Jón Pétursson skrifar:

Kynferðisofbeldi er mein sem við viljum uppræta

21.Júlí'16 | 17:36

Því miður hefur nauðgun átt sér stað á Þjóðhátíð í Eyjum. Því miður hefur nauðgun átt sér stað á öðrum tímum ársins í Eyjum. Því miður eru líkur á því að nauðgun mun eiga sér stað á Þjóðhátíð í Eyjum. Því miður eru líkur á að nauðgun eigi sér stað á öðrum tímum ársins í Eyjum.

Þetta er staðreynd og yfir henni hvílir engin þöggun.

Mesta þöggunin í þeirri umræðu sem á sér stað í dag er að nauðganir hafa átt sér stað á fleiri stöðum en á Þjóðhátíð í Eyjum og mun eiga sér stað á fleiri stöðum en í Vestmannaeyjum. Fjöldi tilkynntra kynferðisafbrota á síðustu Þjóðhátíð voru of margar en færri en gengur og gerist í hverri viku á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ljótur blettur á Þjóðhátíð sem okkur Eyjamönnum líður illa yfir.

Eyjamenn viðhafa ekki þöggun umræðu um kynferðisofbeldi á Þjóðhátíð eins og sumir vilja halda fram. Viðbragðsáætlun Þjóðhátíðarnefndar, lögreglunnar í Eyjum, Heilbrigðisstofnunar, áfallateymis og fleiri aðila bera öll merki um það. Allir búa sig undir að bregðast við þessari ljótu vá. Allir vona það besta en búa sig undir það versta. Gæslan er elfd, heilbrigðisþjónusta tryggð, rekinn er öflugur áróður gegn nauðgunum, fólk er hvatt til að vera á varðbergi og fylgjast með hvort öðru og vernda. Ef upp kemur tilvik um kynferðisofbeldi er brugðist við. Á öðrum tíma ársins er öflugt starfsfólk félagsþjónustu, lögreglu, heilsugæslu og fleiri til taks er upp koma slík brot. Engum dettur til hugar að fela þennan ljóta blett sem fellur á samfélagið heldur eru menn tilbúnir til að takast á við hann og helst af öllu útrýma.

Ég hef starfað innan félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar í 24 ár, fyrst sem sálfræðingur og á síðustu árum sem framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Ég hef starfað í áfallateymi á Þjóðhátíð og verið gestur Þjóðhátíðar á síðustu 23 hátíðum. Að auki hef ég starfað sem lögregluþjónn í Reykjavík. Á þessum árum hef ég kynnst reynslu þolenda nauðgunarmála frá upphafi þess að mál kemur fram, því ferli sem tekur við, úrvinnslu og afleiðingum. Þau eru þung og erfið sporin hjá þolanda frá fyrstu stigum áfalls.

Páleyju Borgþórsdóttir þekki ég vel. Hún hefur komið að nokkrum málum sem lögmaður þolenda kynferðisafbrota og lagt sig fram af elju og hugsjón við að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda. Ásetningur hennar var einlægur þegar kom að því að vernda umbjóðendur. Sem lögreglustjóri heldur hún áfram að gæta hagsmuna þolenda og vernda rannsóknarhagsmuni. Hún tekur ákvörðun í þá átt að vernda þolendur kynferðisafbrota á þjóðhátíð frá fjölmiðlum á fyrstu stigum máls. Auðvitað eru fréttaþyrstir fjölmiðlar ósáttir og hamra á Páley með öllum þeim ráðum sem þeir þekkja.

Dregin er upp dökk mynd af ákvörðun Páleyjar og áróður rekinn fyrir því að hér sé verið að þagga niður tengingu nauðgunar og Þjóðhátíðar. Jafnvel hafa sumir gengið enn lengra og dregið upp þá mynd að samfélagið í Eyjum þaggi niður kynferðisofbeldi. Það eru óskiljanleg rök í mínum huga sérstaklega út frá því að enginn í Eyjum hefur afneitað þeirri vondu staðreynd að kynferðisofbeldi getur og hefur átt sér stað á Þjóðhátíð og á öðrum tíma ársins eins og kemur fram í upphafi þessarar greinar minnar.

Fréttaþyrstir fjölmiðlar leggja ekki vinnu í það að draga úr þöggun. Þeir þrengja umræðuna um nauðgun og kynferðislegt ofbeldi með því að benda og hrópa að einum atburði (Þjóðhátíð), einum landshluta (Vestmannaeyjum) og einum aðila (lögreglustjóra). Við það er allri athygli um nauðgun beint á einn stað og frá þeirri staðreyndin að kynferðisofbeldi á sér stað víðar á Íslandi. Fyrir mér er þetta þöggun.

Fróðlegt væri fyrir fjölmiðla að draga saman upplýsingar um fjölda nauðgana á Íslandi, hvar þær fari helst fram og undir hvaða kringumstæðum. Líklega kallar það á meiri vinnu og er ekki eins söluvæn umræða. Þetta kallar á vinnu við að fara yfir gögn eins og frá neyðarmóttöku Landsspítalans, Ríkislögreglustjóra og Stígamótum. Málin eru orðin að tölfræði og ekki eins djúsí til að selja.

