Ársskýrsla Slökkviliðsins:

Vöntun á öflugum stigabíl og nýrri slökkvistöð

16.Janúar'17 | 14:12

Síðastliðið ár var að flestu leyti hefðbundið starfsár hjá Slökkviliði Vestmannaeyja en jafnframt krefjandi og spennandi þar sem þetta var fyrsta starfsár undirritaðs sem slökkviliðsstjóra en fyrrverandi slökkviliðsstjóri, Ragnar Þór Baldvinsson lét af störfum fyrir aldurs sakir þann 1.1.2016 eftir 44 ára starf.  

Ásamt Ragnari létu einnig af störfum þeir Þórarinn Sigurðsson og Óskar Árnason en þeir voru báðir búnir að vera í liðinu í 42 ár eða síðan um gos. Þetta segir í ársskýrslu slökkviliðsstjóra Vestmannaeyja, Friðriks Páls Arnfinnssonar. Þar segir ennfremur:

En maður kemur í manns stað og fljótlega í byrjun árs vorum við búnir að fá til okkar þrjá nýja menn sem eru búnir að vera í verklegri þjálfun í slökkviliðinu ásamt því að taka bókleg námskeið hjá Mannvirkjastofnun sem endar svo í verklegu prófi. Hluti liðsins fór svo einnig á námskeið í aðgerðarstjórnun hjá Almannavörnum í lok janúar. Vinna við gerð slökkviáætlana fyrir stærri áhættur í bæjarfélaginu hefur verið í gangi s.l. ár og miðar vel áfram. 

Í febrúar var gerður samstarfssamningur á milli Slökkviliðs Vestmannaeyja og Isavia á Vestmannaeyjaflugvelli sem felur í sér aukið samstarf og samvinnu á milli þessara tveggja aðila þ.á.m er sameiginlegt æfingarsvæði sem staðsett er innan flugvallarsvæðis og er uppbygging þess vel á veg komin, en það á eftir að auðvelda og auka möguleika okkar á að æfa slökkvistörf við raunverulegar aðstæður þ.e. með hita, eldi og reyk auk klippuvinnu. Auk þess var gerður samstarfssamningur við Vestmannaeyjahöfn sem gefur slökkviliðinu möguleika á að nota mengunarvarnabúnað hafnarinnar ef þurfa þykir. Samstarf við aðra viðbragðsaðila svo sem sjúkrabíl, lögreglu og björgunarsveit var einnig mikið og hefur verið rætt um að auka það enn frekar á komandi misserum, meðal annars með sameiginlegum æfingum. 

  Í  sumar fengum við svo nýja dælu í 91-131 sem er okkar aðal dælu- og tækjabíll en sú gamla var orðin 25.ára gömul og í rauninni var orðið tímaspursmál hvenær hún myndi stoppa endanlega. Það var því mikill léttir þegar sú nýja var komin í og farin að virka eðlilega. Auk þess var töluvert viðhald og endurnýjun á öðrum búnaði liðsins s.s. göllum, hjálmum og fl.

Undanfarin þrjú ár hefur fjöldi útkalla hjá slökkviliðinu verið á undanhaldi og eru það jákvæðar fréttir en á síðasta ári var heildarfjöldi útkalla frá Neyðarlínunni 12. og er það undir meðaltali útkalla síðustu tíu ára en minnst fór það í 8. útköll árið 2014. Undirritaður vill meina að þessa fækkun útkalla megi þakka öflugum forvörnum, betri búnaði s.s. brunaviðvörunarkerfum og svo aukinni vitund fólks um eigið öryggi og mikilvægi þess að hafa brunavarnir í lagi hvort sem það er heima eða á vinnustöðum.

 

Af þessum 12 útköllum voru.....

