Bæjarráð fundaði með innanríkisráðherra

Fjöldi ferða er eingöngu háð fjármagni

Bæjarstjórn útilokar ekki að skoðað verði einhliða að stuðla að einhverskonar “strætó” ferðum milli lands og Eyja. Fengin yrði til þjónustu farþegaferja sem flutt gæti 30 til 60 farþega á skömmum tíma.

11.Ágúst'16 | 03:01

Í gær fundaði bæjarráð Vestmannaeyja og bæjarstjóri með innanríkisráðherra.  Á fundinum voru einnig fulltrúar frá bæði innanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Að sögn Elliða Vignissonar var tilgangur fundarins fyrst og fremst að ræða þá hörmungarstöðu sem uppi er í samgöngumálum og velta vöngum yfir bæði nánustu framtíð og þeirri framtíð sem fjær er.

Elliði rekur hér fyrir lesendum Eyjar.net hvað bar á góma á umræddum fundi í þessu mikilvæga hagsmunamáli Eyjamanna.

Óboðlegt að heimamenn og gestir þeirra sitji fastir á meðan skipið liggur bundið í Eyjum hluta af deginum.

Fyrsta hluta fundarins ræddum við stöðuna eins og hún hefur verið í sumar.  Við lögðum ríka áherslu á að við teldum það með öllu óboðlegt að heimamenn og gestir þeirra sitji fastir og komist hvorki til né frá á meðan skipið liggur bundið í Eyjum hluta af deginum.  Við ræddum einnig bókunarkerfið, biðlistana og þjónustuna vítt og breitt.  Öllum má ljóst vera að fjöldi ferða er eingöngu háð fjármagni og hvað það varðar þá verðum við að hvetja þingmenn okkar til dáða þegar kemur að fjárlögum.

Mikill áhugi á útboði nýrrar ferju - áhyggjur af frekari töfum

Næst ræddum við útboð nýrrar Vestmannaeyjaferju og fengum þar þær upplýsingar að frestur til að skila inn tilboðum rennur út 8. september og síðan eru áætlaðar 6 til 8 vikur í að yfirfara tilboð.  Umtalsverður áhugi er á útboðinu og hafa rúmlega 30 aðilar sótt útboðsgögn.  Við lýstum áhyggjum okkar af frekari töfum og minntum á að eftir því sem smíði tefst á þessum endanum þá frestast þar með afhending á hinum endanum.  Þá ítrekuðum við þá afstöðu okkar að æskilegt væri að eignarhald ferjunar lægi hjá ríkinu jafnvel þótt rekstur hennar væri á ábyrgð þriðja aðila.  Við lögðum einnig fram skýra kröfu um að takmarkaðri stærð ferjunnar yrði mætt með umtalsverðri fjölgun ferða og mikilvægi þess að allt sem snýr að þjónustu við notendur verði uppfært í samræmi við tíðaranda og áherslur í nútíma ferðaþjónustu.  Þar undir falli meðal annars aðgengilegt bókunarkerfi, stöðugar þjónustumælingar, eftirlit með þjónustustigi og margt fleira.

 

Erlendur aðili mun vinna að rannsóknum sem miða að því að viðhalda auknu dýpi í hafnarminninu

Þessu tengt ræddum við einnig stöðu Landeyjahafnar og ítrekuðum það sem marg oft hefur komið fram um þá afstöðu Vestmannaeyjabæjar að þótt nýtt skip sé nauðsynleg forsenda framfara þá væri það ekki nægjanlegt.  Eftir sem áður þyrfti að gera umtalsverðar breytingar á höfninni sjálfri.   Á fundinum fengum við þær upplýsingar að verið væri að vinna að undirbúningi og rannsóknum og að meðal annars hafi höfnin verði sett upp aftur í tilraunatanki Siglingastofnunar.  Þar er helst verið að horfa á breytingar innanhafnar til að draga úr ókyrrð sem of oft veldur vanda.  Við fengum einnig þær upplýsingar að erlendur aðili hafi verið fengin til að vinna að rannsóknum sem miða að því að viðhalda auknu dýpi í hafnarminninu.  Öllum var einnig ljóst að vinna þarf höfnina út úr þeirri stöðu sem nú er upp og að mikilvægt væri að gefast ekki upp fyrr en fullum árangri hafi verið náð.

Algert stílbrot að rukka meira fyrir verri þjónustu

Að lokum ræddum við komandi vetur.  Við hófum þá umræðu á að lýsa mjög eindregni andstöðu við að hærra gjald væri rukkað í siglingum til Þorlákshafnar en í Landeyjahöfn og teljum algert stílbrot að rukka meira fyrir verri þjónustu.  Þá lýstum við heimamenn þeirri skoðun okkar að ekki sé boðlegt að loka Landeyjahöfn þegar að því kemur að núverandi Herjólfur ræður ekki við aðstæður við Landeyjahöfn.  Okkar tillaga var sú að tafarlaust yrði fengin til þjónustu farþegaferja sem flutt gæti 30 til 60 farþega á skömmum tíma milli lands og Eyja þegar veður og sjólag eru hagstæð og þannig reynt að koma á boðlegum fólksflutningum milli lands og Eyja í gegnum Landeyjahöfn yfir vetrartímann.  Ekki náðist samstaða þar um en ég tel mig ekki vera að uppljóstra um neitt leyndmál þótt ég upplýsi að bæjarstjórn Vestmannaeyja útilokar ekki að skoða það einhliða að stuðla að einhverskonar “strætó” ferðum milli lands og Eyja.  Málið allt er þó enn á frumstigi og hvorki hægt að fullyrða né útiloka neitt að svo stöddu.

Ráðherra skoðar af fullri alvöru að koma upp samráðsvettvangi hvað samgöngur á sjó varðar

Fundurinn var fyrst og fremst settur upp til að miðla upplýsingum og koma áleiðis kröfum og ábendingum okkar heimamanna.  Ráðherra tók alvarlega ábendingum okkar um að við teldum skorta verulega mikið upp á samráð og upplýsingagjöf.  Hvað það varðar ætlar ráðherra að skoða af fullri alvöru að koma upp samráðsvettvangi hvað samgöngur á sjó varðar sem hittist reglulega.

 

Komandi vikur opna möguleika

Eftir stendur að við bæjarfulltrúar, sem oft erum gerð ábyrg fyrir samgöngum, erum nákvæmlega jafn ósátt og allir bæjarbúar.  Við erum jafn oft á biðlista, lendum jafn oft í að þurfa að greiða okur gjald í siglingum í Þorlákshöfn og óttumst framtíðina jafn mikið og allir aðrir.  Okkar eina leið er að koma óánægjunni áleiðis og hamra járnið í þeirri von að bit komi í það.  Fundurinn í gær var því haldinn í þeim tilgangi, eins og svo óteljandi aðrir fundir áður.  Komandi vikur opna hinsvegar möguleika sem við skulum ekki vanmeta.  Sá möguleiki felst í því að nú náum við öll beinum sambandi við verðandi þingmenn og getum brýnt þá til dáða og valið þá sem við teljum líklegasta til að standa vörð um hagsmuni okkar, sagði Elliði að lokum.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).