Heilbrigðisráðherra svarar Ara Trausta

29 milljónir í sjúkraflug til og frá Eyjum í fyrra

Meðalkostnaður eins sjúkraflugs, miðað við öll sjúkraflug 2016, var 584.793 kr.

25.Febrúar'17 | 06:51
sjukrav

Sjúkravél Mýflugs á Vestmannaeyjaflugvelli.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn Ara Trausta Guðmundssonar um kostnað við sjúkraflug og fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum. Eyjar.net birtir hér spurningar Ara og svör ráðherra í heild sinni.

1.      Hver var heildarkostnaður við þau 108 sjúkraflug sem farin voru til og frá Vestmannaeyjum árið 2016 samkvæmt upplýsingum ISAVIA? Í svarinu óskast tilgreindur a) kostnaður vegna flugs með barnshafandi konur, b) kostnaður vegna alls sjúkraflugs Mýflugs, c) kostnaður vegna þyrluflugs Landhelgisgæslunnar. 

Samkvæmt Neyðarlínu voru 130 sjúkraflutningar á árinu 2016 til og frá Vestmannaeyjum, 85 sjúklingar voru fluttir frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur og 45 sjúklingar frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia voru 108 skráð sjúkraflug til Vestmannaeyja. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) með fyrirvara um að SÍ og Mýflug eiga eftir að samkeyra lokagögn fyrir árið 2016 voru skráð 113 sjúkraflug hjá Mýflugi til og frá Vestmannaeyjum á árinu 2016. Sjúkraflug á vegum Landhelgisgæslunnar voru níu talsins á árinu 2016. Munur á tölum getur stafað af því að sjúkraflug sem beðið er um í gegnum Neyðarlínuna með stuttu millibili eru í einstaka tilfellum sameinuð í eitt flug. Þá geta tveir einstaklingar verið fluttir í sömu ferð. 

    a) Kostnaður vegna flugs með barnshafandi konur frá Vestmannaeyjum á árinu 2016 var 509.177 kr., til viðbótar við fastan kostnað sem greiddur er Óttarr Proppéfyrir vakt flugmanna Mýflugs, óháð fjölda fluga. 

    b) Kostnaður við allt sjúkraflug Mýflugs á árinu 2016, að meðtöldum kostnaði við opnunargjöld flugvalla, kostnaði við sjúkraflutningamenn sem fara í sjúkraflug og læknavakt hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri var 390.781.008 kr. Þar af var kostnaður við sjúkraflug Mýflugs vegna Vestmannaeyja á árinu 2016 28.768.505 kr. 

    c) Kostnaður við þyrluflug Landhelgisgæslunnar á árinu 2016 var 8.632.576 kr., þar af var kostnaður við þyrluflug Landhelgisgæslunnar til Vestmannaeyja 1.119.038 kr. 


2.      Hver er meðalkostnaður eins sjúkraflugs miðað við öll sjúkraflug ársins 2016, hvaðanæva á landinu? 

Meðalkostnaður eins sjúkraflugs, miðað við öll sjúkraflug 2016, var 584.793 kr. 

3.      Hve stór hluti sjúkraflugs ársins 2016 var vegna barnsfæðinga kvenna sem búsettar eru í Vestmannaeyjum? 

Sjúkraflug vegna barnsfæðinga kvenna sem búsettar eru í Vestmannaeyjum voru tvö talsins á árinu 2016. Ekkert sjúkraflug var með þyrlu vegna barnsfæðinga kvenna. 

4.      Hvernig hyggst heilbrigðisráðherra bregðast við því að fjölmargar fjölskyldur þurfa að bera kostnað vegna röskunar á högum þeirra sem stafar af því að flytja þarf konur frá Vestmannaeyjum úr byggðarlaginu en þessu fylgir jafnan bæði ferða- og búsetukostnaður. 
    

Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við tvær ferðir kvenna á meðgöngu á 12 mánaða tímabili, þegar meðganga er eðlileg og eins oft og þurfa þykir að mati læknis, samkvæmt reglugerð nr. 871/2004 um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands, með síðari breytingum. 

Áformað er að nýtt sjúkrahótel á lóð Landspítala við Hringbraut verði tilbúið til notkunar á þessu ári og er gert ráð fyrir að konum af landsbyggðinni sem dvelja þurfa fjarri heimili vegna barnsfæðingar geti nýtt sér þá þjónustu fyrir fæðingu. 
Þá má benda á frumvarp um lengingu fæðingarorlofs foreldra sem bíða fæðingar fjarri heimili, en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á Alþingi. 

5.      Hyggst heilbrigðisráðherra gera Vestmannaeyingum kleift að sækja fæðingarþjónustu til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum og þá hvenær?     

Við skipulag heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er lögð áhersla á að tryggja grunnþjónustuna, þar með talið mæðravernd og ung- og smábarnavernd. 

Í Vestmannaeyjum er starfsrækt svokölluð ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta sem samkvæmt skilgreiningum embættis landlæknis kallast D-1 fæðingarstaður. Konur með litla fæðingaráhættu samkvæmt þessum skilgreiningum geta sótt fæðingarþjónustu til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. 

Fyrir konur í áhættuhópi er mikilvægt að tryggja mönnun heilbrigðisstarfsfólks með reynslu, teymi sem getur fimlega gripið inn í ef á þarf að halda í fæðingunni og reyndan barnalækni við endurlífgun nýbura. Til að öðlast færni og til að tryggja öryggi móður og barns þarf teymið mikla reynslu og færni í áhættufæðingum. 

Þá er sjúkraflug tryggt frá landsbyggðinni á sjúkrahús með sérhæfða starfsemi. Í gildi eru tveir samningar um sjúkraflug, annars vegar við Mýflug og hins vegar við Landhelgisgæsluna. 

Fjöldi fæðinga á árinu 2016 með lögheimili móður í Vestmannaeyjum var 42 talsins. Eftirfarandi tafla sýnir fæðingarstaði mæðra í póstnúmeri 900 á árinu 2016. Upplýsingarnar eru fengnar úr fæðingarskrá, en samkvæmt henni völdu þrjár konur að fæða í Vestmannaeyjum á síðastliðnu ári. 

Ár

 

Heiti stofnunar
Póstnr. móður Fjöldi fæðinga
2016 Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands, Akra­nesi 900 14
2016 Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands, Vest­manna­eyj­um 900 3
2016 Heil­brigðis­stofn­un Suður­nesja 900 1
2016 Land­spítali, fæðing­ar­vakt 23B 900 22
2016 Land­spítali, meðgöngu- og sæng­ur­legu­deild 22A 900 2
  Samtals   42
 

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...