Bæjarráð árið 2014:

Óskuðu eftir áframhaldandi vinnu við friðlýsingu

Eyjar.net fer yfir málið með fyrrverandi yfirlögfræðingi umhverfisráðuneytisins

11.Júní'16 | 11:18

Ljóst er að skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að samþykkja friðlýsingu búsvæðis sjófugla. Tillaga Páls Marvins í bæjarstjórn hljóðaði svo:

Undirritaður leggur fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn samþykki friðlýsinguna og tekur undir bókun Umhverfis- og skipulagsráðs frá 15.desember 2014 þar sem skýrt kemur fram að friðlýsingin hefur ekki áhrif á nytjarétt Eyjamanna á auðlindinni.”

Ein stærstu afglöp í valdaframsali heimamanna til ríkisstofnana?

Í kjölfar þessarar samþykktar sendi félag Bjargveiðimanna frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem segir:

„Félag Bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum harmar ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að afsala sér ábyrgð og ákvörðunarvaldi á búsvæði sjófugla í Vestmannaeyjum.

Búsvæðin hafa verið í umsjón bæjaryfirvalda og heimamanna um langa hríð. Ætið hefur verið gengið um svæðin af varkárni og borin umhyggja fyrir fuglalífinu.

Við skorum á bæjaryfirvöld að taka ákvörðun sína til endurskoðunar og forða sér frá því að vera minnst fyrir ein stærstu afglöp í valdaframsali heimamanna til ríkisstofnana.“

Friðlýsing af frumkvæði bæjaryfirvalda?

Upphaf þessa máls má raunar rekja aftur til ársins 2014. Þá er bókað af bæjarráði Vestmannaeyja (skipað þeim Páleyju Borgþórsdóttur, Elliða Vignissyni og Jórunni Einarsdóttur) eftirfarandi:

Friðlýsing búsvæða fyrir fugla í Vestmannaeyjum.

Fyrir liggur bréf sem bæjarráð sendir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að áfram verði haldið þar sem frá var horfið varðandi vinnu við friðlýsingu búsvæða fyrir fugla í Vestmannaeyjum.”

Afsal frá árinu 1960

Þá fékk Eyjar.net sent afsal frá árinu 1960 þar sem m.a segir að ríkið selji Vestmannaeyjabæ allt land í Vestmannaeyjum að undanskildum lóðum undir prestsetrið ofanleiti, vitajörðin á Stórhöfða, hús bæjarfógeta (Tindastóll), flugvallarland auk eða það landsvæði sem áður hafði verið leigt út af ríkinu.

Bendir til þess að með samþykkt sinni hafi bærinn í reynd afsalað sér rétti til að taka einhliða ákvarðanir

Eyjar.net leitaði til Lúðvíks Bergvinssonar, lögmanns til að fá hans álit á umræddri friðlýsingu og áhrifum hennar, en þess má geta að Lúðvík starfaði um tíma sem yfirlögfræðingur umhverfisráðuneytisins. Lúðvík sagði  meginatriðið vera það að friðlýsing væri kvöð á hverju því landi sem hún hvílir á. Þá sagði hann meginregluna þá, þ.e. skv. veiðitilskipun frá 20. júní 1849, að landeigandi ætti einn rétt til allrar veiði á landi sínu. Af þeirri reglu verður leitt að Vestmannaeyjabær er eigandi veiðiréttar á sínu landi. Hann getur því vitaskuld, líkt og almennur fasteignaeigandi, leigt, afhent, afsalað eða lagt kvaðir á þau réttindi með samningum, sé slík ákvörðun tekin á lögmætan hátt.

Ennfremur segir Lúðvík að í samþykki bæjarins fyrir friðlýsingu skv. fyrirliggjandi drögum að friðlýsingu felst afsal tiltekinna valdheimilda. T.a.m. gengst bærinn undir það, skv. fyrirliggjandi drögum að reglum um friðlýsingu fyrir svæðið, að hvers konar athafnir eða framkvæmdir sem ganga gegn markmiði friðlýsingarinnar séu óheimilar, nema skv. undanþágu ráðherra. Þá er t.d. öll mannvirkjagerð á svæðinu óheimil.

Í friðlýsingarskilmálunum kemur fram að Umhverfisstofnun skuli fara með umsjón búsvæðaverndar á hinu friðlýsta landi. Þar segir einnig að í stjórnar og verndaráætlun fyrir svæðið skuli kveðið á um hvernig farið skuli með hefðbundnar nytjar, þ.á m. veiðar, en þá áætlun mun Umhverfisstofnun vinna.

„Mér virðist því augljóst, þ.e. á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir, að bærinn hafi í reynd tekið ákvörðun um að samþykkja tilteknar kvaðir á land í eigu bæjarins. Það er því margt sem bendir til þess að með samþykkt sinni hafi bærinn í reynd afsalað sér rétti til að taka einhliða ákvarðanir, í a.m.k. 10 ár, um nýtingu hlunninda og þar á meðal veiða, og því gengið lengra í því efni en t.d. kveðið er á um í villidýralögum um takmarkanir á veiðum.

Um þetta atriði vil ég þó ekki fullyrða algerlega að svo stöddu, þar sem vel má vera að til staðar séu samningar, minnisblöð, skýringargögn eða annað sem lúta að samskiptum ríkis og bæjar við friðlýsinguna sem leiða til annarrar niðurstöðu, en skv. gögnum sem eru til staðar virðist þetta augljóst." segir Lúðvík Bergvinsson í samtali við Eyjar.net.

 

ludvik_b

Lúðvík Bergvinsson.

Páll Marvin Jónsson.

Elliði Vignisson.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%