Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags:

Aðalstjórnarmenn hafa beðist velvirðingar á ferlinu

Ákveðið að fara þessa leið þar sem formaður knattspyrnuráðs var staddur erlendis

24.Október'16 | 16:00
dora_bjork

Dóra Björk Gunnarsdóttir.

Síðustu daga hafa verið talsverðar væringar innan ÍBV-íþróttafélags. Málið snýst í grunninn um skipun aðalstjórnar á nýjum formanni knattspyrnudeildar karla og hvernig staðið var að þeirri tilkynningu til knattspyrnuráðs.

Bæði aðalstjórn sem og meirihluti fráfarandi knattspyrnuráðs hafa sent frá sér yfirlýsingar vegna málsins. Eyjar.net sendi nokkrar spurningar á Dóru Björk Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ÍBV vegna málsins og raunar fleiri þátta í starfi félagsins.

Hvernig var fjárhagsstaða knattspyrnudeildar karla þegar að fráfarandi ráð fór frá?

Fjárhagsstaða deilda eru ekki opinberar upplýsingar á miðju rekstrarári en eru birtar á aðalfundi félagsins í apríl. Samkvæmt síðasta ársreikningi skiluðu allar deildir félagsins jákvæðri afkomu. Aðalstjórn ásamt öðrum sjálfboðaliðum hafa lyft grettistaki í að bæta fjárhag félagsins á síðustu rúmum þremur árum. Til gamans má nefna að á þessum tíma hefur félagið farið úr því að skulda í árslok 2012 167 milljónir króna í að skulda 64 mkr. í árslok 2015. Veltufjármunir félagsins í árslok 2015 námu um 80 mkr., þannig að það má í raun segja að í árslok 2015 hafi félagið verið nettó skuldlaust. Til samanburðar voru nettó skuldir félagsins í árslok 2012 (heildarskuldir - veltufjármunir) tæpar 122 mkr.

 

Fannst þér rétt staðið að þessari tilkynningu til ráðsins - varðandi skipun nýs formanns?

Ég vissi af ferlinu og hef tekið þátt í því þar sem ég er starfsmaður aðalstjórnar. Á fundi stjórnar með knattspyrnuráði 5. október þá baðst aðalstjórn afsökunar á hvernig þetta hefði verið tilkynnt og áréttaði ég það fyrir hönd aðalstjórnar í símtali við alla nema einn sem var á sjó þann 18. október. Í því símtali var öllum boðinn fundur með fulltrúum aðalstjórnar og sýndu þrír fyrrum nefndarmenn áhuga á að mæta á fund með stjórninni, sex sögðust strax ekki vilja fund og nokkrir sögðu að málinu væri lokið af þeirra hálfu. Engin minntist á að fréttatilkynning væri á leiðinni frá þeim í þessum samtölum. Ákveðið var að boða til einstaklingsfundar með fyrrum ráðsmönnum og taka svo í framhaldinu stöðuna um hvort ætti að halda hópfund.

Á tímabilinu frá 10. til 23. oktbóber hafa farið fram samskipti og fundir þar sem aðalstjórnarmenn hafa enn og aftur beðist velvirðingar á ferlinu. 

 

Var eining innan aðalstjórnar að fara þessa leið - (þ,e að tilkynna nýjan formann með tölvupósti)?

Já eftir talsverðar umræður innan aðalstjórnar var ákveðið að fara þessa leið þar sem formaður knattspyrnuráðs var staddur erlendis. Eftir á að hyggja hefði átt að tilkynna þetta með öðrum hætti, en aðalstjórn telur þá ákvörðun rétta að skipa hafi þurft nýjan formann utan ráðsins.

 

Kom aldrei til greina að setjast niður með fráfarandi knattspyrnuráði, til að fá þeirra sjónarhorn á skipun nýs ráðs?

Jú það kom til greina.

 

Hversu oft á þessu ár átti aðalstjórn formlega fundi með fráfarandi knattspynuráði?

Fulltrúar aðalstjórnar hafa fundað fjórum sinnum með fulltrúum knattspyrnuráðs sem af er ári. Formaður og varaformaður knattspyrnuráðs hefa verið tengiliðir við aðalstjórn og hefur verið boðað til funda í gegnum þá.

 

Nú var fulltrúaráð stofnað innan félagsins fyrir nokkrum árum - var það kallað saman vegna þessara breytinga?

Hlutverk fulltrúaráðs er eftirfarandi skv. lögum félagsins. Aðalstjórn á að leggja eftirtalin mál fyrir fulltrúaráðið til umsagnar:
1. Tillögu um félagsslit.
2. Sölu og kaup fasteigna.
3. Byggingaframkvæmdir.
4. Veðsetningu eigna félagsins.
5. Aðrar stórar ákvarðanir er snúa að fjármálum félagsins.

 

Hversu oft hefur fulltrúaráðið verið kallað saman síðan það var stofnað?

Fulltrúaráð hefur verið boðað 3 sinnum til fundar á síðustu árum og hafa fundirnir verið varðandi skipan fulltrúaráðsins og fjármál félagsins eins og lögin kveða á um.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.