Yfirlýsing bæjarstjórnar - um meint áhrifaleysi

Árangur hefur náðst og áfram skal haldið

- Þegar verið tekin ákvörðun um fleiri ferðir, eitt gjald í skipið, lengri sumaráætlun og margt fl.

8.Febrúar'17 | 14:30

Skoðanaskipti eru mikilvæg og umburðalyndi forsenda þess að þau verði árangursrík.  Í Vestmannaeyjum erum við svo heppin að vera með öfluga héraðsfréttamiðla sem færa okkur fréttir, dægrastyttingu og upplýsingar um það sem á döfinni er í Vestmannaeyjum. 

Kjörnir fulltrúar eiga ekki að veigra sér við þátttöku í slíkri umfjöllun og jafnvel þegar rómurinn hækkar verða þeir að standa keikir og veita yfirveguð og málefnaleg svör. 

Meint árangursleysi

Nýverið birti eyjar.net nafnlausa grein undir orðunum „Lítil vigt í bæjarstjórn“.  Þar var því haldið fram að áhrifaleysi bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum væri svo algert að nánast mætti tala um dugleysi.  Ekkert væri gert og þar af leiðandi næðist aldrei neinn árangur.  Til voru týnd nokkur rök fyrir áhrifaleysinu. Það er hvimleitt þegar miðlar stuðla að birtingu nafnlausra greina þar sem verið er að miðla röngum upplýsingum til lesenda. Skrifandi greinarinnar hefði mátt gefa sér örlítinn tíma til að kynna sér betur málefnið sem hann valdi sjálfur til að fjalla um.

Skrifari ekki kynnt sér útboðsgögn Vegagerðar

Val skrifara var að nota ályktun bæjarstjórnar frá 28. janúar þar sem bæjarfulltrúar gerðu grein fyrir áhersluatriðum sínum hvað varðaði útboð á nýrri Vestmannaeyjaferju.  Í júní sama ár leit útboð Ríkiskaupa dagsins ljós (útboð nr. 20127).  Svo virðist sem skrifari greinar um litla vigt bæjarstjórnar hafi ekki kynnt sér hvort að tekið hafi verið tilllit til ábendinga bæjarstjórnar áður en hann valdi að halda því fram að engin árangur hafi náðst.

Umræðan enn og aftur afvegaleidd

Undirrituð telja tilgreind skrif ekki málefnaleg og halli þar verulega á sanngirni gagnvart bæjarstjórn.  Ennfremur, og það sem verra er, að í skrifunum er umræðan um samgöngumál enn og aftur afvegaleidd og við það geta bæjarfulltrúar ekki unað.  Nægur er óttinn við framtíðina og óánægja með stöðu dagsins í dag þótt við bætist ekki villandi eða hreinalega rangar upplýsingar um framtíðina. 

Verður hér farið yfir rök skrifara eyjar.net fyrir meintu áhrifaleysi og lesendum eftirlátið að meta hvort árangur hafi náðst eða ekki.

 

  • Fargjald í Þorlákshöfn – frá og með næsta ári verður bara eitt gjald.

Skrifari telur bæjarstjórn áhrifalausa fyrst að ekki hefur verið tryggt að sama fargjald gildi í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn.  Hér er skrifari annaðhvort að fara með rangt mál vísvitandi eða þá að hann þekkir ekki betur til.  Hið rétta er að ákveðið hefur verið að á næsta ári þegar hin nýja ferja kemur verði rekstraraðila óheimilt að rukka almenna farþega meira þegar siglt er í Þorlákshöfn og var sérstaklega tekið á því í útboði á ferjunni.  Þótt gjaldið sjálft sé hærra en bæjarstjórn vill sætta sig við og þótt breytingin komi ekki fyrr en á næsta ári þá er með öllu ómálefnalegt að saka bæjarstjórn um áhrifaleysi hvað þetta varðar þegar árangur baráttunnar blasir við.  Vissulega er gjaldið hærra en ásættanlegt er og þarf að ná fram lækkun á því eða í öllu falli að afsláttarfargjöld heimamanna tryggi þeim hagstæðari fargjöld. 

