Umhverfisráðuneytið:

Vilja friðlýsa búsvæði sjófugla í Vestmannaeyjum

Bæjarstjórn frestaði - vill fara betur yfir málið

4.Maí'16 | 14:40

Lundar verða m.a friðlýstir - nái þetta erindi fram að ganga.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var tekið fyrir erindi frá Umhverfisráðuneytinu þess efnis að friðlýsa búsvæði sjófugla í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða bæjarstjórnar var að fresta ákvörðunartöku í málinu þar til bæjarstjórn hefur fundað með fulltrúum frá Umhverfisráðuneytinu vegna þessa. Ekki ríkti einhugur í bæjarstjórn þar sem Páll Marvin Jónsson formaður bæjarráðs sat hjá við þessa afgreiðslu og gerði grein fyrir atkvæði sínu.
Aðrir bæjarfulltrúar samþykktu að fresta málinu. Trausti Hjaltason og Elliði Vignisson gerðu einnig grein fyrir atkvæðum sínum.

Í skjali sem lagt var fyrir bæjarstjórn um friðlýsingu búsvæðis sjófugla í Vestmannaeyjum segir:

 

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2009 - 2013 og með samþykki ráðherra sem fer með málefni sjávarútvegs og bæjarstjórnar Vestmannaeyja og áliti  Hafrannsóknastofnunar, að friðlýsa búsvæði sjófugla í Vestmannaeyjum sem friðland, í samræmi við 2. og 49.gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Í Vestmannaeyjum er stærsta sjósvölubyggð í Evrópu og er stærsta varpið í Elliðaey en einnig er varp í  Bjarnarey, Smáeyjum, Álsey, Brandi, Hellisey og Suðurey. Eini varpstaður skrofu á Íslandi er í Vestmannaeyjum og er þekkt varp tegundarinnar m.a. í Ystakletti á Heimaey, Elliðaey, Bjarnarey, Álsey og Suðurey. Í Vestmannaeyjum er varpstaður nær allra stormsvala landsins og þar er varpstaður um þriðjungs lundastofnsins á Íslandi.

Við ákvörðun um friðlýsingu þessa er tekið mið af samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978, samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi alþjóðlega mikilvægra fuglabyggða og vernda búsvæði lunda, skrofu, stormsvölu, sjósvölu, súlu, ritu, fýls, langvíu og álku.

Ennfremur er markmið friðlýsingarinnar að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á búsvæði og afkomu sjófugla, og að tryggja fræðslu um fuglalífið þar sem aðgengi er gott að hluta verndarsvæðisins.

 

3. gr.

Mörk verndarsvæðisins.

Friðlýsingin tekur til eftirtalinna svæða á Heimaey: Dalfjalls, Háar, Litla Klifs, Klifs, Sæfjalls,  Kervíkurfjalls, Litla Höfða og Stórhöfða,  ásamt hafsvæði allt að 500 m utan við svæðin. Einnig tekur  friðlýsingin  til Ystakletts, Miðkletts og Heimakletts, en nær þar ekki til sjávar við innsiglingu innan við Klettsvík og innan hafnarsvæðisins. Þá tekur friðlýsingin til allra úteyja, þ.e. eyjasvæða ásamt hafsvæði umhverfis, þ.e. Faxaskers, Elliðaeyjar, Bjarneyjar, Smáeyja þ.e. Hana, Hænu, Hrauneyjar og Grasleysu, Álseyjar og Brands,  Suðureyjar, Helliseyjar,  Geldungs og Súlnaskers, Geirfuglaskers,  Þrídranga og Einidrangs ásamt hafsvæði sem er 500 m belti umhverfis eyjarnar. Á jaðarsvæði verndarsvæðisins, sem nær 2 km út frá eyjunum, er skotveiði bönnuð á varptíma, þ.e. 1. apríl til 20. september.

Mörk svæðanna afmarkast af hnitum (ISN93) sem sýnd eru  á kortum sem sýna verndun sjófugla í Vestmannaeyjum sem fylgja auglýsingu þessari.

Heildar flatarmál verndar búsvæða sjófugla í Vestmannaeyjum er 3075,70 ha, þar af á landi 373,57 ha og sjávarsvæði 2700,13. Flatarmál landsvæðis á Heimaey er 1323,96 ha.

 

4. gr.

Umsjón með hinu friðlýsta svæði.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með búsvæðavernd fugla á hinu friðlýsta svæði.

