Ný stjórn kjörin hjá VSV

Ingvar Eyfjörð kemur inn í stað Guðmundar Kristjánssonar

9.Júlí'16 | 08:55

Vinnslustöðin

Ingvar Eyfjörð, eigandi og starfsmaður Álftavíkur ehf., var kjörinn í stjórn Vinnslustöðvarinnar í stað Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, á aðalfundi félagsins á miðvikudaginn var. Stjórnin er óbreytt að öðru leyti.

Kjörið var til stjórnar í tvígang á aðalfundinum þegar kom í ljós við talningu í fyrra skiptið að greidd atkvæði voru færri en afhentir kjörseðlar. Arnar Sigurmundsson fundarstjóri úrskurðaði þá að atkvæðagreiðslan skyldi endurtekin með nýjum atkvæðaseðlum. Frá þessu er greint á vef Vinnslustöðvarinnar, vsv.is. Ennfremur segir:

„Ástæðan fyrir því að ég úrskurðaði í þessa veru er að það er mjög mikilvægt að úrslit kosninga endurspegli vilja hluthafanna og við talningu kom í ljós að einn hluthafi hafði greitt atkvæði en ekki sett það í kassann,“ hefur Morgunblaðið eftir Arnari.

Í sama blaði er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni að svo virðist sem „einhverjir hluthafar hafi ekki kosið í kosningu til stjórnar. Þá hafi verið gengið á þá og þeir spurðir hvort þeir hefðu ekki greitt atkvæði. Talningu hafi þá verið lokið og ekki ástæða til ógildingar.“

Ath.: Fundarstjóri tekur fram í tilefni af þessum ummælum Guðmundar að talningu atkvæða hafi ekki verið lokið þegar hann úrskurðaði að atkvæðagreiðsla skyldi endurtekin.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar er þannig skipuð: Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri  ráðgjafarfyrirtækisins Takts,  formaður; Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður varaformaður; Rut Haraldsdóttir framkvæmdastjóri hjá Vestmannaeyjabæ; Íris Róbertsdóttir kennari og Ingvar Eyfjörð, eigandi og Álftavíkur ehf.

Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson skipstjóri á Kap VE og Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir fiskverkandi í Vestmannaeyjum.

Tvær fylkingar hluthafa í Vinnslustöðinni hafa tekist á fyrir opnum tjöldum og fyrir dómstólum undanfarin ár. Deilur um stjórnarkjör á aðalfundi nú verða að skoðast í því ljósi. Í upphafi aðalfundar flutti formaðurinn, Guðmundur Örn Gunnarsson, skýrslu stjórnar og vék að niðurstöður Hæstaréttar í langvinnri þrætu um sameiningu Ufsabergs útgerðar og Vinnslustöðvarinnar. Hann vonaðist til þess að friðsamlegra yrði í hluthafahópnum hér eftir en hingað til:

„Það var afar ánægjulegt er Hæstiréttur Íslands tók af öll tvímæli um lögmæti sameiningar Ufsabergs útgerðar og Vinnslustöðvarinnar. Því máli er því endanlega lokið.

Ég vona að það sé komið að ákveðnum tímamótum í stjórnarstarfinu.

Á síðustu vikum hef ég átt gott samtal við fulltrúa helstu eigenda félagsins um að finna leiðir til þess að slíðra sverðin í áralöngum deilum þeirra um áherslur í rekstri félagsins. Þau samtöl hafa verið til góðs og ég vænti þess að á næsta ári snúist stjórnarstarfið um góðar, opinskáar,  uppbyggilegar og málefnalegar umræður um veg og framgang Vinnslustöðvarinnar, í stað málaferla fyrir dómstólum eða á öðrum vettvangi.“

Guðmundur Kristjánsson  sat í fráfarandi stjórn Vinnslustöðvarinnar með stuðningi hluthafahópsins sem gjarnan er kenndur við hann sjálfan og/eða Stillu útgerð ehf. og KG fiskverkun ehf. Þessi hópur bauð fram þrjá fulltrúa til stjórnarkjörsins nú: Guðmund, Magnús Helga Árnason lögmann og Ingvar Eyfjörð. Ingvar náði kjöri.

Hinn hluthafahópurinn studdi aðra stjórnarmenn til endurkjörs og þeir hlutu allir kosningu.

 

Þessu tengt:

Hart deilt um niður­stöðu kosn­inga

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.