Hátíðarræða Sveins Valgeirssonar:

Dagur til að minnast góðra vina og góðra minninga

Notaði tækifærið til að þakka samfélaginu í Eyjum fyrir sig

8.Júní'16 | 06:45

Á Sjómannadaginn síðasta féll það í skaut Sveins Rúnars Valgeirssonar að flytja hátíðarræðu dagsins. Sveinn Rúnar kom víða við í ræðu sinni sem Eyjar.net birtir hér í heild sinni, vegna fjölda áskorana.

Sjómenn og fjölskyldur. Til hamingju með daginn.

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur. Sjómannadagurinn er ekki dagur til að þvarga um samninga, eða til að gera upp sakir eða standa yfir höfuð í leiðindum. Þetta er dagurinn sem við sjáum jafnvel rígfullorðna karlmenn faðmast og kyssast létt á vanga og minnast liðinna tíma.

Sjómannadagurinn hefur í gegnum tíðina verið mér og minni fjöldskyldu sá dagur þar sem mikill undirbúningur fyrir góða veislu og gleði hefur ráðið ríkjum. Veislurnar hafa verið með ýmsu sniði, en minnistæðust er mér veislan þegar um 200 manns komu inná heimilið um kvöldið og fram á morgun. Ekki skemmdi fyrir að ég var með nokkra færeyinga í áhöfn sem voru velspilandi og syngjandi.

Eins og ég sagði þá er þetta dagur til að minnast góðra vina og góðra minninga.

Mín fyrstu kynni af Vestmannaeyingum er síðan haustið 1969. Þá réði ég mig í skipsrúm hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja á Viðey RE 12.  Gísli H. Jónasson var skipstjóri og Eiríkur hestur stýrimaður, Kjartan á Múla loftskeytamaður og Biggi heitinn í Borgó ásamt fleiri góðum Eyjamönnum.

Héldum við til síldveiða við Ameríku með Gloscester sem heimahöfn. Það er skemmst frá því að segja að annari eins áhöfn hafði ég aldrei verið með. Veiðin fór fram á nóttinni og landað fyrir hádegi og frí um helgar. Áhöfnin keypti saman bíl og þvældumst við víða um. Þó er mér minnistæðast að það var einn gítar um borð og var mikið sungið saman í borðsalnum á Viðeynni við undirleik Sigga Jó.

Ég, 17 ára peyjinn og er óhætt að segja að hjónin Gísli og Viggí hafi gengið mér í foreldrastað á meðan ég var á Viðeynni.  Ég er  þeim ævinlega þakklátur fyrir.

Ég réði mig síðan aftur í skipsrúm 1972 á Lundann Ve 110 hjá Sigga Vídó og var ætlunin að taka vertíðina og halda svo áfram flugnámi sem ég var í, en síðan ég hef ekki farið í fleiri flugtíma, enda komin kærasta í spilið og barn á leiðinni.

Þann 10. apríl á vertíðinni 1972 var Lundinn á leið út að draga netin í austan hauga brælu. Þegar við vorum komnir á móts við Klettinn fengum við drauganet í skrúfuna og rak bátinn stjórnlaust undan sjó og vindi í átt að landi og stuttu seinna tók brimið okkur á  siðri hafnargarðinn.  Þar barðist Lundinn  hjálparlaus uns að endingu brimið hafði kastað okkur norður fyrir hafnargarðinn, þar sem Lóðsinn kom okkur til bjargar en þá var Lundinn þegar orðinn ónýtur kominn að því að sökkva og allur brotinn.

Á meðan við veltumst um í briminu á syðri hafnargarðinum skipaði Siggi Vídó okkur hásetunum að halda kyrru fyrir fram undir hvalbak. Ég held að það hafi bjargað lífi okkar þar sem við húktum fram undir hvalbaknum hvað Siggi Vídó var rólegur og kallaði stöðugt til okkar og róaði okkur. “Þetta er allt að koma strákar , ég er búinn að taka mið á ljósum inn í Friðarhöfn og við erum að sleppa fyrir garðinn.“ Og „Ég er búinn að biðja um Lóðsinn.“  Á slíkri ögurstundu reynir á skipstjórann og þar brást Siggi Vídó ekki, óttaleysi hans og staðfesta fékk okkur hásetana til að finnast sem við værum öryggir og hann hefði jafnvel stjórn á hlutunum.

Það var góð tilfinning að sjá Lóðsinn með Einar skiptó í brúarglugganum koma og taka Lundann í tog. Sem var allur brotinn og kominn að því að sökkva.  Gamli Lóðsinn var á þessum tíma stærsta og öflugasta björgunartækið við suðurströndina. Eyjamenn réðust í það stórvirki að láta smíða Lóðsinn 1962 og endurnýjuðu síðan skipið aftur 1998 með núverandi Lóðsbát, sem einnig er stærsta og öflugasta björgunartækið við suðurströndina rekið alfarið á kostnað Vestmannaeyja.

