Sendu öllum þingmönnum bréf

Segja miklar brotalamir á vinnu við hönnun á nýrri ferju

Vilja fara að tillögu Sigurðar Áss og fá óháða úttekt

13.Maí'16 | 16:31

Halldór Bjarnason og Kristján Eggertsson sendu fyrir hönd hópsins Horft til framtíðar þann 25. apríl sl. bréf á alla alþingismenn þar sem þeir fóru yfir þann feril sem farinn hefur verið í hönnun nýrrar ferju og því sem ekki hefur staðist í þeim efnum.

Nú stendur fyrir dyrum að taka umrætt frumvarp til þinglegrar meðferðar og samkvæmt heimildum Eyjar.net er frumvarpið tilbúið. Sjálfir telja bréfritarar skynsamlegast að leigja þegar í stað heppilega ferju. Eyjar.net birtir hér umrætt bréf:

 

Ágæti þingmaður !

Með bréfi þessu ætla undirritaðir að reyna að gera í stuttu máli grein fyrir ástæðum þess að staldra við og fá óháða úttekt á ferjuhönnunni og framkvæmdum í Landeyjahöfn.  

Undirritaðir telja það ekki forgangs verkefni að fara í smíði nýrrar ferju til siglinga milli lands og eyja. Teljum við mun eðlilegra að taka tafarlaust á leigu heppilegra skip en núverandi Herjólf til þessara siglinga. (Þannig skip munu vera til taks)

RÖKSEMDIR OKKAR ERU ÞESSAR:

Við höfum fengið staðfest að verið sé að þrýsta verulega (óeðlilega) á þingmenn að staðfesta aukafjárveitingu til nýsmíði á ferju. Í þessu samhengi er vert að benda á nokkrar staðreyndir frá smíðanefnd nýrrar ferju:

  • Sævar M. Birgisson skipaverkfræðingur sagði sig úr nefndinni vegna þess að hann taldi menn vera að nálgast verkefnið á rangan hátt. Sævar hefur ekki viljað láta hafa mikið eftir sér opinberilega en sagði þó „Tel­ur að staldra þurfi all­ræki­lega við. Menn verði að viður­kenna að mis­tök hafi verið gerð við hönn­un Land­eyja­hafn­ar og ekki sé hægt að bjarga því með nýju skipi.“
  • Um mitt ár í fyrra skapaðist ágreiningur í smíðanefndinni er Sigurður Áss Grétarsson lagði til að fengnir yrðu óháðir aðilar til að taka verkið út, eftir að ljóst var að ferjan stóðst ekki hönnunnar kröfur. Orðrétt segir í fundargerð smíðanefndar „SÁG leggur til án þess að nokkurri rýrð sé varpað á hönnunina, að þar sem skipið uppfylli ekki kröfuna, verði leitað álits aðila sem ekki hefur komið með neinum hætti að hönnuninni. Í því felist ákveðin trygging fyrir vinnuhópinn.“
  • Andrés Þ. Sigurðsson lagðist gegn tillögu Sigurðar og svo virðist sem hann hafi haft sitt í gegn þar sem ekki var farið að ósk Sigurðar Áss. Ekki voru lögð á borðið nein marktæk rök nema að Vestmannaeyinga vanti nýtt skip og ekki sé hægt að bíða lengur.
  • Í sömu fundargerð segir „Fram kemur að þurfi skipið meira en 4,5 m dýpi þurfi að áætla dýpið sem þarf og þær frátafir sem af því leiði og kynna vel.“ Það var ekki kynnt fyrr en fyrir fáeinum dögum og ekki af frumkvæði nefndarinnar. Bókunin var í fundargerð frá í júní 2015.
  • Í byrjun þessa árs samdi Sigurður Áss Grétarsson minnisblað þar sem hann greinir frá því að þær módelprófanir sem ný ferja hefur verið í, standist ekki væntingar. Athygli vekur að hann skrifar einn undir minnisblaðið, en ekki öll smíðanefndin. Í minnisblaðinu notast hann við niðurstöður úr módelprófunum og bætir síðan við órökstuddum fullyrðingum um getu ferjunnar, þar sem niðurstöður úr módelprófum ná ekki að sýna.
  • Í október 2015 fundaði hluti smíðanefndar (Friðfinnur, Sigurður Áss og Andrés og  Hjörtur Emilsson) með bæjarstjórn Vestmannaeyja. Einnig var Sveinn Rúnar Valgeirsson, skipstjóri á Lóðsinum í Eyjum boðaður á fundinn. Þá var Jóhannes Jóhannesson skipaverkfræðingur og ráðgjafi nefndarinnar á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Á þessum fundi var fullyrt af smíðanefndinni að ný ferja gæti siglt í Landeyjahöfn í 3,5m kenniöldu og hafi staðist allar væntingar þar um í prófunum. Hér er nauðsynlegt að benda á að umræddur fundur er þremur mánuðum eftir að Sigurður Áss upplýsti að skipið uppfyllti ekki kröfur og óskaði eftir óháðri úttekt. Það er því ljóst að kjörnum fulltrúum var ekki greint rétt frá, á umræddum fundi.

