Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Það eru forréttindi að hafa val

28.Desember'16 | 11:16

Ég er afar hörundsár, á erfitt með að taka gagnrýni og get verið ofur dramatísk þegar mér finnst að mér eða mínum vegið. Þessi galli hjá sjálfri mér var farin að taka það mikinn toll af mér(dramatíkin, sjáiði til) að ég ákvað að gera eitthvað í þessu í stað þess að velta mér stanslaust upp úr því. 

Ég hreinlega tók mér taki og valdi að hlusta á það sem fólk sagði við mig, melta það í dálítinn tíma, og breyta því sem fólk var að gagnrýna eða benda mér á, ef mér fannst þörf á.

Þegar ég skildi þarna um árið þá upplifði ég mikið niðurbrot og vanlíðanin var slík að ég réð nákvæmlega ekki neitt við að vinna mig upp úr henni sjálf. Ég þurfti að fá aðstoð, mikla aðstoð sem ég sótti mér hvar sem í boði var að fá hjálp. Það sem hjálpaði mér hvað mest var kirkjan mín, presturinn minn og 12 spora vinnan sem ég fór í gegnum tvisvar sinnum, ásamt góðu fólki - Já ég þurfti að fara tvisvar því ég var svo tjónuð að eitt skipti dugði mér ekki. Það hjálpaði mér líka gríðarlega að tala við fólk sem hafði skilið og lifði bara þessu fína fráskilda lífi, brosti og naut þess að vera til. Ég nefnilega hélt á tímabili að ég myndi ekki lifa þetta af og langaði nákvæmlega ekkert að vera til.

Það var í 12 spora vinnunni að ég lærði að ég ber ábyrgð á eigin hegðun og þar af leiðandi ber ég ábyrgð á afleiðingum hegðunar minnar. Einnig lærði ég þarna að klisjan ,,Þú berð ábyrgð á eigin hamingju og skapar þér hana sjálf“ er ekki klisja heldur heilagur sannleikur. Mér fannst pínu erfitt að kyngja þessu þar sem mér fannst alltaf bara fínt að benda á einhvern annan, einhverjar aðstæður sem væru þess valdandi að mér leið illa, væri geðvond, fengi ekki það uppfyllt sem ég ætti skilið og það sem ég vildi. Mér fannst það vera annarra að gera mig hamingjusama og sjá til þess að ég væri glöð. Ef hlutirnir gengu ekki eins og ég vildi var pottþétt alltaf við einhvern að sakast og Guð hjálpi mér að ég tæki eina einustu ábyrgð á því hvernig mér leið.

Eins og ég hef svo oft sagt þá er lífið alltaf að henda í okkur einhverjum verkefnum, þau eru mis stór og mis erfið en öll eiga þau það sameiginlegt að þroska okkur á einhvern hátt, ef við veljum að líta á það þannig. Ég öðlaðist nýtt líf þegar ég áttaði mig á því að ég hef algert alvald til að VELJA það hvernig ég tek á þessu verkefnum. Og trúiði mér, mitt fyrsta val við öllum verkefnum er alltaf að fara að grenja, ég fer bara alltaf að grenja þegar ég lendi í mótlæti. Þetta getur verið rosalega leiðinlegt, ekki bara fyrir mig, heldur einnig fyrir þá sem að mér standa. Það er nákvæmlega ekkert frábært við 37 ára gamla grenjandi konu, sem er kannski bara að grenja því Herjólfur fór ekki. En ok, þegar ég er búin að grenja þá fer heilinn á mér að virka sem skildi og ég átta mig fljótlega á því að grenjur skila mér afskaplega litlu svo þá fer ég að velta fyrir mér hvað ég á að velja að gera næst. Stundum vel ég að vorkenna mér einhver ósköp, stundum vel ég að verða rosa reið(og fer þá aftur að grenja því ég fer alltaf að grenja þegar ég er reið), en að endingu kemur að því að ég vel að stíga inn í fjandans verkefnið og tækla það. Það er ekkert alltaf skemmtilegt og oftast langar mig að gefast upp, kenna Páli og Pétri um hvernig komið er fyrir mér, fara að grenja og engjast svo um í gremju lengi lengi yfir því hvað ég á afskaplega bágt og hvað heimurinn er leiðinlegur.

Verkefnin okkar eru mis stór eins og ég sagði áðan og hjálpi mér hamingjan hvað þau geta verð ógeðslega erfið og leiðinleg, en það breytir því ekki að það eru bara tveir kostir í stöðunni - Leggjast í kör, velta sér endalaust upp úr vandamálinu og dvelja í sársaukanum eða að setja undir sig hausinn, stíga inn í sársaukann, vinna í honum og stíga svo skrefið áfram. Það er hrikalega erfitt að velja seinni kostinn, það er vont og manni líður ömurlega á meðan á sársaukanum stendur en til lengri tíma litið er þetta svo frábær valkostur.

Mín helsta fyrirmynd í að tækla vandamálin er stóra stelpan mín sem hefur á sinni 18 ára löngu ævi fengið nokkur verkefnin í fangið og mörg afar erfið og þung. En hún velur alltaf þann kost að stíga inn í vandamálið, tækla það og verður sterkari, vitrari og reynslunni ríkari á eftir. Hún er einkar dugleg að sækja sér þá aðstoð sem  hún þarf, veður í verkefnin og með eljuna, kærleikann og kraftinn að vopni og lendir alltaf á fótunum.

Á sunnudaginn gengur nýtt ár í garð og á áramótunum verð ég alltaf einstaklega viðkvæm, er þakklát fyrir það sem lífið hefur fært mér, líka erfiðleika því án þeirra væri engin gleði. Ég nota alltaf þetta kvöld til að segja skilið við það og þá sem hafa sært mig á einhvern hátt á árinu sem er að kveðja. Ég þakka fyrir þá sem standa með mér, verja mig þegar að mér er vegið og elska mig eins og ég er. Áramótin eru okkar tækifæri til að velja upp á nýtt, velja hamingju, velja að brosa oftar, velja að eyða tíma með fólkinu okkar, velja að tækla það sem veldur okkur sársauka, velja að stíga út úr fortíðinni og fagna núinu og framtíðinni. Þetta er okkar tækifæri til að velja lífið eins og við viljum hafa það. Jú verkefnin verða alltaf þarna, mis stór og mis erfið en tækifæri til að gleðjast, vera glaður í öxlunum, hlæja, syngja og dansa eru líka þarna-Tökum þeim fagnandi og þökkum allt gott.

Megi nýja árið færa ykkur endalaust af hamingju og ást elsku fólkið mitt

Ykkar, Lóa smiley

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).