Fram hjá spítalanum á leið í sjúkraflug

26.Janúar'17 | 08:02

Staðan í heilbrigðismálum hér í Vestmannaeyjum er hreint út sagt afleit. Í stað þeirrar nærþjónustu sem tók áratugi að byggja upp eru sjúklingar í stórauknum mæli fluttir að þjónustunni í Reykjavík, í stað þess að fá hana hér í bæjarfélaginu. 

Hagræðið í þessu er náttúrlega ekkert því ofan á alla beina heilbrigðisþjónustu vegna læknisþjónustu, lyfja, legu og fleira bætist rándýr flutningskostnaður,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Vísir.is greinir frá.

Um land allt?

Hafi eitthvert eitt mál staðið upp úr í aðdraganda alþingiskosninganna í október þá voru það heilbrigðismálin. Umræðan um þennan mikilvæga málaflokk snerist um stöðuna á Landspítalanum en minna fór fyrir umræðu um stöðu heilbrigðisstofnana úti um land – en það er kunnara en frá þurfi að segja að niðurskurður þjónustunnar hefur ekki síður bitnað á þeim en þjóðarsjúkrahúsinu. Krafa tæplega 90 þúsund Íslendinga, sem skrifuðu nafn sitt undir undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, um að ríkið verji ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála, var útgangspunktur umræðunnar. Þegar svo mjög er rætt um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, stendur eftir sú stóra spurning hvort verið sé að tala um sterkan Landspítala eða sterkar heilbrigðisstofnanir um allt land.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, sem nú hefur verið sameinuð undir merkjum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hefur ekki farið varhluta af niðurskurði. Vegna sérstöðu sveitarfélagsins brennur það kannski frekar á íbúum Vestmannaeyja en annarra, að grunnþjónusta sé aðgengileg á staðnum. Þessu má finna stað í fundargerðum sveitarfélagsins mörg ár aftur í tímann – sem eru allar áþekkar.
 

70% fleiri sjúkraflug

Á fundi bæjarráðs 13. janúar 2015 er bókað: „Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af versnandi stöðu heilbrigðismála í Vestmannaeyjum og vaxandi kostnaðar vegna sjúkraflugs til og frá Eyjum. Það þarf ekki að koma á óvart að eftir því sem þjónusta á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur verið skert þá hefur kostnaður vegna sjúkraflugs aukist. Staðreyndin er enda sú að fólk veikist og slasast alveg jafnt þótt heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sé skert. Breytingin er því eingöngu sú að þjónusta sem áður var veitt t.d. á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er nú veitt í Reykjavík. Skerðing á bráðaþjónustu og viðbragðsgetu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hefur því orðið til þess að frá 2013 til 2014 er um 70% fjölgun í sjúkraflugi að ræða.“ Enn fremur er vikið að því að kostnaður við hvert sjúkraflug er verulegur eða 600 þúsund krónur. Árin 2013, 2014, 2015 og 2016 voru sjúkraflug frá Eyjum yfir hundrað talsins og töluverður fjöldi þeirra hefði verið óþarfur ef skerðing á þjónustu hefði ekki komið til.

Elliði segir að það alvarlegast að í Eyjum er ekki starfrækt skurðstofa sem ræður bæði við neyðarþjónustu og einfaldari aðgerðir og hins vegar að ekki skuli vera veitt full fæðingarþjónusta.

„Stundum hefur því verið fleygt framan í okkur að læknar vilji ekki búa á landsbyggðinni og því væri ekki hægt að manna þessar stöður. Fyrir nokkrum árum létum við reyna á þessar fullyrðingar og í ljós kom að þær voru hreinlega rangar. Með ríkum vilja var til að mynda bæði hægt að fá til starfa svæfingar- og skurðlækni á stofnunina hér í Eyjum. Það sem vantar er fyrst og fremst pólitískur vilji,“ segir Elliði og bætir við að fyrir sjúklinga og aðra þjónustuþega, svo sem foreldra sem eiga von á barni, sé ástandið hroðalegt.

„Fæðing er náttúrulega stærsta stund hverra foreldra og í raun hverrar fjölskyldu. Fyrir velferðarríki eins og okkar er fráleitt að tvístra fjölskyldum á slíkum stundum. Eldri börnum þarf jafnvel að koma í pössun, ömmur og afar hafa ekki tök á að veita stuðning og foreldrarnir sjálfir að taka sér frí frá vinnu langt umfram það sem annars myndi gerast. Þar ofan á bætist svo gríðarlegur kostnaður vegna leigu á húsnæði í borginni, uppihalds og margs fleira. Sé ríkið að sjá einhverjar krónur í hagræðingu á þessu fyrirkomulagi þá er alveg ljóst að verið er að flytja kostnaðinn margfalt yfir á sjúklinga og foreldra,“ segir Elliði.

 

Vísir.is greindi frá. Nánar má lesa um málið hér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.