Af þessu má sjá að töluverður ágreiningur er meðal nefndarmanna vegna getu skipsins og ljóst að eftir því sem meira er rannsakað minnkar tiltrú manna á að skipið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þess.

Þá er einnig vert að draga saman ýmsar þær athugasemdir sem komið hafa fram frá mönnum sem þekkja höfnina best, þ.e skipstjórar. Þeir hafa haft miklar áhyggjur af á hvaða vegferð málið er.

  • Skipstjórarnir fóru til fundar við aðstoðarmann ráðherra, skrifstofustjóra og formann smíðanefndarinnar í innanríkisráðuneytinu í upphafi þessa árs. Þar lögðu þeir í lok fundar fram ályktun þar sem segir m.a:

Við teljum að sú ferja sem nú er verið að ljúka við að hanna komi ekki til með að minnka frátafir ferjusiglinga í Landeyjahöfn nema að óverulegu leiti. Umrædd ferja hentar þá verr til siglinga í Þorlákshöfn og má fastlega búast við að frátafir ferjusiglinga yfir vetrarmánuðina muni aukast með tilkomu hennar.

Mikilvægt er því að okkar mati að sett verði í forgang að skoða alla möguleika á lagfæringum á höfninni svo frátafir minnki og öryggi sjófarenda verði betur tryggt á þessari siglingaleið.

Af ofangreindu má sjá að miklar brotalamir eru á allri þessari vinnu og er nauðsynlegt að bregðast við. Undirritaðir ítreka þá skoðun að heillavænlegast sé að taka tafarlaust á leigu heppilega nýlega ferju til reynslu í ca 1-2 ár. Ferju sem hentar mun betur en núverandi Herjólfur bæði hvað varðar aukinn farþegafjölda og aukningu í vöruflutningum samanber fyrirliggjandi spár Vegagerðarinnar.

Ástæða þess er að hvorki hafnarmannvirki í Landeyjum í núverandi ástandi, eða sú ferja sem áætlað er að smíða koma til með að bæta samgöngur eins og áætlað hefur verið.

Þá er mikilvægt að fara að tillögu Sigurðar Áss og fá óháða úttekt. Ekki einungis á ferjuhönnuninni, heldur einnig á Landeyjahöfn. Fá heildstæða úttekt og tillögur að úrbótum.

Ef einhverntíma hefði verið talin ástæða til að staldra við með fjárveitingu að upphæð ca 4,5 milljarða framhjá Ríkiskaupum og utan fjárlaga – þá er það nú. Það er ábyrgðarhluti hjá þingmönnum á Alþingi Íslendinga að samþykkja aukafjárveitingu af slíkri stærðargráðu þegar svo mörg vafaatriði eru uppi og raun ber vitni.

 

Fyrir hönd Horft til framtíðar – áhugahóps um bættar samgöngur milli lands og eyja:

Halldór Bjarnason
Kristján Eggertsson

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.