Ásmundur Friðriksson var þungorður á þingi:

Fór yfir rekstrartölur Herjólfs og vandamál Landeyjahafnar

7.Júní'16 | 07:00
Asi_herjolf

Ásmundur Friðriksson.

Í síðustu viku var frumvarpið um útboð á nýrri Vestmannaeyjaferju samþykkt á Alþingi. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fór þar ítarlega yfir málið og lýsti yfir miklum efasemdum um að ferjan stæðist væntingar. 

Auk þess telur hann mikilvægt að ráðast tafarlaust í rannsóknir á Landeyjahöfn. Þá fór hann yfir útreikninga sem hann hefur unnið á rekstri Herjólfs. Eyjar.net birtir hér ræðu Ásmundar í heild sinni.

 

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni fyrir framsögu hans og yfirferð um þetta frumvarp til laga um heimild til útboðs nýrrar Vestmannaeyjaferju.

Á meðan höfnin er lokuð siglir engin ferja þangað

Það er vissulega þannig að Vestmannaeyingar hafa miklar væntingar um að ný ferja geti bætt þjónustuna við Eyjar. Það er nú annað hvort að grunnristara skip eigi ekki eftir að gera það. En það er auðvitað höfnin í Landeyjum sem er forsenda ekki bara mannlífsins og atvinnulífsins í Vestmannaeyjum heldur líka ferðaþjónustunnar sem minnst var á áðan. Á meðan höfnin er lokuð siglir engin ferja þangað. Það liggur fyrir að sú ferja sem hér er um að ræða er hönnuð til að sigla í Landeyjahöfn sem á undanförnum árum er að jafnaði lokuð 100 daga á ári. Frá mánaðamótunum nóvember til apríl eru að jafnaði þrír dagar í mánuði þar sem ölduhæð er minna en einn metri, sem er sú ölduhæð sem þarf til að stunda dýpkanir við höfnina. Þessir þrír dagar hafa ekki dugað til að halda höfninni opinni vegna þess að sandburðurinn er slíkur. Þar liggur hundurinn grafinn. Það liggur í því að við höfum ekki ráðið við höfnina.

Í þeim tillögum sem liggja frammi í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að nýhannað skip muni sigla 84% af ferðunum í Landeyjahöfn. Allt það sem reyndir sjómenn, bændur í Landeyjum og aðrir hafa sagt um þá höfn og þau vandamál sem menn hafa ratað í við gerð hennar og eftir að hún var tekin í notkun hefur komið fram, hvert einasta atriði. Gos varð í Eyjafjallajökli sem setti líka sérstakt strik í reikninginn, það er alveg ljóst. En áhrif þess gætir lítið eða ekkert í dag, að menn halda alla vega.

87% vildu laga höfnina í Landeyjum áður en ný ferja yrði byggð

Það kom líka fram áðan að enginn veit hvað höfnin verður lengi opin á hverju ári. Í umræðum í fjárlaganefnd sagði fulltrúi Vegagerðarinnar að enn sem komið er væru engar líkur til þess að menn réðu við þær aðstæður sem væru fyrir utan höfnina, en það er akkúrat þar sem vandamálið liggur, þ.e. fyrir utan höfnina. Þess vegna er mikilvægt að leggja fé í framkvæmdir til að rannsaka hvað gera skuli til að bæta aðstöðuna í höfninni svo þessi nýja ferja megi sigla sem oftast og sem lengst í höfnina, sem er auðvitað markmiðið. Mín skoðun er sú eftir að hafa kynnt mér það í Eyjum og þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið um þetta mál. Í síðustu skoðanakönnun voru yfir 800 Vestmannaeyingar spurðir og kom þá fram að 87% þeirra vildu laga höfnina í Landeyjum áður en ný ferja yrði byggð. En auðvitað eru deildar meiningar um það eins og annað.

Stóra vandamálið er höfnin

Stóra vandamálið er höfnin. Ef hin nýja ferja þarf að sigla fjóra til fimm mánuði í Þorlákshöfn er alveg ljóst þrátt fyrir það sem hér stendur, þ.e. að hún muni einungis verða fimmtán mínútum lengur að sigla til Þorlákshafnar en núverandi Herjólfur, að ný ferja mun ekki standast því gamla skipi snúning þegar kemur að því að sigla í brælum milli lands og Eyja. Það er alveg ljóst. Reyndir skipstjórnarmenn segja að í svona hefðbundnum suðvestan brælum eins og eru í Vestmannaeyjum verði ekki sigldar neinar tvær ferðir á dag á nýju skipi. Það mun verða lengi á leiðinni og erfitt verður yfirferðar sökum grunnristu. Það er því margt að varast í þessu.

