Atlantshafið heldur hita á Eyjamönnum

23.September'16 | 07:44

„Við ætlum að taka hitann úr sjónum og setja í hitaveituvatnið,“ segir Ívar Atlason, tæknifræðingur hjá HS Veitum, sem eru að hefja byggingu stöðvar með sjóvarmadælu í Vestmannaeyjum.

Sjóvarmadælan á að leysa af hólmi rafskautaketil sem fram til ársins 1988 nýtti hita úr hrauninu úr Vestmannaeyjagosinu en eftir að þann hita þraut hefur verið notast við rafmagn af fastalandinu.

Ívar Atlason, sem leiðir verkefnið, segir að með hækkandi rafmagnsverði hafi verið farið að huga að öðrum lausnum. „Við þurfum að kaupa óhemju magn af rafmagni á rafskautaketilinn til að hita upp hitaveituvatnið,“ segir hann, í samtali við Fréttablaðið.

Sem fyrr segir á að nota hitann úr sjálfu Atlantshafinu sem golfstraumurinn sér um að er nokkuð jafn, eða um 5 til 6 gráður á veturna og 10 til 12 gráður á sumrin. „Þetta virkar þannig að við þurfum að dæla upp alveg óhemju magni af sjó sem er leiddur inn í þessa varmadælu sem flytur varmann úr sjónum í hitaveituvatnið,“ segir Ívar.

Í stöðinni hitar sjórinn ammóníak sem síðan flytur varmann í hringrás í hitaveitu Eyjamanna í ferli sem endurtekur sig í mörgum þrepum.

Ívar undirstrikar að um þekkta tækni sé að ræða. Honum vitanlega verði sjóvarmastöðin hins vegar sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og sú næststærsta í í heiminum á eftir 14 megavatta stöð í Drammen í Noregi. Í Eyjum verði stöðin tæp 11 megavött.

Áætlaður kostnaður við stöðina er um 1.100 milljónir króna. Þar af greiðir ríkið 300 milljónir. Framkvæmdir eru komnar í gang á hafnar­svæðinu og bor sem bora á eftir sjó er á leiðinni til Eyja. Stefnt er að gangsetningu í ársbyrjun 2018.

Ívar segir sjóvarmastöðina munu skera rafmagnsþörf hitaveitunnar niður um tvo þriðju hluta. Í því felist allt að 150 milljóna króna sparnaður á ári miðað við núverandi raforkuverð.

„Íbúarnir eiga að fá að njóta hagræðingarinnar af þessu brölti og við stefnum að því að það sé hægt að lækka húshitunarkostnað í Vestmannaeyjum um allt að tíu prósent á næstu árum þegar allt er komið á fullt sving og búið að greiða niður þessa fjárfestingu,“ segir Ívar

Gerður hefur verið samningur við Landsvirkjun um kaup á rafmagni á varmadælurnar. Farin er sú leið að kaupa margfalt dýrari forgangsorku í stað ódýrari en ótryggrar umframorku eins og verið hefur. 

 

Vísir.is greindi frá.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.