Elliði Vignisson svarar spurningum Eyjar.net

Finnst sleifarlag í eftirliti með samningi um rekstur Herjólfs

Boðað til fundar með Vegagerðinni vegna eftirlits með þjónustusamningi Herjólfs

9.Júní'16 | 07:47

Í samningi Vegagerðarinnar við Eimskip um rekstur Herjólfs greiðir ríkið 718 millj­ónir króna á ári til þess að sinna sigl­ing­un­um milli lands og Eyja. Ásmundur Friðriksson, þingmaður vakti athygli á málinu í þingsal á dögunum og kvaðst engar upplýsingar fá um rekstrartölur skipsins. Eyjar.net ræddi málið við Elliða Vignisson, bæjarstjóra.

Nú hafa komið fram upplýsingar sem benda til þess að rekstur Herjólfs sé afar arðbær fyrir rekstraraðila ferjunnar. Hefur bæjarstjórn og / eða bæjarráð Vestmannaeyjabæjar hugsað sér að kanna þessar upplýsingar frekar og biðja um gögn frá rekstraraðilanum um afkomuna á síðustu árum?

Við höfum af sjálfsögðu fylgst með þessu í mörg ár og fengið öll þau gögn sem við getum komist yfir.  Vandinn er hinsvegar sá að upplýsingalög ná ekki yfir þann hluta gagnanna sem máli skipta til að þekkja framlegð rekstrarins.

Bæjarstjórn hefur ályktað um kostnað íbúa Vestmannaeyja við að ferðast með Herjólfi. Hvaða upplýsingar hefur bæjarstjórn um afkomu Herjólfs?

Eins og ég sagði þá höfum við ekki upplýsingar um rekstrarhagnað Herjólfs.  Það er heldur ekkert eðlilegt við það að sveitarfélagið fari að skammast út í 3. aðila þegar kemur að samgöngum, heilbrigðisþjónustu eða nokkra aðra þjónustu ríkisins.  Það er ríkisins að tryggja góðar samgöngur við Vestmannaeyjar og gæta þess að gjaldtöku sé sillt í hóf.  Það dettur sjálfsagt engum í hug að fárast út í Hjalla þegar það vantar leikskólapláss eða þegar fólk vill ódýari leikskólagjöld.  Það er enda Vestmannaeyjabæjar að gæta að því að útboð sé reglulega og nægilega vel undirbúið að hagsmunir bæjarbúa séu tryggðir. 


Er eðlilegt að farþegar og flytjendur vöru á milli lands og Eyja greiði svo hátt verð fyrir gjaldskrá Herjólfs að hagnaður útgerðarinnar nemi hundruðum m.kr. á ári?
Það er ekki eðlilegt hversu gríðalega miklar álögur eru á heimili og fyrirtæki í Vestmannaeyjum vegna hárra far- og farmgjalda í Herjólf.  Það er ríkisins að tryggja að útboðin séu með þeim hætti að hagsmuna bæjarbúa sé gætt.  Svo ég vísi aftur til þess sem gengur og gerist hjá Vestmannaeyjabæ þá erum við víða búin að útvista rekstri en við berum af sjálfsögðu ábyrgð á því öllu gagnvart bæjarbúum.  Ef framlegð rekstraraðila Herjólfs er óeðlilega há þá er ekki við þá að sakast heldur þá sem gerðu samninginn við þá og ber að gæta hagsmuna okkar í þessu.  Þangað beinir Vestmannaeyjabær athugasemdum sínum og aðfinnslum.  Okkur finnst sleifarlag í eftirliti með samningi um rekstur Herjólfs og lítil alúð af hálfu ríkisins hvað þessa mikilvægu þjónustu varðar.  Þannig vorum við mjög ósátt við að ríkið tryggi okkur ekki óskertar samgöngur til að mynda Hvítasunnudag.  Við vorum ósátt við að sumaráætlun tæki ekki gildi fyrr og lengi má áfram telja.  Við erum á sama máta mjög ósátt við hversu gríðalegan kostnað heimamenn bera af háum far- og farmgjöldum.  Þessu beinum við til ríkisins sem ábyrgðaraðila.  Eimskip gerir ekkert annað en að sinna sínum rekstri eins vel og þau geta í samræmi vð samninga við ríkið.  Það er Vegagerðarinnar fyrir hönd ríkisins að gæta að okkar hagsmunum.  Til upplýsinga þá má bæta hér við að þegar hefur verið boðað til fundar með Vegagerðinni vegna eftirlits með þjónustusamningi Herjólfs.


Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er hægt að lækka hagnað Herjólfs um 30-50%. Er það vilji bæjarstjórnar að beita sér fyrir því að sú lækkun komi fram í lækkuðum far- og farmgjöldum með Herjólfi?

Það er viljli bæjarstjórnar að allar leiðir séu notaðar til að lækka þessi fáheyrt háu gjöld sem eru í Herjólf.  Við lítum á Herjólf sem þjóðveg og ætlumst til þess að þjónusta og gjaldská sé í samræmi við það.  Ef rekstaraðilinn er að hafa óeðlilega miklar tekjur vegna þessara háu gjalda þá er það ríkið sem er að klikka og ef svo þá er það grafalvarlegt og til marks um að illa sé að verki staðið af þeim sem þar eru ábyrgir.


Hvernig hyggst bæjarstjórn bregðast við þessum fréttum og hverjar eru tillögur bæjarstjórnar um lækkun kostnaðar á gjaldskrá ferjunnar fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum?
Bæjarstjórn lítur á Herjólf sem þjóðveg milli lands og Eyja og ætlast til þess að þjónusta og gjaldskrá sé í samræmi við það.  Tillögur okkar fela það í  sér að innheimt gjald sé í samræmi við þann kostnað sem væri því meðfylgjandi að keyra þennan spotta. Við teljum einnig fáránlega ósanngjarnt og óeðlilegt að rukka farþega meira fyrir minni þjónustu eins og gert er þegar siglt er í Þorlákshöfn. 


Í ljósi þessara upplýsingar er ekki mikilvægara en talið hefur verið að Vestmannaeyingar taki yfir rekstur ferjunnar svo hagsmunir af rekstri hennar hafi velferð Vestmannaeyinga og atvinnulífið þar að leiðarljósi og hagnaður af reksti Herjólfs renni í vasa bæjarbúa í Eyjum?

Frá því að ég byrjaði sem bæjarstjóri höfum við í  þrígang gert tilboð í rekstur Herjólfs og í eitt skipti buðum við nýja ferju til siglinga í Landeyjahöfn.  Við höfum þó ekki haft erindi sem erfiði.  Ég finn vel fyrir þeim þrýstingi sem á þetta mál er og þykir óneitanlega vænt um að bæjarbúar telji að við sem rekum Vestmannaeyjabæ getum rekið fragt- og farþegafluttninga jafn vel eða betur en stærstu skipafélög landsins.  Það óneitanlega er viðkurkenning fyrir okkur.  Ég útiloka ekki að við gerum tilboð í þennan rekstur en get þó ekkert fulllyrt að svo stöddu.  Hitt er svo annað að við höfum varað mjög eindregið við því að samið sé til langs tíma um þennan rekstur enda sýnir þessi umræða um ofmikla framlegð vegna vaxandi farm- og farþegafluttninga hversu mikilvægt það er að bjóða þetta út reglulega.  Það er stór liður í að tryggja hagsmuni neytenda og ríkisins um leið.

Ég treysti því að þingmennirnir okkar vinni þessu máli framgang fyrir okkur enda er hér um ríkisrekstur að ræða.  Við bæjarfulltrúar stöndum með þeim í þeirri baráttu og gerum hvað við getum en staða þingmanna er óneitalega sterkari þegar að ríkisrekstri kemur.  Það er svo Vegagerðin sem er ábyrg fyrir samningum um rekstur Herjólfs og þangað ber að snúa kröfum og ábendingum.  Samgöngur ráða að stóru leiti lífsgæðum í Vestmannaeyjum og eðlileg krafa okkar er ætíð sé allt gert til að tryggja okkur bestu möguleg lífsgæði, segir bæjarstjóri að endingu.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.