Raforkunotkun vegna húshitunar í Vestmannaeyjum gæti minnkað um 67%

15.Júlí'16 | 06:30

Landsvirkjun og HS Orka hafa gert með sér samning vegna nýrrar varmadælu í Vestmanneyjum sem HS Veitur munu reisa og reka.

Með samningnum styðja fyrirtækin við hagkvæma nýsköpun í íslenskum orkuiðnaði og taka markverð skref í að bæta nýtingu á orkuauðlindum Íslands. HS Orka og HS Veitur hafa samtímis gert með sér samning um kaup rafmagns af HS Orku fyrir varmadæluna. Þetta segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Vestmannaeyjar þurfa að stórum hluta að reiða sig á rafmagn til húshitunar þar sem ekki er heitt vatn að finna í Eyjum. Fram á síðustu öld voru heimili og fyrirtæki þar nær eingöngu hituð upp með olíu en árið 1962 var lagður sæstrengur til Vestmannaeyja og þá skapaðist möguleiki á því að nota raforku til kyndingar. HS Veitur reka fjarvarmaveitu Eyjamanna og í kyndistöð fyrirtækisins er gufa framleidd með rafskautakatli og vatn veitunnar hitað upp með gufunni.

Öll raforka til varmadælunnar verður afhent sem forgangsorka

Með varmadælu HS Veitna verður hægt að nýta rafmagnið á mun hagkvæmari hátt því til viðbótar við raforkuna verður varmaorka úr sjónum við Vestmannaeyjar notuð til kyndingar á heimilum. Það er í fyrsta skipti sem slíkt er gert á Íslandi. Samkvæmt áætlunum HS Veitna mun raforkuþörf fjarvarmaveitunnar minnka um allt að 67%. Því til viðbótar mun öll raforka til varmadælunnar verða afhent sem forgangsorka í stað skerðanlegrar orku áður. Þar með munu Vestmannaeyingar ekki lenda aftur í takmörkunum á afhendingu raforku svipuðum þeim sem áttu sér stað vorið 2014.

Í dag eru starfræktar 8 rafkyntar fjarvarmaveitur á Íslandi á svokölluðum „köldum svæðum“ sem ekki hafa greiðan aðgang að heitu jarðvarmavatni. Samkvæmt skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins mætti minnka orkunotkun rafkyntra fjarvarmaveitna í landinu um 140 GWst árlega væri fjárfest í varmadælum við hverja veitu. Aðstæður eru þó mishagkvæmar í hverju tilfelli fyrir sig. Í dag selur Landsvirkjun um 220 GWst af skerðanlegri orku til slíkra veitna.

Landsvirkjun, HS Orka og HS Veitur telja þessar framkvæmdir vera framfaraskref fyrir Vestmannaeyjar og landið í heild. Varmadælur eru tækni sem er útbreidd í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Þær bæta rekstrarumhverfi rafkyntra fjarvarmaveitna og stuðla að bættri nýtingu orkuauðlinda á Íslandi.

Næstu skref

Næstu skref í verkefninu er að ganga frá kaupum á varmadælunum en þær koma frá Sabroe í Danmörku (Varmalausnir) en tilboð þeirra reyndist hagkvæmast í útboði sem fram fór undir lok síðasta árs. Síðan er verið að ganga frá samningi um lokahönnun verkefnisins, borun á sjóholum og síðan að sjálfsögðu skipulagsmálum með bæjarfélaginu. Gangi áætlanir eftir er þess vænst að varmadælustöðin komist í rekstur seint á næsta ári, segir í tilkynningu frá HS-veitum.

 

Tengd frétt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.