Lögreglustjórinn segir almenning ekkert varða um eineltismál í Vestmannaeyjum

11.Febrúar'16 | 20:05

Mikill hiti er í Vestmannaeyjum vegna meints eineltismáls í Eyjum. Snýst málið ekki síst um að fjölmargir málsmetandi Eyjamenn telja verst að málið hafi verið gert opinbert.

ÍBV sendi nýverið frá sér fréttatilkynningu þar sem greinir frá því að sérfræðingar hafi verið kallaðir til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu vegna gruns um einelti sem kom upp í æfingahópi félagsins í handbolta karla.

Eyjafréttir greina frá málinu en sérfræðingarnir hafa skilað skýrslu þar sem segir að ekki sé hægt að fullyrða að um einelti hafi verið að ræða en „ljóst að neikvæð samskipti innan hópsins hafi verið til staðar um nokkurn tíma og komið niður á liðsheildinni og samskiptamáta liðsmanna.“ Athygli vekur að tilkynningunni lýkur á orðunum: „Stjórn ÍBV Íþróttafélags vill brýna fyrir fólki að varast rætni, illmælgi og sleggjudóma í tengslum við þetta viðkvæma mál.“

Þá vísar stjórnin í skýrslu sérfræðinganna þar sem segir „jákvætt að ÍBV hafi tekið málið alvarlega og leitast við að koma því í farveg sem fyrst“.

Undir rita Karl Haraldsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV og Íris Róbertsdóttir formaður ÍBV.

Víst er að málið er funheitt úti í Eyjum og viðkvæmt; það snýr að 18 ára handboltastrákum sem taka málið nærri sér. Vísi hafa borist fjöldi ábendinga um að það tengist jafnvel bæjarstjórnarmálum í Eyjum, en samkvæmt heimildum Vísis verða þær kenningar að teljast fremur fjarstæðukenndar.

Mannorð ungra manna að veði
Ein þeirra sem hefur látið það til sín taka með afgerandi hætti, og vekur sá þáttur málsins nokkra athygli, er lögreglustjórinn á staðnum, Páley Borgþórsdóttir en hún gerir það að umfjöllunarefni á Facebook-síðu sinni. Páley er afar harðorð og það sem henni finnst verst er að greint hafi verið frá málinu og hún telur ábyrgð forkólfa ÍBV að hafa sent frá sér þessa fréttatilkynningu, mikla.

„Var eðlilegt að félagið gæfi út fréttatilkynningu um grun um einelti, sem var svo ekki raunin, og skellti þar með óhörnuðum ungum iðkenndum sínum í umræðu sem enginn hafði stjórn á, þar sem afar illa var farið með mannorð ungra manna? Hver ætlar að bæta þeim það upp, er það hægt, hver ætlar að bera ábyrgðina á því?“ spyr Páley sem veltir upp ýmsum flötum á þessu máli en einkum þessari að málið hafi spurst og ábyrgð á því bera þeir sem sendu út fréttatilkynninguna, að mati Páleyjar.

Ekkert nema illt eitt sem fylgir því að greina frá
„Sem foreldri velti ég því fyrir mér og hef af því talsverðar áhyggjur að þetta verklag sé komið til að vera. Ef eitthvert barnið/ungmennið gerir mistök eða misbrestur verður á samskiptum verður þá send út fréttatilkynning og viðkomandi kastað fyrir úlfana?“

Páley er sérlega illa við það að málið skuli hafa verið gert opinbert en mikla athygli vakti á sínum tíma, í tengslum við umfjöllun um Þjóðhátíð í Eyjum, þegar hún krafðist þess að allir viðbragsaðilar tjáðu sig alls ekki við fjölmiðla vegna kynferðisbrota sem kæmu upp.

„Mín skoðun er sú að upphaflega fréttatilkynningin hafi ekki leitt neitt nema slæmt af sér. Hún hafði neikvæð áhrif fyrir félagið, fyrir liðið, fyrir alla iðkenndur, fyrir þjálfara og fyrir samfélagið. Ég skil þess vegna ekki hvað félaginu gekk til og varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með félagið mitt eins og margir foreldrar og við því þarf að bregðast,“ segir Páley meðal annars á Facebook-síðu sinni.

Lögreglustjóranum meinilla við fjölmiðla
Og, henni virðist hreinlega vera í nöp við fjölmiðla ef marka má þessi orð Páleyjar:

„Það er ekki ófaglegt að fá sérfræðinga í málið heldur er það ófaglegt að reka það í fjölmiðlum. Þú býrð ekki hér í Eyjum Beta en hér var umræðan hryllileg og þegar búið er að nefna orðið „einelti“ þá leita menn að nöfnum á fréttina eins og alltaf í viðkvæmum málum eins og ég hef oft haldið fram og frægt er orðið. Hér var mannorð nokkurra ungra manna fótum troðið.“

Og: „[...] þetta eru viðkvæm mál sem eiga ekki erindi í fjölmiðla. Sumir hafa bent á að betra hefði verið að kalla þetta samskiptavanda, að mínu mati átti þetta einfaldlega ekki erindi í fjölmiðla. Enda missti félagið þetta alveg frá sér. Þjálfarinn átti að gæta að hagsmunum sinna iðkennda umfram allt eins og ég hef sagt og verja þá fyrir umfjöllun. Meiri hagsmunir fyrir minni,“ skrifar lögreglustjórinn meðal annars, og ljóst má vera að henni er fremur heitt í hamsi.

Páley segir að málið hefði aldrei endað í fjölmiðlum nema vegna þess að fréttatilkynning var send út og það fordæmir hún.

„Það er það sem er gagnrýnivert og hefur valdið öllum erfiðleikum sem að þessu koma.“

...
Uppfært. Páley Borgþórsdóttir vill koma á framfæri þeirri ábendingu að hún telur fyrirsögn þessarar fréttar misvísandi. Hún hafi fyrst og fremst verið að tjá sig sem foreldri á sinni eigin fb síðu, en ekki sem lögreglustjóri. Það hafi hún gert í kjölfar þess að upplýst var að ekki hafi verið um einelti að ræða hjá félaginu, en illa hafði verið vegið að ungum mönnum í umræðunni að hennar mati.

 

Vísir.is greindi frá.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.