Fram hefur komið að skipaverkfræðingur sem var í byggingarnefnd Herjólfs, og sagði sig úr nefndinni, lét hafa eftir sér að staldra þurfi rækilega við, menn verði að viðurkenna að mistök hafi verið gerð við hönnun Landeyjahafnar og ekki sé hægt að bæta það með nýju skipi. Mjög mikilvægt er að halda því til haga. Það er líka mikilvægt að halda til haga því sem hér kom fram áðan að þær tankaprófanir sem hafa farið fram og módelprufur af nýju skipi hafa sýnt glögglega að þær væntingar og forsendur sem gerðar voru til byggingar þessa skips standast ekki. Í fundargerðum smíðanefndarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„SÁG leggur til án þess að nokkurri rýrð sé varpað á hönnunina, að þar sem skipið uppfylli ekki kröfuna, verði leitað álits aðila sem ekki hefur komið með neinum hætti að hönnuninni. Í því felist ákveðin trygging fyrir vinnuhópinn.“

Hann vildi sem sagt að hönnunin yrði öll endurskoðuð þar sem skipið stóðst ekki þær væntingar sem til þess voru gerðar. Svo eru sömu aðilar að spá því að þetta skip verði 5–15 mínútum lengur að sigla til Þorlákshafnar og gengur það nú ekki nema 13,5 mílur við bestu aðstæður.

Mikilvægt að nú þegar hefjist rannsóknir á aðstæðum í Landeyjahöfn

Það er því mikilvægt að nú þegar hefjist rannsóknir á aðstæðum í Landeyjahöfn og fá til þess nýja aðila, aðra en Vegagerðina, sem hefur frá upphafi hannað og rekið þá höfn undir mikilli gagnrýni skipstjórnarmanna og sjómanna í Vestmannaeyjum. Á fundi með innanríkisráðherra síðasta vetur mættu fulltrúar skipstjóra sem hafa siglt á Herjólfi frá því að skipið byrjaði að sigla í Landeyjahöfn. Þeir hafa siglt þangað fleiri þúsund ferðir. Ég vil, með leyfi forseta, lesa bókun sem þeir lögðu fram á þeim fundi:

„Við teljum að sú ferja sem nú er verið að ljúka við að hanna komi ekki til með að minnka frátafir ferjusiglinga í Landeyjahöfn nema að óverulegu leyti. Umrædd ferja hentar þá verr til siglinga í Þorlákshöfn og má fastlega búast við að frátafir ferjusiglinga yfir vetrarmánuðina muni aukast með tilkomu hennar. Mikilvægt er því að okkar mati að sett verði í forgang að skoða alla möguleika á lagfæringum á höfninni svo frátafir minnki og öryggi sjófarenda verði betur tryggt á þessari siglingaleið.“

Þetta segja skipstjórarnir sem hafa siglt frá árinu 2010 allar ferðirnar í Landeyjahöfn, skipstjórnarmenn í Vestmannaeyjum, reyndir skipstjórnarmenn. Það er nú einn þeirra í okkar hópi hér, hæstv. þm. Páll Jóhann Pálsson. Þeir hafa allir sagt að mikil vandræði verði fyrir nýja ferju að athafna sig við höfnina þá mánuði sem sandburður er mestur. Það hefur komið í ljós að í fyrstu brælum á haustin er dýpið við hafnarmynnið komið í tvo metra eins og það var mánuðum saman í vetur og það skiptir engu máli hvað menn byggja margar ferjur, jafnvel þótt þær risti ekki nema 2,8 metra. Þegar hafnarmynnið er í tveimur metrum fer þar enginn inn.

Rannsóknir sem gerðar voru áður en höfnin var opnuð voru algerlega ófullkomnar

Ég held að við þurfum, virðulegi forseti, að einbeita okkur að því að tryggja góða höfn í Landeyjum, finna út hvað við getum nýtt þá höfn mikið á hverju ári og byggja síðan skip sem nýtist samkvæmt því, vegna þess að í upphaflegri áætlun með höfninni var gert ráð fyrir að byggja nýja og minni ferju. Þá höfðu menn ekki gert ráð fyrir því að höfnin yrði lokuð í 5–6 mánuði á ári. Nú hefur það komið í ljós og nú er ný ferja sem byggð er jafn stór Herjólfi, um það bil 69 metrar, og hefur jafnvel verið gagnrýnd fyrir að vera of lítil miðað við þá flutninga sem í vændum eru.