  • Eldur/reykur                                     7
  • Umferðarslys(hreinsun)                 3
  • Flugvél í neyð                                  1
  • Vatnstjón                                          1  

Af þessum sjö eldútköllum voru þrjú alvarlegs eðlis og í forgangi F1 og F2

21.02.2016 Foldahaun 42 varð altjón á íbúð á þriðju hæð fjölbýlishúss þar sem tveir húsráðendur náðu að koma sér naumlega undan.
27.07.2016 Illugagata 31 kviknaði í potti á eldavél, húsráðendur náðu að slökkva
11.08.2016 Áshamar 71 kviknaði í uppþvottavél á fyrstu hæð fjölbýlishúss, mikill reykur

Önnur eldútköll reyndust minniháttar eða óveruleg.

Í nóvember s.l. heimsóttum við 3.bekk Hamarsskólans í tenglsum við Eldvarnaviku Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem farið var yfir brunavarnir og eldhættur á heimilum, börnin frædd um eldvarnir og slökkvi- og björgunarbúnað og þeim sýnt hvernig reykkafari lítur út í fullum herklæðum. Að lokum voru þau svo leyst út með gjöfum og verkefnum. Í desember var svo farið á Víkina þar sem elstu leikskólabörnin fengu álíka kynningu á slökkviálfunum Loga og Glóð. Auk þessa voru haldnar æfingar og kynningar á eldvörnum hjá stofnunum og fyrirtækjum. Reglubundar æfingar hjá liðinu voru alls 28. á s.l. ári.

Eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnanna er einn af mikilvægustu þáttunum í starfi hvers slökkviliðs og hefur skoðunum fjölgað undanfarin ár með tilkomu nýs og betra skoðunarkerfis en á síðasta ári voru samtals 86. aðgerðir hjá eldvarnaeftirlitinu.

Af þessum 86 aðgerðum voru.....

  • Umsagnir(tækifæris og rekstrarleyfi)           56
  • Skoðanir                                                         30

Slökkkviliðið stendur líka alltaf öryggisvaktir þegar tankskip olíufélaganna losa bensínfarma í Vestmannaeyjum og voru alls 9 slíkar öryggisvaktir á síðasta ári.

Slökkviliðin í landinu eru ein af grunnstoðum hvers bæjarfélags og mikilvægt að þau séu það vel búin tækjum og mannskap að þau ráði við þau verkefni sem upp geta komið hverju sinni. Sú er þó ekki raunin allstaðar því í góðæri og uppbyggingu undanfarinna ára hefur víða gleymst að styrkja grunnstoðirnar og uppfæra tæki og búnað liðanna í takt við nýjar og stærri byggingar og aukinn fjölda ferðamanna og umferðarslysa.

Slökkvilið Vestmannaeyja er eitt þessara liða sem að auki býr við þá sérstöðu að vera einangrað svo bæði erfitt og seinlegt er að fá sérhæfða aðstoð  hvort sem er í formi manna eða tækja ef á þarf að halda og því ennþá mikilvægara að liðið sé það vel tækjum og mönnum búið að það ráði við þau verkefni sem eru á starfssvæði þess.

Slökkvilið Vestmannaeyja hefur alla tíð verið vel mannað (30 manns) öflugum og viljugum mönnum sem flestir þekkja vel sitt nærumhverfi og þær hættur sem þar eru og liðið er þokkalega vel búið tækjum miðað við stærð bæjarfélags en eins og víða annarsstaðar þá eru flest tækin(bílarnir) orðin gömul og viðhaldsfrek þó svo reynt sé að uppfæra og endurnýja eftir efnum og aðstæðum.

Það sem tilfinnanlega háir okkar starfsgetu í dag, og hefur lengi gert, er vöntun á öflugum stigabíl og nýrri slökkvistöð sem rúmar þann búnað og býður upp á þá aðstöðu sem lög og reglugerðir kveða á um á 21. öldinni. Í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur verið hér s.l. ár og stefnir í á næstu misserum er ljóst að mikið lengur er ekki hægt að bíða eftir þessum nauðsynlegu úrbótum ef slökkviliðið á að geta sinnt sínu starfi  í framtíðinni á öruggan og faglegan hátt, segir Friðrik Páll slökkviliðsstjóri í árskýslunni.

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.