Sigurmundur G. Einarsson skrifar:

Samstöðuleysi Eyjamanna í umræðu um lausnir á samgönguvanda

5.Mars'16 | 08:34

Umræðan á sér langa sögu og ekki að ástæðulausu. Spurning er hverjum kemur þessi umræða vel og hverjir halda henni mest á lofti. Í huga minn kemur orðatiltækið “betur sjá augu en auga”. Öll umræða um samgönguvanda okkar Eyjamanna er af hinu góða.

En því miður er hún notuð af sumum sem túlka hana eftir eigin geðþótta, sér í hag. Þeir sem halda umræðunni á lofti eru aðilar í vinnu hjá mér og þér sem lest þessa grein, sem sökum eigin getuleysis kasta þessu fram til að fresta ákvörðunum. Ákvörðunarfælni er stórt vandamál stjórnmálamanna og opinberra starfsmanna ríkisstofnana á Íslandi.

Eina ferðina enn er komin á loft umræða um samstöðuleysi Eyjamanna í samgöngumálum okkar. Samstöðuleysi er ekki rétta orðið, heldur nálgun á vanda okkar.

Hvað getum við verið öll sammála um?

Landeyjahöfn er stærsta vandamálið, ekki satt? Það hefur verið ljóst frá því höfnin var opnuð að um ófullgerða framkvæmd var að ræða. Höfnin hefur verið og mun að óbreyttu verða aðeins notuð hluta úr ári. Ekkert skip mun geta siglt í hana þrjá mánuði á ári að minnsta kosti. Þetta eru allir sammála um. Það sem er ágreiningur um er ferja sem tekur við af Herjólfi sem við höfum nú. Ágreiningurinn er um að smíða skip sem sum okkar teljum að leysi ekki vandann og við munum sitja uppi með næstu áratugi. Eða leigja skip nú strax og bæta úr brýnum vanda nú þegar. Hvort sem er í siglingum til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar.

Það er tækifæri nú þegar kosningar eru á næsta ári og eftir skoðanakönnunum að dæma sjá margir þingmenn fram á að missa djobbið ef vinsældir þeirra aukast ekki! Þeir sem eru í pólitík forðast að minnast á þetta. En nú er tækifæri til að hamra á lausnum í okkar málum.

Hverjir nota sér áróðurinn um "samstöðuleysi" Eyjamanna? Ekki við! Þetta er pólitískt ryk og ævagömul aðferð pólitíkusa sem veigra sér við að taka raunhæfar ákvarðanir og moka yfir mistök eins og Landeyjahöfn. Gerum kröfu um að lausn verði fundin á þessu máli nú þegar. Framlag Vestmannaeyja í sameiginlega sjóði landsmanna er langt umfram kostnað við lausn á þessum vanda.

 

Sigurmundur G. Einarsson

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%