Eyþór Harðarson skrifar:

Ófriði lýst á hendur Eyjamönnum

Vestmannaeyjar fullkomnaðar undir forystu Guðlaugs Gíslasonar

10.Júní'16 | 10:39

Árið 1960 skrifuðu Guðlaugur Gíslason, þáverandi bæjarstóri í Vestmannaeyjum, og Ingólfur Jónsson, landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, undir samning þar sem Vestmannaeyjakaupstaður keypti úteyjarnar af íslenska ríkinu.

Taldi Guðlaugur að um mikið framfaramál væri að ræða fyrir Eyjarnar og að þetta hefði verið eitt af merkustu málum í sinni bæjarstjóratíð.

Í maí 2016 samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja friðlýsingu sem felur m.a. í sér að margvíslegt vald er fært frá bæjaryfirvöldum til Umhverfisstofnunar, s.s. umsjón með búsvæðavernd fugla, landnotkun og mannvirkjagerð á hinu friðlýsta svæði sem eru allar úteyjarnar auk flestra búsvæða fugla á Heimaey.

Hvernig er staðið að friðlýsingu?

Nú stendur yfir friðlýsing Kerlingafjalla. Þar er skipaður samráðsvettvangur fulltrúa aðliggjandi hreppa, Kerlingafjallavina og Umhverfisstofnunar. Í samráðsáætluninni kemur fram að samráð sé ,,afar mikilvægur hluti af undirbúningi friðlýsingar” og að það sé ,,mikilvægt að það hefjist á fyrstu stigum máls”. Ennfremur kemur þar fram að markmið samráðsins sé að  veita þeim sem ,,hagsmuna eiga að gæta á svæðinu og þeim sem áhuga hafa á svæðinu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.” Að lokum er sagt í samráðsáætluninni að þannig sé ,,leitast við að skapa sátt um fyrirhugaða friðlýsingu”.

Í áætluninni stendur einnig að þessir aðilar hafi sex vikur til þess að skila inn athugasemdum eftir að tillaga að auglýsingu um friðland í Kerlingafjöllum hafi verið auglýst.

Mikill kurr í Bjargveiðimönnum

Við erum vanir því að heyra kurr í lundanum okkar fallega en nú eru félagar í Bjargveiðafélagi Vestmannaeyja farnir að kurra líka. Málið var ekkert kynnt, hvorki fyrir þeim né öðrum Eyjamönnum, fyrir utan stuttan fund í Eldheimum sem fulltrúum bæjarstjórnar, fulltrúum skipulags og umhverfisráðs og formaður bjargveiðimanna var boðaður á.

Þar var m.a. sagt að friðlýsingin hafi engin áhrif á nytjar þó að ekkert sé um það að finna berum orðum í reglugerðardrögum um friðlýsingu. Þar er sagt að ekkert megi byggja í úteyjunum heldur einungis viðhalda núverandi eignum sem þýðir m.a. að nauðsynleg endurnýjun húsnæðis, eins og sú sem átti sér stað í nánast öllum úteyjum undir lok síðustu aldar, geti ekki átt sér stað í framtíðinni. Þá er óskiljanlegt þegar okkur er gerð grein fyrir því að friðlýsing skipti í raun litlu máli en fáum á sama tíma fábrotin svör við spurningunni af hverju sé þá verið að leggja upp í þennan leiðangur yfirhöfuð.

Nýting náttúrunnar hefur leikið stórt hlutverk í lífi Eyjamanna í gegnum aldirnar. Í ægifögur fuglabjörgin sóttu menn af harðfylgi björg í bú og sauðfé hefur séð hinum grænkollóttu úteyjum og fjöllum heimalandsins fyrir ókeypis hársnyrtingu um langa hríð. Þrátt fyrir að nytjarnar hafi á undanförnum áratugum þróast út í tómastundagaman má með sanni segja að bjargveiðimenn hafi verið eins konar vörslumenn náttúru Eyjanna, og viðhaldið menningu sem er einstök.

Stórmennska að viðurkenna mistök

Friðlýsing búsvæðis sjófugla við Vestmannaeyjar snertir dýpstu rætur menningar Eyjanna. Ófullnægjandi kynning og málsmeðferð, sem stenst engan veginn þær kröfur sem umhverfisyfirvöld á Íslandi viðhafa í dag, er þessu mikilvæga máli ekki til framdráttar. Það er engum til góðs að þessu máli sé troðið ofan í kokið á Vestmannaeyingum.

Ég trúi ekki öðru en að forystumenn beggja bæjarstjórnarflokkanna, sem báðir greiddu atkvæði gegn friðlýsingunni, og allt hitt sómafólkið í bæjarstjórninni beiti sér fyrir því að málið verði tekið upp á nýjan leik og tryggi okkur heimamönnum áframhaldandi umsjón og yfirráð með okkar náttúruperlum.

 

Eyþór Harðarson, formaður Bjargveiðimannafélags Vestmannaeyja

 

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.