Árið 2014 var fjöldi kynferðisbrota 419 og að meðaltali 13 brot á landsvísu miðað við 10.000 íbúa. Í Eyjum var hlutfallið 12, á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið 11, á Vesturlandi 19, á Suðurnesjum 17 og á Vestfjörðum 36. Skilgreining á kynferðisbrotum eru víðari en eingöngu nauðgun. (upplýsingar af heimasíðu Ríkislögreglustjóra)

Á höfuðborgarsvæðinu var fjöldi tilkynntra kynferðisbrota árið 2014 alls 238 (tæplega 57% af heild) og þar af 71 tilkynningar um nauðgun. Það gerir rúmlega ein nauðgun á viku. Árið áður sem var met ár frá því samræmdar skráningar lögreglu fór fram var fjöldi kynferðisbrotamála 416 og þar af 114 tilkynningar um nauðgun sem gerir rúmlega tvær nauðganir að meðaltali á viku. (upplýsingar af heimasíðu Ríkislögreglustjóra)

Auðvitað er þessi tölfræði leiðinleg og ekki söluvæn. Hún er bara tölur á pappír og fjallar ekkert um alvarleika máls, hver er þolandi eða gerandi eða annað sem svalar forvitni okkar. Tölfræðin er svo leiðinleg að hún er ekki einu sinni brúklega til að fá athygli, fjármagn eða viðurkenningu á þeirri vondu staðreynd að nauðganir eiga sér stað á fleiri stöðum en í Eyjum. Fyrir fjölmiðla dugar ekki að fá tölu um fjölda tilkynntra nauðgana aðfaranótt sunnudags á Þjóðhátíð. Menn vilja fá meira til að selja sína frétt. Hvar átti brotið sér stað? Hvernig ætlar Þjóðhátíðarnefnd að bregðast við? Er búið að ná geranda? Er ekki kominn tími til að leggja Þjóðhátíð niður? Er samfélagið í Eyjum að þagga niður umræðu um kynferðisofbeldi?

Umræða um nauðganir og annað kynferðisofbeldi er nauðsynleg. Í starfi mínu sem sálfræðingur uppgötvaði ég fljótt að mun fleiri höfðu reynslu af slíku ofbeldi en höfðu ekki tilkynnt. Þeir verða því ekki að tölfræði. Þessar upplýsingar fengu mig til að til að velta fyrir mér hversu margir Íslendingar hafa þessa reynslu? Hversu margir hafa komið drukknir af skemmtistað, verið misnotaðir og ekki treyst sér til að leita aðstoðar? Á höfuðborgarsvæðinu er hverja helgi haldin ígildi Þjóðhátíðar a.m.k hvað varðar fjölda einstaklinga, skemmtanaþörf og neyslu vímuefna. Áhætta nauðgunartilfella er fyrir hendi. Engin eða lítil umræða er um þessa áhættu. Enginn fjölmiðill hangir á hurðahúninum hjá lögreglunni í Reykjavík til að fá upplýsingar um fjölda nauðgunartilfella eftir skemmtanahaldið um helgar. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir í dagbók lögreglunnar. Þær koma vissulega fram sem tölfræði síðar, á sama hátt og tölfræði er birt af hálfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum reglubundið. Þannig voru t.d. 23 tilkynningar um kynferðisbrot í Reykjavík í júní sl. hjá lögreglunni í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á vef RÚV þann 18. júlí sl. sem er allnokkuð eftir að brotin áttu sér stað. (upplýsingar af vef RÚV; http://www.ruv.is/frett/kynferdisbrotum-fjolgadi-mikid-i-juni)

Skemmtanahaldi öllu, þ.m.t. Þjóðhátíð getur fylgt áhætta og mikilvægt að allir gæti að sér, passi upp á náungann og samferðafólk og leggi sig fram um að hátíðin fari fram á sem besta hátt. Engin nauðgun á Þjóðhátíð er það sem við viljum. Engin nauðgun í Eyjum er það sem við viljum. Staðreyndum verður ekki þagað yfir. Í mínum huga fer lítið fyrir þöggun um þessa áhættu í Eyjum.

Þöggunin er aftur á móti meiri hvað varðar aðra staði. Þöggunin er algjör varðandi fjölda tilfella nauðgana á Íslandi, hvar fara þær helst fram og undir hvaða kringumstæðum. Þöggun yfir raunverulegri stöðu nauðgana og kynferðisbrota á Íslandi birtist einna helst í þröngri og einhæfðri umfjöllun um Þjóðhátíð í Eyjum.

Dettum ekki inn í óupplýsta umræðu, pólitískar þrætur eða populisma varðandi þessi mál. Einbeitum okkur að því að berjast gegn ofbeldinu og það gerist best í sameiningu og af gagnkvæmri virðingu því ekkert okkar vill hafa þetta mein.

 

Jón Pétursson

Höfundur er framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).