Kristinn R. Ólafsson:

Langhús ljótleikans í Vestmannaeyjum

10.Mars'16 | 19:10

Kristinn R. Ólafsson vitjaði gömlu götunnar sinnar og æskuslóða í Eyjum í vikunni leið, og greip andann á lofti yfir þeirri lýtavæðingu sem honum finnst hafa átt sér á uppvaxtartorfunni í miðbæ Vestmannaeyja undanfarin ár. Steininn hafi þó tekið úr þegar langhúsi ljótleikans var klesst þar niður fyrir skemmstu:

Menn deilir á um hvað sé fegurð og hvað sé ljótleiki. Samt flokkum við ósjálfrátt menn og hluti eftir einhverjum staðli sem erfitt er að henda reiður á. Og menn hefur deilt á um þetta óralengi. Spekingar hinna fornu Aþeninga veltu þessu mjög fyrir sér. Og svo hefur verið til þessa dags að menn hafa velt vöngum yfir þessu án þess að komast eiginlega að neinni niðurstöðu.

Af hverju tölum við Íslendingar og ferðasalar um að Ísland sé fallegt land? Hvað er það sem gerir það fallegt? Og af hverju virðast flestir, ef ekki allir, þeirra erlendu ferðamanna sem hingað flykkjast nú vart mega vatni halda yfir fegurðinni? Hvað gerir fjall fallegt en flatneskju ljóta, ef flatneskja er þá yfirhöfuð ljót? Af hverju er t.a.m. talað um fegurðardísir? Hvað er það sem veldur því að sumt fólk er talið fallegt en annað ljótt? Er yfirleitt mögulegt að keppa um það hver sé fegurst eða fegurstur? Hvaða mælikvarða á að nota á slíkt?

Ég ætla mér ekki að fara hér útí djúpar heimspekilegar vangaveltur um slíkt, eða smekk sem auðvitað hangir á sömu spýtu. Hvað telst góður smekkur, hvað slæmur smekkur? „De gustibus non est disputandum“ er þekkt latneskt orðatiltæki sem þýðir að ekki verður um smekk deilt, honum verður ekki haggað með rökum. Þó er hann ekki eitthvað meðfætt. Menn þróa með sér smekk. Eða gengur hann í erfðir? Smekkur er semsagt annað erfitt hugtak einsog fegurðin.

En ... og nú er komið að því sem ég ætlaði að tala um – alltaf þarf maðurinn að vera með einhverja útúrdúra. Og þó.

Ég fór útí Eyjar í vikunni leið, fór heim til Eyja að halda svolítið erindi í Sagnheimum í Safnahúsinu góða, því lifandi menningarsetri sem forstöðumönnum þess hefur tekist að skapa. Ég var fenginn til að rifja upp í máli og myndum þegar við fimm ungir Eyjapeyjar tókum uppá þeim fjára að skælast kringum landið á tveimur gúmmíbátum knúnum utanborðsmótor, sumarið 1972.

En ... en það er ekki heldur þetta sem ég ætlaði að tala um – gat nú verið, kemur sér aldrei að efninu ...

Ég notaði auðvitað tækifærið í þessari ferð til að heilsa uppá ýmsa Eyjamenn og Heimaey sem slíka. Hún flokkast, hygg ég, til fegurðar, engum blöðum um það að fletta, a.m.k. á minn sann, jafnvel sárið mikla sem hún fékk í gosinu óheillaárið 1973. Kannski mætti flokka það til hrikafegurðar. En stundum hefur mér þótt vanta á að menn virtu fegurð hlutanna í Eyjum, virtu ýmsar menningarmenjar, svosem gömul hús.

Ég gekk líka um bæinn, og um huga mér fló eitt andartak og ósjálfrátt þetta:

Ó, gamla gatan mín 
ég glaður vitja þín 
og horfnar stundir heilsa mér. 
Hér gekk ég gullin spor, 
mín góðu bernskuvor, 
sem liðu burt í leik hjá þér ...

Já, gamla gatan mín er þarna ennþá, Strandvegurinn, jafnvel húsið sem ég fæddist í og ólst upp í. Og mörg gatan í Eyjum hefur haldið sínu, gömlu húsin verið gerð upp, þeim haldið við, eru bæjarprýði. Dæmi um slíkt er t.a.m. að finna við Vestmannabrautina vestarlega þar sem nýbyggingar eru líka en í svipuðum stíl og stærð.

