Guðmundur H. Guðjónsson skrifar:

Að gefnu tilefni

18.Mars'16 | 18:40

Nú eru liðin 9 ár síðan eftirfarandi pistill var skrifaður að gefnu tilefni. Nánar tiltekið miðvikudaginn 07. mars 2007 kl.17:06 undir fyrirsögninni „Rösum ekki um ráð fram".

 

Kantorinn svarar sýslumanni:

Rösum ekki um ráð fram

“Mikil er trú þín,”stendur einhverstaðar. Ef Bakkafjara fer í gang er hægt að afskrifa jarðgöng næstu áratugina, því miður. Þeir sem taka ákvörðun um Bakkafjöruhöfn munu ekki ljá máls á jarðgöngum þó svo að það komi fljótlega í ljós að höfnin þar fyllist stanslaust af sandi og að sigling þangað sé illfær nema í góðu og síðan stórhættuleg og frátafir miklar. Embættismenn og pólitíkusar viðurkenna ekki mistök sín. Þeir munu því sjá til þess að endalaust verði mokað fjármunum í Bakkafjörudæmið, þó vonlaust sé.

Það sem þarf að gera, er eins og Karl Gauti segir, að stórbæta leiðina til Þorlákshafnar strax, hvort heldur það verði gert með einu stóru skipi og hraðskreiðu eða öðru skipi sem siglir á móti Herjólfi.

Karl Gauti segir, eins og nánast allir hér í Eyjum, að jarðgöng sé fyrsti og besti kosturinn fyrir Vestmannaeyjar til allrar framtíðar. Hvers vegna skal þá taka ákvörðun um einhvern annan og lakari kost og fresta þeim besta nánast til eilífðar. 

Kv. Guðmundur H. Guðjónsson.

 

10. mars 2016.

Því miður hefur allt gengið nákvæmlega eftir, sem skrifað var í þessum litla pistli, sem var svar og andmæli við grein frá Karli Gauta sýslumanni.

Nú er umræðan komin nákvæmlega aftur á byrjunarreit, nema hvað engin virðist nú voga sér eða þora að minnast á það augljósa, það er að afskrifa Landeyjahöfn og snúa sér í alvöru að gerð jarðganga. Sá kostnaður sem farið hefur í hafnarmannvirkin  eru smáaurar miðað við ávinninginn sem fæst við það að tengja eyjarnar með jarðgöngum við land. Mér blöskrar að þurfa að horfa upp á vandræðaganginn í kringum þetta mál allt saman. Menn hrópa nú hver á annan og rífast um hvort hin fyrirhugaða nýja ferja verði  nógu stór eða ekki og hvort hægt verði að sigla henni í Þorlákshöfn þegar þannig viðrar. Er því haldið fram af mörgum að með fyrirhugaðri ferju séum við á leið 30 ár aftur í tímann.  

Á meðan eru dýr skip að moka sandi úr höfninni sem kostar of fjár og ekkert gagn gerir. Minnir það óneitanlega á þá læknisaðferð sem notuð var á Kleppi fyrir 100 árum síðan  gegn ákveðnum sjúkdómi.  Þar voru sjúklingar  látnir moka sama sandinum í botnlausa tunnu.  Það gerðist þó að menn voru oft útskrifaðir frá þeim sandmokstri en ég sé ekki hvernig á að  útskrifa þá sem standa í þessum eilífa sandmokstri í Landeyjahöfn, nema henni verði lokað. 

Jarðgöng eru alltaf að verða auðveldari í framkvæmd og 18 km göng hér á milli eru ekki löng. Frá Seyðisfirði upp á Hérað eru tæpir 14 km og engin segir að það sé vandamál. Í okkar tilfelli má svo bæta við hagkvæmni þess að  setja bæði vatns – og rafmagnsleiðslur í göngin, auk hitaveitustokks, sem gera má ráð fyrir í framtíðinni. Með þeim fjármunum sem eytt er í Landeyjarhöfn, sandmokstur, viðhald á ferjum og mannvirkjum og öllum kostnaði vegna frátafa, tel ég að göngin muni borga sig upp á tiltölulega skömmum tíma. Höfnin þjónar ekki Vestmannaeyingum nema hálft árið og því má segja að allan kostnaðinn eigi  að jafna niður á sex mánuði en ekki á tólf, sem gerir þetta Landeyjarhafnardæmi alveg fráleitt.    

P.s. Svo legg ég til að Sigurður Áss verði endanlega sagður frá þessu máli öllu.

 

Guðmundur H. Guðjónsson

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%