Trausti Hjaltason skrifar:

Bæjarstjórn mun áfram berjast fyrir hagsmunum Vestmannaeyja

Eitt skref í einu

31.Janúar'17 | 14:36
trausti_hj

Trausti Hjaltason

Á þeim stutta tíma sem ég hef setið sem bæjarfulltrúi hef ég orðið vitni af sífelldri baráttu fyrir okkar hagsmunum af hálfu bæjarstjórnar. Það mál sem hefur fengið hvað mestan fókus eru samgöngumál. 

Nú nýverið náðist loksins ákveðin áfangi í þeirri baráttu þegar skrifað var undir samning um smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Eðli málsins samkvæmt eru önnur sveitarfélög í sífellu að kalla eftir betri samgöngum. Krafan á öðrum stöðum er t.a.m. að: Tvöfalda vegi, fækka einbreiðum brúm, mislæg gatnamót, malbika vegkafla og svona mætti lengi telja. Hverri krónu er bara eytt einu sinni og því þarf að forgangsraða hjá ríkinu. Þessum áfanga ber því að fagna og þurfti svo sannarlega að halda þeirri kröfu á lofti gagnvart ríkisvaldinu að samgöngubætur til Vestmannaeyja væru mikilvægar.

Árangur hefur náðst

Til að nefna fleiri af þeim málum sem bæjarstjórn hefur í gegnum tíðina barist fyrir, til að gæta okkar hagsmuna, þá má m.a. nefna:

Lögreglan: Auknir fjármunir til að halda úti lögregluvakt allan sólahringinn allt árið.

Sýslumaðurinn: Að halda sýslumanninum í Vestmannaeyjum þegar þeim var fækkað um land allt.

Lögreglustjórinn: Að halda lögreglustjóranum í Vestmanneyjum þegar þeim var fækkað um land allt.

Heilbrigðisstofnunin: Að hreinsa upp skuldahalla sem aftraði starfsemi HSU, sálfræðiþjónusta á heilsugæsluna, aukin koma sérfræðinga til Eyja, læknum hefur aftur fjölgað, framkvæmdir innanhúss.

Málefni aldraða: Að fá framlag í viðbyggingu við Hraunbúðir og fjölga þjónustuíbúðum.

Málefni fatlaðra: Að fá framlag frá ríkinu í að fjölga íbúðum fyrir fatlaða.

Haftengd nýsköpun: Að koma á fót staðbundnu háskólanámi í Vestmanneyjum.

Listin er svo sannarlega ekki tæmandi.

Sífelldar árásir á landsbyggðina

Svo ekki sé nefnt sífelldar árásir eða glórulausar hugmyndir um niðurskurð hér og þar á landsbyggðinni. Ég upplifi landsbyggðina vera í sífelldri varnarbaráttu og við þurfum í sífellu að vera að láta finna fyrir okkur til að halda okkar og geta mögulega sótt eitthvað fram.

Þjónusta sveitarfélagsins mikilvæg

Það hefur alltaf talið vera vænlegt að láta verkin tala. Hlutverk bæjarstjórnar er margþætt. Bæjarstjórn ber auðvitað ábyrgð á því að sú þjónusta sem sveitarfélaginu er falið að sinna sé í lagi. Líkt og: Leik- og grunnskólaþjónusta, félagsþjónusta, hafnarþjónusta, skipulagsmál, söfn bæjarins, íþróttamannvirki og svo framvegis. Sú þjónusta sem ríkið veitir er af öðrum toga, þar hefur bæjarstjórn það hlutverk að verja hagsmuni og berjast fyrir hagsmunum sveitarfélagsins. Líkt og: Löggæsla, sýslumaðurinn, framhaldsskólinn, sjúkrahúsið, heilsugæslan, samgöngur og svo framvegis.

Munum áfram láta í okkur heyra

Hjá Sjálfstæðisflokknum í Eyjum látum við vel í okkur heyra á landsvísu, erum mjög virk og virt á Landsfundum þar sem stefnan er mótuð. Pólitískir fulltrúar og aðrir flokksmenn eru í góðu sambandi við þingmenn og ráðherra og eru í sífellu að berjast fyrir okkar málstað. Af nægu er að taka t.d.: Fargjöld í Herjólf, fjölgun ferða, bættar flugsamgöngur, skurðstofuvakt og aukin fæðingarþjónusta, sjúkraþyrla, hér væri hægt að halda lengi áfram.

Staðan er hins vegar sú að það eru fjölmörg sveitarfélög á öllu landinu að berjast fyrir sínu. Krafan um bætta þjónustu og meiri aðgerðir af hálfu ríkisins er hávær víða. Þess vegna er baráttunni hvergi nærri lokið og mun í raun aldrei ljúka.

Verum upplitsdjörf

Við sem samfélag þurfum samt að vera upplitsdjörf og horfa fram á veginn, sjá tækifærin til sóknar og nýta okkur þau eins vel og mögulegt er.

 

Trausti Hjaltason

Bæjarfulltrúi 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.