Hundruð afbókana vegna vandræða í Landeyjahöfn

Tekjur skerðist um allt að 60 prósent og nokkur fyrirtæki hafi þegar farið í þrot.

20.Mars'16 | 22:28
Herjólfur_Landeyjahöfn

Býsna langt er síðan Herjólfur hefur getað siglt í Landeyjahöfn.

Hundruð ferðamanna afbóka þjónustu í Vestmannaeyjum þegar ekki er hægt að sigla frá Landeyjahöfn. Þetta segja eigendur ferðaþjónustufyrirtækja í Eyjum.

Tekjur skerðist um allt að 60 prósent og nokkur fyrirtæki hafi þegar farið í þrot. Litlar sem engar líkur eru á að Landeyjahöfn verði opin um páskana. Höfnin er full af sandi og illa hefur gengið að dýpka. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði í fréttum í gær að Vestmannaeyingar séu búnir að fá nóg eftir áralöng vandræði með höfnina. Fyrirtæki í ferðaþjónustu séu á leið í þrot vegna ástandsins. Undir þetta tekur Hólmgeir Austfjörð, eigandi 900 Grillhúss í Eyjum.
 

„Það eru erfiðleikar víða. Og þegar maður talar við kollega sína og fólk í ferðaþjónustu þá eru þyngsli á þessum tíma þegar skipið er ekki að ganga. Og þetta gerir mönnum erfitt fyrir.  Það er tekjuskerðing upp á 40-60% frá besta til versta mánaðar. Við viljum fá okkar skerf af kökunni þegar kemur að aukningu ferðamanna til að geta búið gott samfélag hérna. Það er allt fyrir hendi. Allir staðir og þetta ætti allt að geta gengið upp ef samgöngurnar væru í lagi,“ segir Hólmgeir. „Það þarf að gera úrbót. Og það strax.“

Of löng sigling

Þegar Herjólfur getur ekki siglt í Landeyjahöfn, sem er hálftíma sigling, er siglt til Þorlákshafnar, sem tekur um þrjá klukkutíma. Svava Gunnarsdóttir, eigandi gistihússins Hamars, segir að svo löng sigling fæli ferðamenn frá.

„Hjá okkur öllum sem erum með gistiheimili og hótel í Vestmannaeyjum, veitingahús og annað, þá er þetta bara mjög slæmt. Vegna þess að fólk afbókar um leið og það þarf að leggja á sig sex tíma siglingu fram og til baka. Fólk leggur þetta ekki á sig,“ segir Svava, og undir það tekur Hólmgeir.

„Afbókanir byrja að berast fljótlega upp úr lokum ágústmánaðar. Bæði á hótelin og gistiheimilin og veitingastaðina þegar Herjólfur byrjar að fresta ferðum. Þá fáum við afbókanir sem skipta hundruðum.“

Hólmgeir segir að nokkur fyrirtæki hafi lagt upp laupana síðan hann opnaði sinn stað árið 2010.

„Ég held að það séu þrír eða fjórir sem hafa hætt síðan ég opnaði. Þannig að þyngslin eru greinilega byrjuð að kikka inn,“ segir hann og bætir því við að til greina komi að flytja veitingastaðinn upp á land. „Ef ekkert verður að gert er maður knúinn til að fara í plan B. Svo einfalt er það.“

Svava vill að gripið verði til aðgerða til að bæta ástandið.

„Ég vil að við smíðum nýtt skip og það verði skrifað undir það sem fyrst. Þá verður fólkið rólegra hérna og við höldum áfram samhliða því að reyna að dýpka höfnina.“

 

Ruv.is greindi frá.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.