Páll Magnússon skrifar:

Stóru málin í Eyjum

27.Október'16 | 09:42
pall_mag

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn í rúm 3 ár.  Á þessum skamma tíma hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs og á lífsgæðum almennings.  Sá viðsnúningur á rætur sínar annars vegar í hagfelldum ytri aðstæðum og hins vegar í skynsamlegri forystu Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn.  

Hallarekstri var snúið við og skuldir greiddar niður. Það eru því forréttindi fyrir nýja frambjóðendur eins og mig að finna og vita að nú gefst aukið svigrúm til enn frekari uppbyggingar grunnþjónustu ásamt áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, haftalosunar, hagræðingar í ríkisrekstri og að hamla útþenslu ríkisútgjalda.

Heilbrigðis- og velferðarmál

Heilbrigðismál brenna eðlilega á landsmönnum og sannarlega er þjóðarsátt um áframhaldandi uppbyggingu í þeim málaflokki.  Við Sjálfstæðismenn erum stolt af því að hafa á kjörtímabilinu aukið framlög til heilbrigðismála verulega og þjónustuna þar með. Á þessu ári verða útgjöld um 38,5 milljörðum hærri en 2013 þegar vinstri ríkisstjórnin fór frá.  Hér í Eyjum er enn mikið verk að vinna og mikilvægt að gefast ekki upp fyrr en tryggð hefur verið t.d. full þjónusta við fæðandi mæður, aukin aðkoma sérfræðilækna og áframhaldandi efling heilsugæslu.

Menntamál

Tengsl rannsókna, menntunar og vísinda við nýsköpun eru grundvöllur hagvaxtar. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur aukin áhersla verið lögð á rannsóknir og vísindi og mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut.  Menntakerfið þarf að bregðast hratt við þeim áskorunum sem felast í tækniframförum upplýsingaaldar. Mannauður skiptir höfuðmáli í þjóðfélagi sem í síauknum mæli byggir á þekkingu.  Hér í Eyjum hafa stór skref verið stigin hvað þetta varðar og dugir þar að vísa til hins nýja háskólanáms í haftengdri nýsköpun, mikilli eflingu Þekkingarsetursins, tengslum FABLAB við Framhaldsskólann og fleira mætti nefna.  Á sama hátt þurfum við í sameiningu að efla á ný iðnmenntun í Vestmannaeyjum og sannarlega verður það meðal áherslumála á komandi kjörtímabili.

Samgöngur og aðrir innviðir

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið sá flokkur sem myndalegast hefur staðið að hvers konar inniviðauppbyggingu.  Við Sjálfstæðismenn viljum veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins. Fjárfesta þarf í samgöngumannvirkjum, flutningskerfi raforku, fjarskiptum og löggæslu. Reykjavíkurflugvöllur er og verður óskertur í Vatnsmýri þar til betri kostur finnst.  Hér í Vestmannaeyjum hefur staðan í samgöngumálum verið algerlega óboðleg í hátt í áratug.  Landeyjahöfn hefur reynst erfiðari í notkun en nokkurn óraði fyrir og illu heilli hefur það dregist von úr viti að smíða nýja ferju.  Nú sér fyrir endann á pattstöðunni og innan tveggja ára verður ný ferja komin í gagnið.  Sú framkvæmd er nauðsynleg en ekki nægjanleg til að tryggja bót mála.  Eftir stendur að vinna þarf höfnina út úr byrjunarörðugleikum og má það ekki dragast.  Tafarlaust þarf síðan að bæta þjónustu við heimamenn svo sem með betra bókunarkerfi, sama fargjaldi í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn og fl.  Flugið er okkur Eyjamönnum líka mikilvægt og hvergi má gefa eftir í baráttunni fyrir eflingu þess.

 

Sjávarútvegsmál

Frá því að ból var fyrst byggt í Vestmannaeyjum hafa íbúar átt lífsgæði sín undir því hvernig gengur til sjávar.  Fyrirtæki og íbúar hafa fyrir löngu náð að aðlaga sig að duttlungum nátúrunnar.  Ógnin nú eru duttlungar stjórnmálamanna sem skirrast hvergi í ofsóknum gegn þessari grundvallaratvinnugrein í sjávarbyggðum.  Nú sem fyrr er mikilvægt að tryggja sem mestan og bestan stöðugleika og núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur í grundvallaratriðum reynst Íslendingum svo farsælt að þeir hafa nú mikinn arð af atvinnugrein sem aðrar þjóðir niðurgreiða.  Það er óendanlega mikilvægt fyrir sjávarbyggð eins og Vestmannaeyjar að hrinda þessum árásum á kerfið og að það sé látið af vitleysislegum hugmyndum um að kollvarpa því.

 

Ágætu Eyjamenn, í prófkjöri fyrir fáeinum vikum studduð þið mig svo rösklega að eftir var tekið.  Stuðningur ykkar tryggði mér fyrsta sætið á lista okkar Sjálfstæðismanna.  Ég tek því umboði mjög alvarlega og heiti því að vinna að hagsmunum Eyjamanna og allra annarra sem ég er kjörinn til að vinna fyrir.  Ég bið ykkur um standa með mér áfram - líka núna í seinni hálfleik - og mæta á kjörstað á laugardaginn og setja X við D.

 

Páll Magnússon

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.