Glæsileg heimildarmynd frumsýnd á föstudaginn:

Lyftan - Skipalyftan í 35 ár

12.Desember'16 | 11:14

Skipalyftan ehf í Vestmannaeyjum varð 35 ára 14. nóvember síðastliðinn. Af því tilefni fékk fyrirtækið þau Sighvat Jónsson og Sigríði Diljá Magnúsdóttur til að vinna heimildarmynd um fyrirtækið. Myndin fékk nafnið „Lyftan - Skipalyftan í 35 ár“, þar sem rætt er við eigendur og starfsmenn um sögu fyrirtækisins, stöðu þess og framtíð. 

Myndin er 42 mínútur og er hægt að horfa á hana hér neðar. Einnig er hægt að nálgast hana á DVD diski hjá Skipalyftunni. Heimildavinna hófst í upphafi ársins en hún er framleidd af SIGVA media fyrir Skipalyftuna og er virkilega vel gerð. Eyjar.net ræddi við Sighvat Jónsson um myndina og tilurð hennar.

Þekktum söguna ekki í þaula

„Það var mjög áhugavert fyrir okkur Diljá að vinna myndina fyrir Skipalyftuna og kynna okkur betur sögu fyrirtækisins, og ekki síst flókna forsögu þess. Við vorum það ung þegar Skipalyftan var stofnuð að við þekktum söguna ekki í þaula. Við vissum eins og margir að fyrirtækið varð til við sameiningu vélsmiðjanna Magna og Völundar ásamt því sem raftækjaverkstæðið Geisli kom að stofnun félagsins."

 

Heimaeyjargosið 1973 hafði áhrif

„Við áttuðum okkar fljótlega á því við heimildavinnu í upphafi að forsagan yrði stærri hluti myndarinnar en við héldum í fyrstu. Mörg fyrirtæki komu að ferlinu sem var tímafrekt. Heimaeyjargosið 1973 hafði áhrif en árinu áður heyrðu forsvarsmenn bæjaryfirvalda í Eyjum af því að Hafnfirðingar hygðust hætta við að reisa skipalyftu, þar sem hafði verið í vinnslu frá 1966. Þegar Skipalyftan var vígð í Vestmannaeyjum sumarið 1982 var því liðinn um áratugur frá því að undirbúningur stofnunar hennar hófst. Við heimildavinnuna áttum við ófá samtöl við þá sem komu að ferlinu á sínum tíma, til að skilja betur það sem stundum þurfti að lesa á milli línanna í fundargerðum og öðrum gögnum," segir Sighvatur.

Eigendurnir gleymdu sér alveg við lestur

„Samstarfið við eigendur Skipalyftunnar var eins og best verður á kosið. Frá fyrsta degi sögðu þeir Stefán Örn Jónsson, Ólafur Friðriksson og Þórarinn Sigurðsson að þeir Stofnendur skipalyftunnartreystu okkur fullkomlega fyrir því að varðveita sögu fyrirtækisins fyrir komandi kynslóðir. Við fengum aðgang að gögnum Skipalyftunnar ásamt því sem við tókum viðtöl við eigendur og starfsmenn. Þá tókum við viðtal við Pál Zóphóníasson, sem var bæjartæknifræðingur og bæjarstjóri á undirbúningstíma Skipalyftunnar. Ég man vel eftir því þegar við þurftum að fá staðreyndir á hreint varðandi stofnun félagsins og fyrsta fundargerðarbókin var dregin úr peningaskáp í Skipalyftunni. Á handskrifuðum síðum hennar fengum við Diljá upplýsingarnar sem okkur vantaði og eigendur Skipalyftunnar gleymdu sér alveg við lestur bókarinnar sem rifjaði margt upp," segir Sighvatur.  Hér til hægri má sjá mynd af stofnendum Skipalyftunnar.

Vildi frekar láta gera mynd um sögu fyrirtækisins í stað bókar eða blaðs

,,Stefán átti hugmyndina að gerð myndarinnar og hringdi í mig fyrir rúmu ári, stuttu eftir 34 ára afmæli Skipalyftunnar. Hann hafði á orði að hann vildi láta gera mynd um sögu fyrirtækisins í stað bókar eða blaðs. Ég þakkaði honum fyrir að hugsa til mín og hringja tímanlega. Ég sá strax að myndina þyrfti ég að vinna samhliða öðrum stórum verkefnum og því yrði ég að fá einhvern með mér til að klára svo umfangsmikið verkefni á tilskildum tíma. Við Diljá höfum áður unnið saman að framleiðsluverkefni, en hún fékk mig til liðs við sig þegar hún stýrði gerð kennslumyndbanda fyrir nýliða í fiskvinnslu hér í Eyjum.  Svo unnum við saman fyrr á árum hjá Leikfélagi Vestmannaeyja og í nemendaráði Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Ég vissi því alveg að hverju ég gekk þegar ég bað Diljá um aðstoð við þá nákvæmnisvinnu sem gerð heimildarmynda er. Samstarf okkar gekk mjög vel og mér heyrist á Diljá að hún sé áhugasöm um að læra enn frekar á klippiforrit,“ segir Sighvatur brosandi.

Gulls ígildi að hafa aðgang að verðmætum söfnum þeirra sem á undan hafa gengið

Myndin var forsýnd fyrir starfsmenn á 35 ára afmælisdegi Skipalyftunnar 14. nóvember síðastliðinn og hún var frumsýnd í afmælisveislu fyrirtækisins í Akóges 9. desember. Sighvatur segir að viðbrögð fólks við myndinni hafi verið mjög góð. „Að okkar mati gerði það mjög mikið fyrir myndina að fá aðgang að góðu efni. Sigurgeir Jónasson ljósmyndari lagði okkur til mikið af ljósmyndum frá upphafsárum Skipalyftunnar ásamt því sem við fengum myndefni frá Gísla Óskarssyni og Óskari Pétri Friðrikssyni og Pétri Eyjólfssyni sem tók flottar loftmyndir af hafnarsvæðinu fyrir okkur.

Þá leituðum við fanga í gömlum blöðum á www.timarit.is og www.eyjafrettir.is og gögnum hjá Ljósmyndasafni og Skjalasafni Vestmannaeyja. Einnig fengum við myndefni frá Skipalyftumönnunum Þórarni Sigurðssyni og Þresti Jóhannssyni. Á 20 ára fjölmiðlaferli hef ég löngum sagt að gott hráefni er lykillinn að góðri framleiðslu. Þegar kemur að sögulegum verkefnum eins og þessu er gulls ígildi að hafa aðgang að verðmætum söfnum þeirra sem á undan hafa gengið," segir Sighvatur Jónsson hjá SIGVA-media.

 

Lyftan - Skipalyftan í 35 ár from SIGVA media on Vimeo.

toti_stebbi_oli

Núverandi eigendur Skipalyftunnar.

hvati_dilja

Sighvatur og Diljá

ako_lyftan

Vel var mætt á frumsýninguna

dilj_lyftan

Diljá við klippingu myndarinnar

dilja_lyftan

Stefán Orri í viðtali

pz_lyftan

Diljá ræðir við Pál Zóphóníasson

hlynur_lyftan

Hlynur Geir í viðtali

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.