Rekstur Herjólfs

Ekki venja í útboðsverkefnum að verktaki sé beðinn um að veita upplýsingar um rekstrarafkomu

Framlag ríkissjóðs 2015 til reksturs Herjólfs var 720 milljónir

6.Ágúst'16 | 01:08

Í byrjun maí lagði Ásmundur Friðriksson þingmaður Suðurkjördæmis fram formlega fyrirspurn til innanríkisráðherra varðandi rekstur Herjólfs. Svar inn­an­rík­isráðherra við fyr­ir­spurninni liggur nú fyrir.

Í upphafi svars ber þess að geta að rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs er á grundvelli útboðs. Reksturinn var síðast boðinn út árið 2012, til þriggja ára, og hefur samningstími síðan verið framlengdur uns ráðgerð ný ferja kemur til siglinga sem mun væntanlega breyta rekstrarforsendum allnokkuð.

1.     Hver voru árleg framlög ríkissjóðs árin 2013–2015 til reksturs ferjunnar Herjólfs?
Árið 2013 var styrkur 696,8 millj. kr., 660,1 millj. kr. árið 2014 og 720,5 millj. kr. árið 2015.

2.     Hver var árleg rekstrarafkoma (hagnaður/tap) Herjólfs á sama tímabili?
Rekstur Herjólfs er á grundvelli útboðs. Samkvæmt samningi er áhætta af rekstrinum hjá bjóðanda, hvort sem er um að ræða hagnað eða tap. Þá ber þess að gæta að ekki er venja í útboðsverkefnum að verktaki sé beðinn um að veita slíkar upplýsingar.

3.     Hvernig hefur gjaldskrá fargjalda og farmflutninga breyst á árunum 2013–2015?
Verðskrá Herjólfs var síðast breytt í ársbyrjun 2013 og hefur verð haldist óbreytt árin 2013, 2014 og 2015 þrátt fyrir almennt hækkandi verðlag.
1. janúar 2013 hækkaði verðskrá Herjólfs flatt um 8,7%. Fargjald fyrir fullorðinn farþega eða fólksbifreið um Landeyjahöfn var 1.150 kr. en fór í 1.260 kr. og fargjald fyrir fullorðinn farþega eða fólksbifreið um Þorlákshöfn var 3.060 kr. en fór í 3.360 kr.   

1. janúar 2016 hækkaði verðskrá Herjólfs í siglingum til Landeyjahafnar um 4,5% og Þorlákshafnar um 1,8%, í stað flatrar hækkunar upp á 3,6%, til að koma til móts við farþega sem nýta sér ferjuna allt árið. Ferðir til Þorlákshafnar eru langflestar á vetrum þegar meiri hluti farþega eru búsettir í Eyjum. Fargjald fyrir fullorðinn farþega eða fólksbifreið um Landeyjahöfn hækkaði því um 60 kr. og er nú 1.320 kr. Fargjald fyrir fullorðinn farþega eða fólksbifreið um Þorlákshöfn var 3.360 kr. en fór í 3.420 kr. og hækkaði því einnig um 60 kr.

Aðrar hækkanir hafa ekki orðið frá árinu 2011. Fargjöld milli lands og Eyja hafa því haldist nánast óbreytt þrátt fyrir almennar verðhækkanir. Hefði farmiðaverð fylgt vísitölu neysluverðs væri það nú 1.378 kr. um Landeyjahöfn en 3.667 kr. um Þorlákshöfn.
 

4.     Hefur lækkun olíuverðs skilað sér í bættri afkomu í rekstri Herjólfs?
Verðskrá Herjólfs skal samkvæmt samningi endurskoða einu sinni á ári með hliðsjón af því sem kallað er „ferjuvísitala“. Í ferjuvísitölunni vegur launavísitala 50%, olíuverð 30%, hafnargjöld í Vestmannaeyjum 10% og byggingarvísitala 10%. Hið sama á við um greiðslur til verktaka. 

Launavísitala vegur mest í vísitölunni og hefur hækkað frá árinu 2012 um 32,2%, hafnargjöld um 13,2% og byggingarvísitala um 13,7%. Olíuverð hefur aftur á móti lækkað um 34,4% en sú lækkun nær ekki nema að hluta til að vega upp á móti þeim hækkunum sem aðrir þættir í vísitölunni hafa valdið þar sem þeir eru mun veigameiri þættir í rekstrinum.

5.     Hefur afkoma útgerðar Herjólfs batnað á umræddu tímabili? Ef svo er, er óskað upplýsinga um hvernig ráðherra hafi tryggt þeim sem nýta sér þjónustu Herjólfs lægri fargjöld og farmgjöld.
Í ljósi þess að um útboðsverk er að ræða ber verktakinn allan kostnað og þar með einnig alla áhættu af rekstrinum en fær á móti allar tekjur. Skilmálar útboðsins tryggja að ef lækkun verður á þeim liðum sem mynda saman hina svokölluðu „ferjuvísitölu“, sem skilgreind er að framan, hefur það áhrif á gjaldskrá og styrk. Fjárhagsleg afkoma verkefnisins hefur því ekki áhrif á gjaldskrá, hvorki til lækkunar ef vel gengur né til hækkunar ef illa gengur.

Hins vegar hafa fargjöld ekki hækkað til samræmis við aðrar hækkanir og hafa farþegar notið þess í heldur lægri fargjöldum, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

 

Þessu tengt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.