En að ganga í gullin spor og mín góðu bernskuvor var mér afturámóti öllu erfiðara, í sannleika sagt nánast með öllu ókleift því að ég vissi ekki hvar fæti skyldi niður stigið. Það er búið að þurrka þetta út flestallt, og með einbeittum brotavilja, finnst mér; þar sem smekkleysið hefur fengið að ráða ferðinni og eflaust gróðavonin. Flest öllu rutt burt fyrir einhverja stórkallavæðingu. Hér er engin fegrunarhugsjón látin ráða, engin lýtalækning á ferðinni heldur lýtavæðing. Það er einsog það sé einhver einhugur um að gera miðbæ Vestmannaeyjabæjar ljótari með hverju árinu sem líður, a.m.k. þennan minnar æsku blett. Hvar eru þessi hús: Landlyst - Landlyst var að vísu flutt burt í heilu lagi og stendur enn, elsta hús í Eyjum, byggt árið 1858 -, en hvar eru Skarð, Sjólyst, Steinn, Lundur, Sunnuhvoll, Landakot, Sigtún; öll eru þessi hús æsku minnar horfin ... Já, húsin hétu öll eitthvað, voru ekki bara götunúmer, og fólk oftar en ekki kennt við þau. Ég fæddist á Brimbergi. Það hús stendur enn. Líka Litlibær fyrir aftan það. Þar bjuggu afi minn og amma, þar fæddist faðir minn og var aldrei kallaður annað en Óli í Bæ. Halli í Litlabæ var leikfélagi minn. Líka Gísli á Strandbergi, í næsta húsi sem enn er til. Semog Fögruvellir. Viggi á Fögruvöllum var aðeins eldri en við, faðir Elliða, núverandi bæjarstjóra. Einar og Inda Marý bjuggu í Valhöll sem enn er til sem betur fer. Guðni og systkin áttu heima í Landlyst. Lilja í Steini. Jonni á Lundi, Simmi Koló á Sunnuhvoli, Stebbi í Landakoti og Óli Ástvaldar í Sigtúni. Öll eru þessi hús horfin. Og hvar er kálgarðurinn hans Gumma frænda, föðurbróður míns, í Sjólyst? Jú, það er komin gata í staðinn fyrir hann og húsið, hellur og malbik. Hvar er verkstæðið hans Mumma skósmiðs? Brotið niður. Og hvar er Lautin þar sem við lékum fótbolta kvöldin löng? Lautin þar sem Ásgeir Sigurvinsson knattspyrnustjarna sýndi sín fyrstu snilldartök með boltann. Jú, hún var fyllt upp. Þar reyndu peyjarnir meiraðsegja að beita borgaralegri óhlýðni og baráttu, kveiktu bál á veginum þar sem bílarnir voru að keyra inn með efni til að eyðileggja en mótmælendur máttu sín lítis gegn ofurefli, rifjaði Óli Ástvaldar upp við mig í tölvuskeyti í gær. Lautin varð að lúta, varð undir kúluhúsi og fleiri kumböldum og auðvitað malbikuðu bílastæði. Baulaðu nú bílkolla mín.

Já, það er ekki aðeins að malbikað hafi verið yfir bernskuvorið, það grafið undir, hin gullnu spor þurrkuð út af stórtækum vinnuvélum, heldur er einsog það hafi verið gert með einbeittum lýtavæðingarvilja. Öllu rutt burt fyrir alskonar nýhýsi, brautir og götur; og einkum og sérílagi einhverja ekkisins kumbalda. Þeir voru vissulega reistir nokkrir í bernsku minni á þessum æskuslóðum, jú, en kumbaldavæðingin hefur færst í aukana hin síðari ár.

Steininn hefur þó tekið úr uppá síðkastið. Mér brá satt að segja í brún þegar á sá nýjasta báknið, greip andann á lofti og um mig fór hryllingshrollur og hneysklunarstraumur. Suðurveggur þessa nýja byggingarskrýmslis er, í samanburði við umhverfið, einsog endalaus kínamúr í skærgulum lit sem hlýtur að slá þorskgulum bjarma innum glugga húsanna sunnanmegin götunnar. Hann skar mig svo í augun að við lá að úr blæddi. Þessi gata heitir Miðstræti. Á þessum kafla norðan hennar þar sem skrýmslið breiðir og teygir úr sér nú einsog ofvaxinn gulur kakkalakki stóðu m.a. áðurnefnd hús: Landlyst, Skarð, Lundur, Sunnuhvoll, Landakot og Sigtún.

Já, þessi kumbaldi, þetta langhús ljótleikans, er nýja Bónusbúðin í Eyjum. Tilræði við smekk, fegurðarsjónarmið, bæjarskipulag og hreint alla skynsemi. 

 

Pistillinn var upphaflega fluttur í Mannlega þættinum á Rúv.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.