 

  • Ferðafjöldi – frá og með næsta ári verður ferðum fjölgað.

Hér er skrifari aftur annaðhvort að fara vísvitandi með rangt mál eða þá að hann þekkir ekki betur til.    Vissulega myndi bæjarstjórn Vestmannaeyja helst vilja að Herjólfur myndi sigla allan sólarhringinn alla daga en það að setja fram háleitar kröfur gerir ekki léttvægt þegar ferðum er fjölgað.  Árangur sem gerist í þrepum er eftir sem áður árangur.  Á seinasta ári náðist enn eitt baráttumál bæjarstjórnar í gegn því nú er gert ráð fyrir að á næsta ári verði ferðum fjölgað í vetraráætlun og verði að lágmarki 4  (eins og farið er fram á í álytkun bæjarstjórnar sem vísað er í til sönnunar um áhrifaleysi).  Þá skiptir ekki minna máli að í útboðið er byggð áætlun um sjálfvirka fjölgun ferða bæði í sumar og vetraráætlun því orðrétt segir í útboðsgögnum ríkiskaupa:   „Ef fjöldi farþega á viðkomandi vikudegi,  hvort heldur sem er á sumar- eða vetraráætlun, er að meðaltali yfir 190 farþegar verður áætlunin endurskoðuð með það í huga að fjölga ferðum.“  Er slíkt gert til að draga úr biðlistum.

 

  • Árstíðarbundin áætlun – sumaráætlun verður lengd verulega

Vísað er til tímalengdar sumaráætlunar sem dæmi um áhrifaleysi bæjarstjórnar.  Sem sagt að sumaráætlun sé ekki eins og bæjarstjórn hefur farið fram á.  Hið rétta er að frá og með næsta ári verður sumaráætlun lengd eins og farið er fram á í ályktun bæjarstjórnar og mun hún gilda frá 1. maí til 30. september.  Þessa daga verða þá að lágmarki farnar 5 ferðir alla virka daga og sex á föstudögum og sunnudögum.  Eins og fyrr segir er síðan í útboðsskilmálum kveðið á um fjölgun ferða að ef fjöldi farþega er að meðaltali yfir 190 á viðkomandi vikudögum.

 

  • Bókunarkerfi- sérstaklega er tekið á bókunarkerfi í nýju útboði

Enn er máli hallað.  Bæjarstjórn hefur vissulega ítrekað lýst vonbrigðum sínum með bókunarkerfi Herjólfs og farið fram á úrbætur.  Þær hefðu sannarlega þyrft að koma fyrr en eftir sem áður er það fagnaðarefni að í seinasta útboði á rekstri skipsis er gerð krafa um að bókunarkerfi sé vandað og að hægt sé að vinna beint á það í gegnum netið.  Gerð er krafa um að það sendi tölvupósta og SMS í farsíma auk þess sem hægt sé að tengja það við miðasjálfssala.  Þá skal bókunarkerfið geta haldið beint utan um afsláttarmiða og margt fl.  Gefinn er kostur á að nýta núverandi kerfi og gera þá nauðsynlegar breytingar á því.  Búast má við að með meiri öryggi í siglingum skipsins lengist síðan sá tími sem hægt er að bóka í skipið. 

 

  • Helgidagar – frá og með næsta ári siglir skipið alla daga ársins nema jóladag.

Því er haldið fram að ekki hafi náðst árangur hvað varðar að fækka þeim helgidögum sem ekkert er siglt milli lands og Eyja.  Það er hreinlega rangt.  Miðað við nýjasta útboð Ríkiskaupa  verður það eingöngu á jóladag sem skipið siglir ekki.  Á aðfangadag, gamlársdag og páskadag verða farnar 3 ferðir.  Á Nýársdag og föstudaginn langa verða farnar 2 ferðir.  Aðeins á jóladag falla ferðir alveg niður, hina 364 dagana siglir skipið.  Þótt farið hafi verið fram á að skipið myndi sigla að lágmarki 3 ferðir á stórhátíðum þá má ekki vanmeta þann árangur sem þó náðist í útboðinu.

