Fab Lab smiðjan opnuð formlega

Sendiherra Bandaríkjanna var viðstaddur

27.Janúar'16 | 08:24
sendiherra_usa

Robert C. Barber sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Berglind Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Impru, Rebecca P. Owen frá sendiráði, Frosti Gíslason, Aron Máni, Arnar Sveinn, Þorsteinn Ingi forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar og Baldvin Búi

Á föstudaginn s.l var Fab Lab smiðja Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum opnuð formlega. Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar flutti ávarp og lýsti því þegar Frosti Gíslason hafði samband við hann árið 2007 og ræddi um mögulega aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að því að stofna Fab Lab smiðju í Vestmannaeyjum.  

Það tók Þorstein innan við eina mínútu að taka ákvörðun og í kjölfarið var farið vinna að fjármögnun til þess að setja Fab Lab á laggirnar í Eyjum, þá fyrstu á Íslandi. Um mitt næsta ár var Fab Lab smiðjan komin upp með fjármögnun vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Þá þakkaði Þorsteinn Ingi, Helgu Kristínu skólameistara framhaldsskólans fyrir gott boð um að flytja Fab Lab smiðjuna í skólann til þess að auka vegferð skólans og Fab Lab smiðjunnar.

Viljum vera skapandi þátttakendur í tækniuppbyggingu framtíðarinnar

Í kjölfarið flutti Frosti Gíslason verkefnastjóri Fab Lab hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands stutta tölu og útskýrði fyrir gestum um tilgang á rekstri Fab Lab smiðjanna.  Frosti sagði m.a að smiðjan væri hugsuð til þess að undirbúa fólk fyrir störf framtíðarinnar.  

„Róttækar breytingar í samfélagi og atvinnulífi  kalla á breytingar í menntun. Menntun og hæfni í verkgreinum, raungreinum og tæknigreinum eru mikilvæg undirstaða nýsköpunar. Við viljum að Íslendingar séu samkeppnishæf þjóð hvað varðar hæfni og hagvöxt." segir Frosti og heldur áfram:

„Fab lab er opinn vettvangur fyrir almenning, fyrirtæki, frumkvöðla, og nemendur. Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til þess að gera nánast hvað sem er."

Þá segir hann að í smiðjunum sé búnaður til þess að raungera hugmyndir með hjálp tölvustuddrar hönnunar og framleiðslutækni. Þar eru meðal annars tölvustýrðir laserskerar, vinylskerar, fræsivélar, þrívíddarskannar og þrívíddarprentarar ásamt búnaði til að vinna með sérfræðingum um allan heim sem hafa það að markmiði að deila þekkingu.  

Samkeppnishæfni Íslands byggir á möguleikum til nýsköpunar í krafti þekkingar og hæfni. Fab Lab er frábær vettvangur til ná markmiðum um aukna áherslu á nýsköpun, hönnunar- verk- og tæknimenntun og til að hvetja til fjölgunar tækni- og raungreinamenntaðra einstaklinga sem eru tilbúnir að takast á við nýjar áskoranir.

Við viljum vera gerendur í hinni stafrænu framtíð. Við viljum skapa ný störf, ný tækifæri og virkja möguleika sem ný tækni býður upp á. Við viljum ekki eingöngu vera neytendur nýrrar tækni, við viljum vera skapandi þátttakendur í tækniuppbyggingu framtíðarinnar, sagði Frosti.

 

Um Fab Lab

Fab Lab er stytting á enska orðinu Fabrication Laboratory. Uppruni Fab Lab er í Center For Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Boston. Verkefnið hefur vaxið gríðarlega og árið 2015 eru starfandi yfir 500 Fab Lab smiðjur um allan heim sem vinna saman í gegnum alþjóðlegt net Fab Foundation.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir starf Fab Lab smiðja með samstarfsaðilum víða um land. Fab Lab smiðjur eru nú starfandi í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Fjarðabyggð, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík.

Í Fab Lab fer fram bæði formlegt og óformlegt nám.  Í smiðjunum eru kennd undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni á grunnskóla-, framhaldsskólastigi.  Einnig á háskólastigi í gegnum Fab Academy þar sem kennd er stafræn framleiðslutækni;   allt frá þrívíddarhönnun, til framleiðslu hluta og forritunar með hjálp tölvustýrðra tækja og tóla.  

Í Fab Lab smiðjum landsins eru kennarar, leiðbeinendur og nemendur þjálfaðir til að koma stafrænni framleiðslutækni enn betur inn í skólakerfið og skapa aukin tækifæri fyrir ungt fólk til að tileinka sér færni 21.aldarinnar.  

Fab Academy er framhaldsnám þar sem boðið er upp á hátækninám á stöðum á landsbyggðinni sem annars hefðu ekki aðgang að tækni-og verknámi á jafn háu stigi. Markmið Fab Lab smiðja er að auka færni einstaklinga til að vera hönnuðir og skaparar nýrrar tækni að vera gerendur en ekki eingöngu neytendur. Fab Lab er mikilvægur vettvangur til að þjálfa hæfni fyrir störf framtíðarinnar og auka lífsgæði þjóðarinnar.

 

Stuðningur bandaríska sendiráðsins

Eftir ávarp Frosta, þá flutti sendiherra Bandaríkjanna Robert C. Barber ávarp og fór yfir stuðning bandaríska sendiráðsins við kennara og leiðbeinendur til þess að stunda nám í Fab Academy í Fab Lab smiðjum landsins til þess breiða út þekkingu á stafrænni framleiðslutækni og auka þekkingarstig landsins í þessum fræðum.

Frumkvöðlar framtíðarinnar

Helga Kristín Kolbeins skólameistari FÍV flutti ávarp og fjallaði um nýlega rannsókn Biritu í Dali um frumkvöðlastarf í Fab Lab og jákvæð áhrif þess að hafa stundað nám í Fab Lab m.t.t. líkinda á að nemendur muni sjálfir stofna sín eigin fyrirtæki og verði frumkvöðlar framtíðarinnar.  Auk þess ræðdi Helga um kosti þess að hafa Fab Lab í meiri nánd en áður við skólann.

Þorsteinn Ingi veitti að lokum Frosta Gíslasyni þakkir fyrir framlag til frumkvöðlastarfs á Íslandi.

 

Nánari upplýsingar um opnunartíma Fab Lab smiðjunnar í Eyjum má finna hér.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.