Jóhann Jónsson skrifar:

Enn og aftur

19.Janúar'16 | 08:36

Jæja, þá fáum við Eyjamenn einn glaðninginn enn frá Vegagerðinni. Tilbúin ferjuvísitala hefur hækkað og þá skal hækka fargjöld milli lands og eyja. Er nú virkilega þörf á þessari hækkun? Já að sjálfsögðu, það hefur ekki verið hækkun síðan 2013, það hlýtur að réttlæta hækkunina.

Skoðum málið aðeins nánar. Olíukostnaður 2015 er undir 300 milljónum, launakostnaður 2015 er undir 200 milljónum og hverjar eru tekjurnar? Farþega og flutningsgjöld sennilega um eða yfir 450 milljónum (geng út frá að 2/3 hlutar farþega greiði fargjald) og ríkisstyrkur upp á 718 milljónir. Er virkilega þörf á hækkun?

Ímyndið ykkur að bara kojurnar eru að gefa einhverjar 17 milljónir miðað við 35% nýtingu, og þar er verið að bjóða uppá örugglega dýrustu fermetra sem leigðir eru út á Íslandi og þægindin maður minn.

Í Morgunblaðinu þann 19. des kemur fram að stofnkostnaður við Landeyjahöfn sé kominn í 5,4 milljarða og þar inni er áætlaður kostnaður við dýpkun 2015 sem verði 536 milljónir, en það sé ekki vandamál þar sem Vegagerðin eigi óráðstafað fé frá fyrri árum sem gangi upp í þennan kostnað ásamt fjárveitingu ársins. Já, bara til sjóður frá fyrri árum.

Það skyldi ekki vera að Vegagerðin eigi bara talsvert í sjóðum vegna góðrar afkomu af rekstri Herjólfs sem þeir geta síðan ráðstafað eftir eigin geðþótta. Ég sé ekki betur en árið 2015 skili 500-600 milljónum í rekstrarafgang sem fer annað hvort í vasa Eimskips eða Vegagerðarinnar, eða beggja.

Ekki nýtist þessi peningur í viðhald því aðbúnaður er tæplega fólki bjóðandi. Sjónvarpið í ólagi, sængurföt ná ekki utan um kodda né dýnur sem eru alveg orðnar ofnotaðar og skipið allt orðið þreytt eftir áratuga mikla notkun.

Fjögra manna fjölskylda (tvö börn undir 15 ára, annað undir 12 ára) borgar fullt verð Þorlákshöfn – Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn 29.160 kr. og með afslætti er það 17.568 kr. (í 4 manna klefa) og ekki má gleyma að þeir sem eru með afsláttinn lánuðu Eimskip 34.500 kr vaxtalaust til þess að fá afsláttinn sem nú rýrnar sem nemur ferjuvísitölu.

Er ekki kominn tími á að bæjarstjórn og þingmenn ráðist nú í að fá aðgang að samningi um rekstur Herjólfs? Þetta er nú opinber stofnanasamningur og getur ekki verið einkamál einhverra kerfiskalla.

Það má minnast á að lokum, að Herjólfur fór 182 daga í Þorlákshöfn og 175 daga í Landeyjahöfn árið 2015. Svona rétt um það sem snillingarnir hjá Siglingastofnun hafa alltaf haldið fram en stendur svo sannarlega til bóta því þótt ný ferja auki siglingar í Landeyjahöfn um 30% þá eru það bara 280 dagar á ári.

Og svona alveg í lokin, af hverju er verið að eyða peningum í fyrirbyggjandi dælingu utan hafnar þegar höfnin er full af sandi? Ég tala nú ekki um brandarann í janúar. Snýst þetta orðið meira um að allir fái sitt nema Eyjamenn? Spyr sá sem ekki skilur neitt í neinu, enda vægast sagt illa upplýstur um stöðu mála enda kemur okkur Eyjamönnum þetta lítið við virðist vera. Áhafnarmeðlimir Herjólfs settir í fjölmiðlabann svo þeir geta ekki tjáð sig né varið, hvað þá tjáð sig um sitt álit á nýrri ferju enda sennilega þeir sem minnst vit hafa á öllu þessu ævintýri sem farið var af stað með 2008.

Bókunarkerfið er svo efni í aðra grein, síst skemmtilegri.

 

Jóhann Jónsson.

joi_jons

Jóhann Jónsson

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.