Framsýni og áræðni Eyjamanna í björgunar og öryggismálum sjómanna hafa verið öðrum hvatning og til eftirbreytni fyrir aðrar sjávarbyggðir bæði hérlendis sem og erlendis.

Skipskaðar voru nær árvissir við Vestmanneyjar á árunum áður.  Þá kom vel í ljós áræðni og stórhugur Eyjamanna. Þá var ráðist í það stórverkefni að útvega björgunarskip fyrir Vestmanneyinga. Þá var hvorki hugsað lítið eða smátt heldur keypt stærðarinnar björgunarskip, sem fékk nafnið Þór og varð síðar upphafið af Landhelgisgæslu Íslands. Björgunarskipið Þór kom til landsins 26. Marz 1920.

Landhelgisgæslan hefur heiðrað minningu og stórhug þessara manna með því að skýra flaggskip gæslunnar  „Þór“ og er það langstærsta björgunartækið við Ísland í dag.

Vestmanneyingar voru einnig fyrstir til að skylda gúmmíbjörgunarbáta í Eyjaflotann. Sú ákvörðun varð síðan öðrum til eftirbreyttni ekki bara hérlendis heldur einnig erlendis.

Fyrsta björgun áhafnar með þessu björgunartæki var hér í Eyjum árið 1952, þegar áhöfn Veigu Ve bjargaðist, en einn maður fórst. Einnig þegar Glaður Ve sökk. Þá komst öll áhöfnin í gúmmibjörgunarbát og fannst tæpum sólarhring seinna af breskum togara. Skipstjóri breska togarans var svo hrifin af þessu björgunartæki að hann fékk að taka bátinn með til Englands og upp úr því var breski fiskiskipaflotinn kominn með gúmmíbjörgunarbáta.

Vestmanneyingar hafa notið þess að stórhuga fólk hefur valist til forustu fyrir byggðarlagið. Má þar nefna vísindamanninn og frumkvöðulinn í björgunarmálum sjómanna Sigmund Jóhansen ásamt Eykindilskonum sem eru óþreyttandi í baráttumálum fyrir velferð byggðarlagsins.

Eyjamenn hafa í gegnum tíðina ekki beðið eftir leiðsögn eða handleiðslu stjórnvalda heldur hafa þeir tekið forustu og frumkvæði í öllum stærstu hagsmunamálum er varða velferð byggðarlagsins og má þar t.d nefna að Eyjamenn voru ekkert að bíða eftir því að stjórnvöldum hugnaðist að koma símasambandi á við Eyjar, heldur lögðu bara sjálfir símastreng til Eyja.

Sá kraftur og dýnamik sem býr í þessu samfélagi er ekki fyrir tilstuðlan einhverra sérfræðinga að sunnan, heldur er hann drifinn áfram af frumkvæði fólksins sem hér býr. Þetta er enn til staðar og sést vel þegar horft er yfir Eyjaflotann og áræðni fyrirtækjanna í fullvinnslu sjávarafurða.

Nútíma samfélag þrífst ekki nema með góðum samgöngum og þar erum við orðnir eftirbátar annara. Þetta farið að hafa neikvæð áhrif á þróun samfélagsins hér.

Í þessum málum finnst mér forustumenn okkar hafa sofnað á verðinum og gleymt því úr hverju þetta byggðarlag er gert. Í samgöngumálum er hvorki frumkvæði né stórhugur, heldur finnst mér sem lítillæti, nægjusemi og trúgirni á sérfræðiskýrslur og minnisblöð svo kallaðra sérfræðinga ráði ríkjum. Lausnarorð þeirra er frá árinu 2007 - lítil battarísferja, en reyndar sú fyrsta á Íslandi.

Við unga fólkið í bæjarstjórn og einnig til þeirra sem koma inn í næstu kosningum vil ég segja: Leitið ykkur að fyrirmyndum í sögu Eyjanna - þá mun þetta samfélag halda áfram að vera í fremstu röð og öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Það eru orðin 44 ár síðan ég kom á vertíð hjá Sigga Vídó á Lundanum. Þetta hefur verið góður tími og hef ég átt hér margar af mínum bestu stundum.  Ég hef fengið að vera þátttakandi í samfélaginu, en aðalega hef ég þó fengið að njóta þess að vera hér.  Ég ætla að nota þetta tækifæri til að þakka samfélaginu í Eyjum fyrir mig.

Góðir Vestmannaeyingar vonandi verður þessi Sjómannadagur ykkur tilefni góðra minninga.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Bók Bjarna í Bónus

2.Desember'19

Nú er hægt að kaupa bók Bjarna Jónassonar „Að duga eða drepast” í Bónus, Vestmannaeyjum. Að duga eða drepast lýsir lífshlaupi Bjarna Jónassonar, flugmanns og útvarpsstjóra í Vestmannaeyjum.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.