Ég skil vel mína kæru vini í Vestmannaeyjum að vera óþolinmóðir yfir því að fá ekki nýja ferju. Ég held reyndar að þeir átti sig á því að við þurfum að laga höfnina. Þetta þarf auðvitað að vera samtal og samstarfsverkefni okkar. Ég sakna þess að enginn, hvorki Vegagerðin né ráðuneytið, hefur óskað eftir því að sett verði meira fé til rannsókna á innsiglingunni við Landeyjahöfn til að tryggja að þessi nýja fjárfesting, sem verður væntanlega samþykkt hér á morgun, geti nýst Vestmannaeyingum til að sigla að minnsta kosti 11 mánuði á ári í Landeyjahöfn. En því miður eru litlar eða engar líkur á því miðað við núverandi ástand. Jafnvel bestu skip sem koma frá Belgíu og dýpka hér við land ráða ekki við öldulagið. Þeir sem hafa unnið þar um borð hafa sagt að þeir hafi aldrei kynnst öðrum eins aðstæðum og eru við suðurströndina enda úthafið á þrjá vegu að höfninni, austur, suður og vestur, og oft mikill darraðardans í sjónum. Og menn ráða nú lítið við þær aðstæður þegar best lætur. Það hefur líka komið í ljós að þær rannsóknir sem gerðar voru áður en höfnin var opnuð voru algerlega ófullkomnar. Menn höfðu ekki kannað hvernig suðaustanaldan og suðvestanaldan mundi bera að höfninni, höfðu reyndar ekki aðstæður til þess þar sem það var gert, og við berum þann kaleik áfram.

Ekki er vitað til þess að slíkur dælubúnaður hafi virkað annars staðar

Mig langar líka að víkja aðeins að því sem kemur fram í skýrslu um opinber fjármál 2017–2021 en þar kemur fram að kaupa eigi fastan dælubúnað til að koma fyrir við höfnina. Það er auðvitað mikilvægt að menn hugsi leiðir og líti út fyrir boxið til að finna lausn á vanda hafnarinnar. Það hefur gjarnan verið þannig að þegar höfnin er búin að vera lokuð sem lengst og mikil óþolinmæði hefur birst hjá íbúum Vestmannaeyja hafa fulltrúar Vegagerðarinnar komið með einhverjar dúsur eins og fastan dælubúnað eða fjarstýrðar ýtur eða annan slíkan búnað sem á að halda höfninni opinni. Hér er gert ráð fyrir að um 6 milljarðar verði settir í nýtt skip, nýja ferju, en gert er ráð fyrir á um annan milljarð í fastan dælubúnað. Það skal tekið fram að ekki er vitað til þess að slíkur dælubúnaður hafi virkað annars staðar. Engar rannsóknir hafa farið fram um hvort slíkur búnaður geti yfir höfuð virkað í Landeyjahöfn. Við komum því enn og aftur að því að gera þarf rannsóknir og enn og aftur rannsóknir til þess að ný ferja nýtist eins og hugmyndin er. Vissulega er það svo að Herjólfur er orðinn 25 ára gamall og alltof gamall og var ekki hannaður sérstaklega fyrir þá höfn og þarf meira dýpi. En menn mega heldur ekki gleyma því að til þess að dýpka þarf að vera töluvert dýpi fyrir dýpkunarskipin og mun meira dýpi en nýr Herjólfur þarf til að mynda. Þetta eru því hlutir sem við þurfum að skoða öll saman.

Mikið væri gott ef ég hefði bara rangt fyrir mér

Ég velti oft fyrir mér og hugsa oft með sjálfum mér þegar ég hef rætt þessi mál: Mikið væri gott ef ég hefði bara rangt fyrir mér. Þetta væri bara allt rangt sem ég var að segja. Því að það er ekki létt fyrir mig sem Vestmannaeying að standa hér og segja þessi orð. En samviska mín býður mér að þetta sé staðan. Ég trúi reynslumiklum mönnum, sjómönnum í Vestmannaeyjum, sem hafa sagt okkur frá þessu.