 

  • Þjónusta um borð – skýrt kveðið á um góða þjónustu um borð


Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hvatt til þess að þjónusta um borð í ferjunni verði í samræmi við að um er að ræða fólksflutninga og ferðaþjónustu. Þannig sé til að mynda gerð krafa um nettengingu, góða leikaðstöðu fyrir börn, veitingaþjónustu og ýmislegt fl.  Í nýjasta útboði á Vestmannaeyjaferju er skýrt kveðið á um að bjóða skuli upp á internetsamband um borð í ferjunni, góð leikaðstaða skal vera fyrir börn með aðgengi að sjónvarpi, veitingarekstur skal vera um borð, boðið verður upp á flutning á bíl án bílstjóra  og ýmislegt fl. 

 

  • Gjaldtaka fyrir afnot af þjóðvegi:

Rétt er það að þeim árangri hefur enn ekki náðst að kippa í liðinn á þessu kjörtímabili frekar en seinustu kjörtímabil. Það má deila um það hversu sanngjarnt það er að saka bæjarstjórn um að láta ekki verkin tala þótt að enn hafi ekki tekist að fá þessari kröfu mætt, frekar en að líta til þess að enn munum við ótrauð halda henni áfram þar til að það tekst.

 

Náðst hefur markverður árangur

Samgöngu- og heilbrigðismál eru veigamestu mál samfélagsins í Eyjum.  Þessi mál eiga það sammerkt að vera í forsjá ríkisins og þar með á ábyrgð þings og ríkisstjórnar en ekki bæjarstjórnar.  Bæjarfulltrúar í Eyjum hafa þó í gegnum tíðina ekki talið eftir sér að berjast af fullu afli fyrir úrbótum hvað þetta varðar.  Oft hefur staðið á árangri og stundum hefur skilningsleysi þeirra sem í raun bera ábyrgð verið átakanlegt.  Sú er ekki staðan núna því eins og sést af ofangreindri upptalningu þá náðist markverður árangur í útboði á rekstri hinnar nýju ferju sem hefja á siglingar á næsta ári.  Þótt sannarlega hefðu bæjarfulltrúar viljað að úrbætur kæmu fyrr þá er þetta árangur sem sanngjarnt væri að upplýsa lesendur um frekar en að einblína eingöngu á þau atriði sem ekki hefur tekist að koma í gegn.

 

Áfram þarf að ganga veginn til góðs

Við undirrituð erum þó hvergi södd og munum við óhrædd halda áfram að setja fram kröfur á ríkið í þeim tilgangi að ná fram úrbótum.  Nú þegar er búið að tryggja nýtt skip, fleiri ferðir, aukna þjónustu, eitt gjald, lengri sumaráætlun og fl. Nú eykst þunginn á kröfu um það sem snýr að höfninni sjálfri.  Undirritaðir bæjarfulltrúar ætlast nú til þess að eigi síðar en núna í vor liggi fyrir áætlanir um hvernig tryggja megi nægt dýpi fyrir hið nýja skip og í framhaldi verði ráðist í aðgerðir og fjárfestingar.  Þá þarf einnig að halda áfram leit að verkfræðilegri lausn sem auðveldað getur skipum aðsiglingu að höfninni hvort sem það verður með breytingu á görðum eða öðrum leiðum.

Baráttan heldur áfram og samstaðan er líklegust til árangurs.

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar

Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs

Elliði Vignisson, bæjarfulltrúi og bæjarstjóri

Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi

Birna Þórsdóttir, bæjarfulltrúi

Stefán Jónasson, bæjarfulltrúi

Auður Ósk Vilhjálmsdóttir, bæjarfulltrúi

 

Þessu tengt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...