Georg Arnarson skrifar:

Lundasumarið 2016 og lundaballið

19.September'16 | 20:54

Georg veltir fyrir sér lundasumrinu.

Síðasti lundinn farinn og sennilega síðustu pysjurnar að detta í hús í þessari viku og lundaballið næstu helgi og að því tilefni geri ég upp sumarið að venju.

Lundasumarið í ár var mun hlýrra heldur en í fyrra, sem gerði það aftur að verkum að makríllinn mætti upp á grunninn hérna við Eyjar seinni partinn í júlí, sem aftur gerði það að verkum að menn urðu varir við mikinn pysjudauða, sérstaklega í sumum úteyjunum.

Hérna á heimalandinu hins vegar voru margir sem gengu á fjöll og urðu ekki varir við eins mikið af dauðum pysjum og var að heyra annar staðar frá. Þetta m.a. varð til þess að ég hringdi í félagana á Náttúrufræðistofu Suðurlands og skoraði á þá að fara og kíkja í nokkrar holur suður í Sæfelli, enda að sögn þeirra sem þar fóru um gríðarlega mikið af sílifugli þar, en þeir urðu ekki við þeirri beiðni.

Það er svolítið forvitnilegt að skoða lundapysjuspá Erps frá því í fyrra og Ingvars Atla frá því í ár, en samtals spáðu þeir félagar því að miðað við þeirra útreikningar, þá yrðu aðeins liðlega 1300 pysjur þessi tvö ár, en veruleikinn er hins vegar sá, að pysjufjöldinn stefnir í að verða 6500 þessi tvö ár.

Þessir röngu útreikningar þeirra félaga koma mér ekki á óvart, enda set ég þessar lundarannsóknir í sama hóp og fiskirannsóknir Hafró og tel að það sé algjörlega vonlaust að mæla fiskistofnana með því að taka nokkur togararöll í kring um landið og á sama hátt, algjörlega vonlaust að reikna út pysjufjöldann með því að fara í 1-200 holur eða svo.

Pysjan kom mánuði seinna í ár eins og í fyrra og í sjálfu sér margar skýringar á því, sem ég ætla reyndar ekki að fara nánar út í, en ljóst að lundinn er að berjast fyrir tilveru sinni, og gengur að mínu mati bara nokkuð vel.

Ég veiddi engan lunda í Eyjum frekar en undanfarin ár, en var svo heppinn að komast með félögum mínum að sækja lunda fyrir lundaballið í perlu norðursins, Grímsey, eins og á síðasta ári. Það er frábært að koma þarna þar sem samkenndin er alls ráðandi og allir tilbúnir að hjálpa.

Ég fékk í hendurnar í vor lundaveiðiskýrslu Erps fyrir 2015, sem er ágætis lesning í sjálfu sér, en það vakti athygli mína nýjustu útreikningar hans á aldurhlutfalli í veiði vítt og breitt um landið og sem dæmi, þá kemur fram að 269 lundar hafi verið veiddir í Vestmannaeyjum í fyrra og þar af liðlega 60% þriggja ára lundi og restin fjögra ára og eldri. Ég skyldi ekki í fyrstu hvað þetta þýddi, 4 ára og eldri, en fékk síðan þá skýringu að Erpur er farinn að skrá 4 ára lunda sem fullorðinn lunda. Mjög skrítið þar sem ég hef altaf staðið í þeirri trú að unglundi væri lundi allt að 5 ára aldri og enn furðulegra þegar ég rakst á neðar í skýrslunni þessa setningu:

Vitað er að lundinn verður ekki allur kynþroska fyrr en við 6 ára aldur.

Og hana nú!

Lundaballið er á laugardaginn og við í Veiðifélaginu Heimaey lagt mikið á okkur að gera þetta sem best og skemmtilegast. Því miður er víst orðið uppselt á matinn, en að sjálfsögðu verður opið hús fyrir ballið á eftir veisluhöldunum, en þar sem lundaballið er á laugardaginn, þá langar mig að henda hérna inn gamalli, góðri sögu úr lundaveiði sem ég reyndar skrifaði hérna fyrir nokkuð mörgum árum síðan, en finn bara ekki á síðunni hjá mér.

Sagan af drauginum í Miðkletti

Ég hef sennilega verið um tvítugt og í síðustu veiðiferð fyrir Þjóðhátíð, þannig að það var orðið svarta myrkur yfir há nóttina. Ég hafði verið í ágætri veiði fyrr um daginn, en rétt fyrir myrkur skreið ég inn í tjaldið sem ég svaf í úti í Miðkletti og hafði rétt ný lokað augunum, þegar skyndilega heyrðist rétt hjá tjaldinu einhver óhugnanlegasti hósti sem ég hef nokkurn tímann heyrt á ævinni. Fyrst hélt ég að mér hefði misheyrst, en svo kom þetta aftur og það var eins og skyndilega lýsti aðeins inni í tjaldinu, eða eins og einhver hefði fölnað skyndilega upp og ég heyrði frekar veiklulega rödd segja:

Halló. Er einhver þarna?

Ekkert svar nema þessi óhugnanlegi hósti aftur, en sem betur fer aðeins lengra í burtu, svo ég áræddi að skríða út úr tjaldinu. Kveikti á ljósinu sem ég var með sem rétt lýsti í kring um sig sjálft. Ekkert var að sjá, en mér datt í hug, hvort það gæti verið að nágrannar mínir úr Ystakletti væru kannski að gera at í mér, en þar var ekkert ljós að sjá og í fjarska heyrði ég enn einu sinni þennan óhugnanlega hósta, svo eftir smá stund ákvað ég því að skríða aftur inn í tjaldið og reyna að sofna, sem gekk nú ekkert of vel, en vaknaði svo um morguninn í fallegu veðri og miklu lundaflugi. Eftir morgunmat rölti ég út í einn af uppáhalds veiðistöðunum mínum. Ég hafði aðeins háfað nokkra fugla, þegar skyndilega heyrðist þessi óhugnanlegi hósti rétt fyrir aftan mig. Grænn í framan snéri ég mér við og horfðist í augu við drauginn í Miðkletti. Gljáfægð hornin, svolítið útþanin augu og nasir sem hnusuðu að mér og síðan opnaðist kjafturinn á drauginum svo að skein í tennurnar og út úr gini draugsins kom þetta ógurlega hljóð ásamt góðu hóstakasti: Meeeeeeeee.

Sjáumst öll á lundaballinu.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).