Áramótauppgjör Elliða bæjarstjóra

Staða Vestmannaeyja sögulega sterk

- Þótt blikur séu á lofti hefur árið 2017 alla burði til að verða okkur gott.

2.Janúar'17 | 10:06

Eins og öll ár skiptist á með skin og skúrum hjá mér persónulega á árinu 2016.   Kaflar voru jafnvel erfiðir en einhvern veginn færir lífið okkur ætíð nægilega birtu til að eyða öllum skuggum.

Þegar frá líður skapa svo erfiðu stundirnar tækifæri til þroska og lærdóms.  Samfélagið getur verið grimmt og jafnvel vel gert fólk getur gleymdi þeirri gullnu reglu að aðgát skal höfð í nærveru sálar.  Þetta á ekki síður við um Vestmannaeyjar en önnur samfélög.  Hvað sem öllu því líður þá er ekki sjálfgefið að fá að taka á móti nýju ári umvafinn ástvinum.  Að líta yfir árið og njóta þeirrar gæfu að börnin manns, vinir og fjölskylda skuli halda lífi og heilsu eru forréttindi sem ekki öllum eru gefin.  Heilt yfir var því árið 2016 mér og mínum gott.

 

Atvinnulífið styrktist

Vestmannaeyjar héldu á árinu áfram að styrkjast og dafna.  Gríðalegar framkvæmdir í atvinnulífinu settu svip sinn á bæjarlífið.  Ekki eingöngu eru framkvæmdir sem þessar jákvæðar fyrir atvinnulífið á líðandi stundu heldur styrkja þær okkur og veita brautargengi inn í komandi tíð.  Í kjölfarið á þeim verða stóru stöðvarnar í Vestmannaeyjum með landvinnslu á borð við það sem best gerist í heiminum.  Fyrir okkur sem hér búum skiptir ekki minna máli að fjárfestingar sem þessar auka langtímaöryggi hvað breytingar í sjávarútvegi varðar.  Landbundin verðmæti eins og hús sigla jú ekki í burtu eins og bátar og kvóti getur gert.  Þá er einnig afar ánægjulegt að sjá lítil og meðalstór fyrirtæki til að mynda í fiskvinnslu, iðnaði og þjónustu dafna og sterka stjórnendur sækja fram.

 

Störfum í sjávarútvegi er að fækka

Ekki verður hjá því horft að breyting er að verða á hvað varðar fjölda starfsmanna í sjávarútvegi.  Aukin sjálfvirkni og tæknivæðing hverskonar fækkar störfum.  Ekki hvað síst verðum við vör við að störfum fyrir sjómenn fækkar verulega ár eftir ár.  Tekjur sveitarfélgsins af sjávarútvegi lækka þar með enda launaskattur (útsvar) langmikilvægasti tekjustofn okkar sameiginelga sjóðs.  Við þessari stöðu þarf að bregðast.  Þar sem fyrr gildir að sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.

 

Ferðaþjónusta dafnar

Ferðaþjónusta í Vestmannaeyjum hefur vaxið ævintýralega á seinustu árum og það þrátt fyrir erfiðleika í samgöngum.  Nú er svo komið að í fyrsta skipti eigum við Eyjamenn raunhæfa möguleika til að byggja upp stoð til hliðar við sjávarútveginn og mæta þannig þeim veruleika sem fólginn er í fækkandi störfum til sjávar.  Lykilatriðið til að svo geti orðið er að höggið verði á samgönguhnútinn og sótt fram með bótum á öllu því sem tengist Landeyjahöfn og er þar allt undir.  Þótt ný ferja sé algerlega nauðsynleg þá er hún ein ekki nægjanleg til að tryggja öruggar samgöngur allt árið um Landeyjahöfn.  Það þarf einnig að gera breytingar á höfninni.

 

Blikur á lofti

Hvorki þarf að ferðast oft til Reykjavíkur né dvelja þar lengi til að sjá að þenslan þar er mikil og einkaneyslan vaxandi.  Öll vitum við að slíku ástandi fylgir oft að samkeppnin um fólk og tækifæri.  Hafi sagan kennt okkur eitthvað þá er það að landsbyggðin gefur eftir þegar höfuðborgarsvæðið vex.  Þessi veruleiki ásamt sterkri krónu og færri störfum í sjávarútvegi leggur verkefni á borð okkar Eyjamanna.

 

Þjónustan mikið aukin

Á nýliðnu ári hefur þjónusta Vestmannaeyjabæjar aukist mikið.  Leikskólaplássum var fjölgað verulega, teknar upp heimagreiðslur og foreldrum þannig gert mögulegt að vera lengur heima hjá börnum sínum, niðurgreiðsla til dagmæðra var aukin þannig að hún næði niður í 9 mánaða, frístundakort hafa verið tekin upp og margt fleira.  Þá hefur aðstaða til tómstundar fyrir eldri borgara verið aukin verulega,  dagþjónusta fatlaðara tók stakkaskiptum með nýrri hæfingarstöð, byrjað var á nýrri deild við Hraunbúðir fyrir fólk með heilasjúkdóma svo sem Alzheimer, aðstaða til dagvistar á Hraunbúðum var öll endurnýjuð og lengi má áfram telja. Þessir þjónustuþættir bætast við þá sem fyrir eru svo sem niðurfelling á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara, gjaldfrjálst aðgengi barna að sundlaug, myndalegt menningarstarf og svo margt fl.

 

Mikið framundan

Áfram skal haldið á þeirri vegferð að byggja upp fyrirmyndar samfélag í Vestmannaeyjum.  Nú þegar er byrjað að vinna að hönnun á nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða, stefnt er að byggingu á allt að 6 íbúðum fyrir fatlaða, verið er að ljúka endurgerð á sýningarsal á Kviku og stefnt er að því að bjóða þar upp á kvikmyndasýningar, hafin er innleiðing á nýjum úrvinnsluleiðum sorps og margt fleira er í burðarliðunum.  Við ætlum okkur að bjóða bæjarbúum upp eins mikla og góða þjónustu og mögulegt er.

 

Fylgt úr hlaði

Staða Vestmannaeyja er sögulega sterk.  Í áratug hefur allt kapp verið lagt á að greiða upp vaxtaberandi lán og skuldbindingar auk þess sem mikil áhersla hefur verið lögð á að bæta hagkvæmni í rekstri.  Samhliða þessu hefur þjónusta við bæjarbúa stöðugt verið aukin og þá ekki síst á árinu 2016.  Það er því ljóst að Vestmannaeyjabær og Eyjamenn mæta komandi verkefnum af styrk og festu. Í mínum huga er framtíð Vestmannaeyja gríðalega björt þótt næstu árum kunni að fylgja flókin verkefni.  Sem fyrr skiptir þá mestu að Eyjamenn sjálfir sýni baráttuþrek, samstöðu og beri virðingu hver fyrir öðrum.  Það er og mun ætíð verða lykillinn að uppgangi í Eyjum.

 

Með djúpri þökk fyrir liðin ár og von um áframhaldandi uppbyggjandi samskipti, Eyjum og Eyjamönnum til heilla.

 

Elliði Vignisson

bæjarstjóri

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.