun útskrifast úr grunnskóla með fullt af viðurkenningum fyrir félagsstörf“. Emma Rakel fór út kl 7.45 á morgnana, fór í skólann og svo sá ég hana ekki meira fyrr en í kvöldmatnum því það var svo mikið að gera í fótbolta, fimleikum, leika við vini sína og hafa gaman. Fyrstu árin okkar í Eyjum voru okkur erfið þar sem Kamilla Rún glímdi við ýmis konar erfiðleika, lenti í einelti og var greind með ADHD ásamt fleiri frávikum. Skilnaðurinn tók líka á litlar sálir en með dyggri aðstoð og mikilli hjálp frá yndislega fólkinu okkar fór þetta allt vel. Emma Rakel hélt áfram að vera Sólskinsbarnið okkar, gerði hvern dag frábæran með skemmtilegu tilsvörum, jákvæðri sýn sinni á lífið og með því einu að vera til. Hún á þrjá litla bræður hjá pabba sínum og fósturmóður sem hún sér ekki sólina fyrir og elskar meira en orð fá lýst.

Í október 2015 breyttist allt. Sólskinsbarnið mitt hvarf inn í myrkrið og er enn að leita að leiðinni út. Á einni svipstundu var eins og ljósið í augunum hennar slokknaði, hún var hrædd við allt, vildi ekki fara út, vildi ekki vera innan um fólk. Emma Rakel mín sem elskaði hávaða, fullt af fólki og fjör. Í desember 2015 fórum við mamma með hana öskrandi og skjálfandi í Herjólf til að fá hjálp fyrir hana hjá barnalækni í Reykjavík því þeir eru ekki á hverju strái í Vestmannaeyjum. Eftir að ég fór að gráta inni hjá lækninum og grátbiðja um aðstoð er Sólskinbarninu mínu troðið að hjá barnageðlækni og höfum við hitt hana mánaðarlega síðan í janúar 2016 eða í bráðum 15 mánuði. Emma Rakel mín var greind með kvíða og þunglyndi og enn í dag vitum við ekki hvað kveikti það.

Á þeim 18 mánuðum sem eru liðinir síðan Emma Rakel veiktist hefur hún prófað sex tegundir lyfja, hún hittir geðlækninn sinn í Reykjavík einu sinni í mánuði og nýlega fór hún líka að hitta sálfræðing einu sinni í mánuði í Reykjavík.

Allir dagar eru barátta, hún vill sjaldnast vakna á morgnana, hún er föst í svokölluðu ,,panic-mode“ sem þýðir að hún er alltaf hrædd. Hún fer sjaldnast í skólann, fer aldrei á fótboltaæfingar, sem hún elskaði áður en hún veiktist. Emma Rakel fer örsjaldan að hitta vini sína, flesta daga er hún heima að telja í sig kjark að vera til. Emma Rakel hefur ekki hitt bræður sína síðan í desember því hún getur ekki farið frá mér í meira en hálfan dag án þess að fyllast örvæntingu og hræðslu, þetta er bara ekki sanngjarnt gagnvart þessum yndislegu systkinum, pabba hennar og fósturmóður.

Emma Rakel átti að fermast 9.apríl næstkomandi en það verður ekki. Unga fallega Sólskinsbarnið mitt getur ekki hugsað sér að vera innan um allt þetta fólk, getur ekki hugsað sér að vera miðpunktur athyglinnar og hafið í huga að þetta er barn sem elskaði að koma fram og ætlar sér að verða leikkona og söngkona......þegar henni batnar. En nei hún fær ekki fermingardaginn sinn, hún þarf að bíða þar til léttir til.

Ég er þreytt, ég er þreytt á því að barnið mitt eigi hvergi heima í kerfinu.

Ég er þreytt, þreytt á því að úrræðaleysið er algert.

Ég er þreytt, þreytt á því að borga 15.000 fyrir hvern sálfræðitíma.

Ég er þreytt, þreytt á því að þurfa að fljúga með ferðakvíðna og hrædda barnið mitt einu sinni í mánuði til Reykjavíkur til að reyna að fá lækningu.

Ég er þreytt, þreytt á því að heilbrigðisþjónusta sé svona dýr.

Ég er þreytt, þreytt á því að geta ekki gengið til geðlæknis með barnið mitt í minni heimabyggð.

Ég er þreytt, þreytt á því að besta úrræðið sem barnið mitt fær er að gefa henni lyf.

Þreyttust er ég á því að vera búin að týna sólskinsbarninu mínu. Það er sárt að horfa upp á barnið sitt hverfa inn í myrkrið og geta ekkert að gert nema halda í hendina hennar, hugga hana og reyna að sannfæra hana um að þetta verði ekki alltaf svona. Einhvern daginn finni hún gleðina sína aftur, einhvern daginn komi neistinn í augun hennar , einn daginn vakni hún og segi ,,Í dag langar mig að lifa“ ekki ,,Ég get ekki  meira mamma og vil ekki vera til.“

Kæru Alþingismenn, ég leita til ykkar því ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera lengur. Ég er búin að láta skólann tilkynna mig til barnaverndanefndar vegna þess að hún mætir lítið og ekkert í skólann. Þar fengum við frábæra aðstoð en barnavernd þarf að loka málinu því þetta er ekki barnaverndarmál, þetta er heilbrigðismál. Starfsfólk Grunnskólans í Vestmannaeyjum er búið að standa eins og klettar við bakið á okkur og allt er gert til að Emmu Rakel líði sem best í skólanum, þegar hún mætir. Námsráðgjafinn þar er líflínan hennar Emmu Rakelar og án hennar værum við ekki þar sem við erum í dag, uppistandandi.

Ég þakka fyrir á hverjum degi að við eigum afar samheldna og sterka fjölskyldu, án þeirra værum við Emma Rakel svo miklu týndari en við þó erum.

Ég veit ekkert hvort og þá hvað þið getið gert en eitthvert hljótið þið að geta beint mér. Þið sem flestu ráðið og hafið ítök á mörgum stöðum. Ég veit nefnilega fyrir víst að Emma Rakel mín er ekki eina barnið að berjast við andleg veikindi, börnin sem berjast á hverjum degi eru mörg.

Hvað á ég að gera?

 Hvert á ég að fara með Sólskinsbarnið mitt svo það fái bata?

 Hvert færuð þið með ykkar börn ef þau væru svona veik?

 

Virðingafyllst

Lóa Baldvinsdóttir Andersen

Vestmannaeyjum.

Þjóðhátíðartjald til sölu

16.Október'20

Er með til sölu þjóðhátíðartjald með innbúi. Þrír bekkir, kommóða og borð fylgir með, auk skrauts. Verð 300.000,- Nánari upplýsingar veitir Viktor í síma 845-0533.  

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.