Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ:

Búist við að hlutfall aldraðra haldi áfram að aukast

Árið 2000 var hlutfall 67 ára og eldri í Vestmannaeyjum 7,7 % en var árið 2016 komið upp í 13,6 %.

20.Janúar'17 | 15:42
IMG_5055

Myndin er tekin sl. sumar þegar haldin var mini Þjóðhátíð á Hraunbúðum.

Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ lítur um öxl yfir það sem gerðist á liðnu ári og horfir fram á við og lætur sér hlakka til þess sem framundan er. 

Fyrsti heildstæði rammasamningurinn

Það sem helst ber að nefna á liðnu ári og tengist Hraunbúðum er að Sjúkratryggingar Íslands gáfu í fyrsta skiptið út heildstæðan rammasamning sem kveður á um þá þjónustu sem hjúkrunar- og dvalarheimili eiga að veita. Hraunbúðir gerðust aðilar að þeim samningi í nóvember síðastliðnum.  Hingað til hefur hjúkrunarheimilið verið rekið fyrir daggjöld sem ríkið hefur lagt til án samninga.  Þau daggjöld hafa hins vegar aldrei dugað til og hefur Vestmannaeyjabær lagt til það sem upp á hefur vantað.  Það er þó aldrei of oft sagt að rekstur hjúkrunarheimila er á ábyrgð ríkissins og því mjög sérstakt að sveitarfélagið þurfi að leggja fram umtalsverðar fjárhæðir á hverju ári til að reksturinn gangi upp. En það er þó staðreyndin, en með nýjum samningi færumst við skrefi nær sanngjarnari greiðslum frá ríkinu.  Samhliða nýjum samningi var tekin ákvörðun um að nýta aukin framlög í að bæta mönnunina og hefur sú breyting nú þegar tekið gildi.

Það jákvæða við rammasamninginn sem Hraunbúðir gerðust aðilar að, er að hann markar ákveðin tímamót fyrir þá sem veita þjónustuna og ekki síður notendur þjónustunnar.  Samfylgjandi samningnum er lagt upp með að hjúkrunarheimilið veiti þjónustu út frá kröfulýsingu þar sem fram kemur hvaða þjónustu skuli veita og hvað ekki.  Hjúkrunarheimilið Hraunbúðir mun leggja sig fram um að fylgja þeirri kröfulýsingu eftir og hefur umtalsverð vinna farið fram undanfarnar vikur og mánuði við að innleiða það sem upp á vantar, styrkja það sem er til staðar og þar er lögð sérstök áhersla á gæðamálin. Sú vinna mun halda áfram á árinu vonandi heimilismönnum Hraunbúða til hagsbóta.

Byrjað að byggja 5 herbergja viðbyggingu við austurenda hússins

Á árinu var hafist handa við 5 herbergja viðbyggingu við austurenda hússins. Við fögnum því þar sem með því erum við að undirbúa okkur fyrir fjölgun aldraðra í samfélaginu á næstu árum en mannfjöldaspár segja okkur að hlutfall aldraðra haldi áfram að aukast.  Árið 2000 var hlutfall 67 ára og eldri í Vestmannaeyjum 7,7% en var árið 2016 komið upp í 13,6%. 

Með viðbyggingunni gefst okkur tækifæri til að útbúa nýja deild fyrir fólk með heilabilun og skylda sjúkdóma til að hlúa sem best að þeim einstaklingum. Við höfum reyndar ekki fengið samþykki fyrir að taka fleiri einstaklinga inn en erum bjartsýn á að ríkið verði okkur hliðhollt með það og það verði fyrr en varir.   Vonir standa til að hægt verði að opna deildina á þessu ári sem er gríðarlega spennandi viðbót.

Einnig standa yfir innanhússframkvæmdir

Innanhúss standa yfir framkvæmdir við bætta aðstöðu fyrir dagþjónustu og tómstundastarf, mun þá föndurstofan færast í vesturenda matsalar og dagþjónusta verða rekin þaðan.  Þær framkvæmdir ásamt því að stöðugt eykst fjölbreytni í tómstundastarfinu gefa okkur tilefni til vona um að fólkinu muni líða enn betur hjá okkur. 

Dýrmætur mannauður

Það eru þó ekki spýtur og brall sem segja mest til um hvernig hlúð er að eldri borgurum, ég tel okkur á Hraunbúðum búa yfir dýrmætum mannauð í hópi starfsmanna sem leggur sig fram um að gera sem best hann má til að fólki líði vel hjá okkur.  Á hinn bóginn búum við sem hér vinnum svo að því að fá tækifæri til að kynnast öllu þessu yndælisfólki sem til okkar kemur og endar ævina á að búa á Hraunbúðum.  Við fáum margt af þeim lært, enda viska og þekking eldri kynslóða dýrmætur arfur til þeirra sem yngri eru.

Á árinu 2017 höldum við áfram að gera góðar Hraunbúðir enn betri, segir í grein Sólrúnar sem birt var á heimasíðu Hraunbúða.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%