Umhverfisstofnun til ráðgjafar starfar samráðshópur sem skipaður skal einum fulltrúa eftirtalinna aðila, þ.e. Náttúrustofu Suðurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun, hlunnindarétthöfum og Umhverfisstofnun og tveimur fulltrúum Vestmannaeyjabæjar. Annar fulltrúi bæjarins skal vera formaður nefndarinnar. Samráðshópurinn skal skipaður til fjögurra ára í senn og miðast skipunartími við sveitastjórnarkosningar.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun skal í samvinnu við samráðshópinn sjá um gerð stjórnar- og verndaráætlunar fyrir hið friðlýsta svæði í samræmi við 81.gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Til að tryggja sem besta verndun svæðisins og eftirfylgni verndunar skal í stjórnunar- og verndaráætluninni m.a.  kveða á um vöktun lífríkis og skipulag m.t.t. aðgengis almennings og fræðslu. Í áætluninni skal fjallað um nýtingu, þ.m.t. hefðbundna nýtingu og þá ætíð í samræmi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

Í stjórnunar- og verndaráætlun skal taka tillit til vöktunaráætlana sbr. 7. gr.

 

6. gr.

Umferð um verndarsvæðið.

Almenningi er heimilaður aðgangur að verndarsvæðinu í lögmætum tilgangi og á eigin ábyrgð. Til verndar fuglalífi er í samræmi við 17. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, óheimilt að þeyta flautur, fljúga flugvélum, eða vera með annan hávaða að óþörfu í grennd við fuglabjörg. Enn fremur er óheimilt að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum. Ákvæðið á einnig við um flug dróna og önnur flygildi.

Óheimilt er að vera með hunda, ketti eða önnur gæludýr í úteyjum.

 

7. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Innan verndarsvæðisins eru tegundir svo sem fýll, skrofa, stormsvala, sjósvala, súla, rita, langvía, álka og lundi sem mikilvægt er að vakta. Sumar þeirra eru á válista eða flokkaðar sem ábyrgðartegundir. Þrjár þeirra verpa aðeins á fáum stöðum hér á landi, þ.e. skrofa, stormsvala og sjósvala, og eru á viðauka Bernarsamningsins. Vöktunaráætlun fyrir sjófugla á verndarsvæðinu skal taka mið af og vera í samræmi við áætlun Náttúrufræðistofnunar Íslands um vöktun íslenskra fuglastofna á landsvísu.  

 

8. gr.

Kynning og fræðsla.

Til að tryggja verndun búsvæða fugla og fjölbreytts votlendis skal efla vitund almennings á mikilvægi verndunar svæðisins svo sem með útgáfu fræðsluefnis. Tryggja skal aðgengi almennings að upplýsingum og fræðsluefni um verndarsvæðið og verndun sjófugla og búsvæða þeirra.

 

9. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

vistkerfi og líffræðileg fjölbreytni svæðisins er vernduð þannig að vistkerfi fái að þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum og á eigin forsendum.

Óheimilt er að skerða gróður og skaða dýralíf á verndarsvæðinu.  Sauðfjárbeit er þó heimiluð í ákveðnum eyjum  eins og verið hefur enda um hefðbundna nýtingu að ræða og skal nánar lýst í stjórnar og verndaráætlun. Hefðbundnar nytjar, sbr. lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, eru heimilar og skal fjallað um þær í stjórnar- og verndaráætlun.  Nýting gróðurs og dýralífs skal ávallt vera sjálfbær.

Óheimilt er að sleppa og dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu. Nánar skal fjallað um fyrirbyggjandi aðgerðir og upprætingu framandi tegunda í stjórnunar- og verndaráætlun sbr. 5. gr. Reglur um dreifingu plöntutegunda eru í samræmi við reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.

Til að tryggja verndun búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni á verndarsvæðinu skal unnið að því að fjarlægja framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið og geta ógnað vernduðum búsvæðum og lífríki svæðisins.

 

10. gr.

Verndun jarðmyndana.

Allt rask á jarðmyndunum, þ.m.t. hvers konar áletranir, er óheimilt á verndarsvæðinu.

 

11. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð er óheimil innan verndarsvæðisins nema almennt viðhald mannvirkja og í samræmi við stjórnar- og verndaráætlun. Jarðrask innan verndarsvæðisins er óheimilt.

Hefðbundnar nytjar eru heimilar eins og lýst er í 9. gr. auglýsingar þessarar.

 

12. gr.

Notkun skotvopna.

Meðferð skotvopna er bönnuð á verndarsvæðinu enda óheimilt að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m og aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum sbr. lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Eins og fram kemur í 3. gr. auglýsingar þessarar eru skotveiðar óheimilar á jaðarsvæði sem nær 2 km út frá eyjunum á varptíma, þ.e. 1. apríl til 20. september. Heimilt er að nota skotvopn til eyðingar framandi dýrategunda utan varptíma og skal það nánar útfært í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

13. gr.

Endurskoðunarákvæði.

Að 10 árum liðnum ber að endurskoða mörk verndarsvæðisins og einstaka ákvæði auglýsingar þessarar ef þess er talin þörf. Ef þess er talin þörf getur Vestmannaeyjabær óskað eftir endurskoðun á mörkum verndarsvæðisins eða einstaka ákvæðum friðlýsingarinnar.

 

14. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn reglum auglýsingar þessarar varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90.gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

 

15. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, xx. xx 2016.

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.