Rekstur Herjólfs

Mig langar aðeins í lok ræðu minnar að ræða um rekstur Herjólfs. Við höfum öll heyrt á undanförnum árum að Vestmannaeyingar hafa óskað eftir því að það kostaði jafn mikið, þ.e. farmiðinn frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn og frá Vestmannaeyjum í Þorlákshöfn en það er verulega dýrt að ferðast til Þorlákshafnar. Það hefur ekki verið til peningur fyrir því og ýmsar ástæður hafa verið nefndar. Ég og töluglöggir Vestmannaeyingar tókum saman upplýsingar um rekstur Herjólfs svo langt sem við komumst. Ljóst er að Eimskipafélagið gefur ekki upp tölur úr reikningi skipsins þrátt fyrir að 718 milljónir fari af fjárlögum til rekstrar skipsins, til fyrirtækisins, þá er ekki hægt að fá rekstrartölur eða upplýsingar um kostnað af útgerðinni. Þær tölur sem ég er með og hef sent Eimskip og ekki fengið athugasemdir við eru áætlaðar að mestu leyti, en við förum mjög nærri um alla hluti. Þannig gerum við ráð fyrir að 307 þús. farþegar ferðist með skipinu en af því eru 107 þús. eldri borgarar og börn innan 12 ára aldurs sem fá frítt með skipinu. (Gripið fram í:Hvað með eldri borgara?) Nei, börnin, þau fá frítt. (Gripið fram í: Og eldri borgarar.) Nei, þeir borga hálft gjald samkvæmt gjaldskrá. Árið 2015 geri ég ráð fyrir að tekjur hafi lauslega verið 1,4 milljarðar. Af því koma 451 milljón í tekjur af farmiðasölu, um það bil 170 milljónir eru vegna flutningabíla og gáma og eru þetta varlega áætlaðar tölur. Við gerum ráð fyrir að launakostnaður vegna skipsins sé um 360 milljónir og olían 307 milljónir. Þessar tölur höfum við nokkuð á hreinu. Við höfum hafnargjöldin upp á 60 milljónir, rafmagn og vatn og annan kostnað eins og reglulegt viðhald, slipp, tryggingar og annan kostnað upp á 165 milljónir. Þetta eru allt stórar tölur í rekstri þessa skips. Í okkar ágiskuðu, óstaðfestu tölum er rekstur skipsins rúmur milljarður. Eftir standa rúmar 307 milljónir sem er fram lagt til annars kostnaðar eða verktaka útgerðarinnar. Með öðrum orðum er hægt að segja að útgerðin sé næsta sjálfbær ef vel væri og betur væri athugað.

Með betri höfn verði auðvelt að gera rekstur Herjólfs sjálfbæran

Ég held að með betri höfn verði auðvelt að gera rekstur Herjólfs sjálfbæran. Miðað við þær tölur sem hér koma fram kostar það á bilinu 80–90 milljónir að hafa sama fargjald í Landeyjahöfn og á Þorlákshöfn. Þrátt fyrir hækkanir sem hafa verið á undanförnum árum og þær hafa verið hóflegar, þá er alveg ljóst að í þessum reikningi er mikið svigrúm til að lækka kostnað, lækka ferðakostnað Vestmannaeyinga og flutningskostnað, sem er til dæmis þannig að ef Vestmannaeyingur kaupir sér sófa í verslun í Reykjavík og sófinn kostar 70 þús. kall kostar hann 100 þús. kall þegar hann er kominn til Eyja. (Gripið fram í: Svínarí.) Ef þetta er rétt er það svínarí.

Ég segi: Það er mikilvægt fyrir okkur á þessum tímum þegar þingið ætlar að taka ákvörðun um að byggja nýtt skip að farið verði ofan í þessar tölur, þær verði fengnar upp á krónu hvernig þessi rekstur gengur fyrir sig og hagnaðinum verði þá skilað til íbúanna í Vestmannaeyjum, til þeirra sem ferðast með skipinu og/eða til að greiða niður nýtt skip. Greiða nýtt skip. Því að sannarlega, eins og kom fram í máli hv. framsögumanns, ef ferja siglir allt árið til Eyja koma þeir 4 þús. einstaklingar, ferðamenn sem mæta í Reynisfjöru á hverjum sunnudegi allan veturinn, örugglega við í Eyjum líka. Og þá breytast þessar tölur mikið.

Örugglega verðum við gagnrýnd fyrir að segja sannleikann í þessu máli

Við höfum því verk að vinna, kæru vinir, að skoða þessi rekstrarmál og hvernig við getum bætt samgöngur við Vestmannaeyjar. Í enda dagsins snýst þetta allt um það. Örugglega verðum við gagnrýnd fyrir að segja sannleikann í þessu máli. Þannig er það bara alltaf þegar maður þarf að vaða gegn straumnum. En þegar hjartað býður manni það verður svo gott að heita og við göngum út í sumarnóttina með þá von í brjósti að ný ferja verði auðvitað betri en ég er að segja hér. Það er sko sannarlega von mín að ég hafi rangt fyrir mér með þetta allt saman. En þessi varnaðarorð er nauðsynlegt að segja við okkur öll. Við þurfum að hlusta á raddir skipstjóranna, hlusta á raddir reynslunnar sem hafa varað við því hvernig staðið er að málum í Landeyjahöfn, í og við höfnina, og að við munum ekki ná neinum árangri nema við leggjum fé til að bæta aðgengið að höfninni til öryggis fyrir sjófarendur og Eyjamenn sem þurfa á bættum samgöngum að halda, fyrir fólkið í Eyjum, fyrir atvinnulífið og fyrir ferðaþjónustuna.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.