Svar ráðuneytis við opnu bréfi

Nýja ferjan verður enn eitt framfaraskrefið í samgöngumálum Vestmannaeyinga

17.Janúar'16 | 10:52

Í lok október s.l sendi Tryggvi Már Sæmundsson opið bréf til Ólafar Nordal innanríkisráðherra vegna sjósamgangna milli lands og Eyja. Þar voru settar fram fimm spurningar vegna málsins til ráðherra. Svar hefur nú borist - og verður það birt hér auk spurningana sem óskað var svara við.

Svar ráðuneytisins:

Vegna opins bréfs þíns til innanríkisráðherra um Landeyjahöfn er rétt að byrja á að taka undir með þér mikilvægi þess að ráðherra einbeiti sér að yfirsýn mála og eftirláti sérfræðingum og undirstofnunum sínum framkvæmd einstakra mála. Leitað hefur verið til færustu fáanlegu sérfræðinga á hverju sviði, jafnt skipstjórnarmanna og verkfræðinga sem annarra og leitast við að fá fram mismunandi sjónarmið.

Erfiðar aðstæður til hafnargerðar á suðurströndinni hafa alla tíð gert ferjusamgöngur við Vestmannaeyjar erfiðar. Á sínum tíma var siglt milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og ef flytja átti bíl þurfti að hífa hann um borð. Mikil framför var því þegar ekjuferja fór að sigla tvær ferðir á dag til Þorlákshafnar og siglingin tók innan við þrjár klukkustundir hvora leið. Framfarirnar héldu áfram með tilkomu Landeyjahafnar og hafa flutningar margfaldast enda er siglingatíminn innan við 40 mínútur. Það er rétt að þetta hefur ekki allt gengið vandræðalaust fyrir sig, en það er enginn sem heldur því fram að með tilkomu Landeyjahafnar hafi samgöngur Vestmannaeyinga ekki batnað svo um munar. Rétt er að hafa þetta í huga þegar framhaldið er rætt.

Vegna þess að Herjólfur ræður illa við erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn, enda ekki hannaður fyrir þær, hafa komið fram ýmsar hugmyndir til endurbóta. Þar á meðal að Herjólfur, eða stærra skip sem fengið yrði í hans stað, sigli til Landeyjahafnar á sumrin og til Þorlákshafnar á veturnar. Þetta er í raun það sem gert er, þó þannig að ekki eru fyrirfram ákveðnar dagsetningar hvenær sumaráætlun til Landeyjahafnar hefst og lýkur. Ástæðan er sú að aðstæður eru mjög breytilegar milli ára og ekki fyrirsjáanlegt hve lengi er hægt að sigla til Landeyjahafnar, en flestir Vestmannaeyinga vilja að þangað sé siglt eins lengi og nokkur möguleiki er.

Hagsmunir Vestmannaeyinga og landsmanna allra af því að halda uppi samgöngum um Landeyjahöfn eru miklir og því hefur verið lögð áhersla á að lengja það tímabil sem það er gert, eins og hægt er og stefna á heilsárs siglingar þangað. Að sjálfsögðu verða frátafir í þessum samgöngum eins og öðrum, en markmiðið er að lágmarka þær eins og kostur er. Til þess þarf sérhannað skip fyrir aðstæðurnar við Landeyjahöfn. Að fá annað stærra skip í stað Herjólfs til að sigla til Þorlákshafnar á veturna er ekki skref í þessa átt heldur mundi það festa í sessi vetrarsiglingar til Þorlákshafnar.

Með grunnristri ferju sem sérhönnuð er til að ráða við strauma og aðrar erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn er hægt að lengja tímabilið verulega og vonandi ná markmiðinu um að það heyri til undantekninga að sigla þurfi til Þorlákshafnar. Hve miklar frátafirnar verða, verður breytilegt milli ára, fer eftir veðurfari og dýpi við höfnina og kemur ekki endanlega í ljós fyrr en ferjan er komin í notkun. Nýja ferjan verður enn eitt framfaraskrefið í samgöngumálum Vestmannaeyinga.

 

Spurningarnar sem óskað var svara við:
  1. Vill ráðherrann ekki skoða þann möguleika að leigja hentugt skip sem flytur allt að 100 bíla og getur siglt með góðu móti til Þorlákshafnar 4-5 mánuði á ári?
  2. Finnst ráðherranum ekki rétt að endurmeta allt verkefnið miðað við reynsluna - áður en lagt verður í milljarðakostnað við smíði nýrrar ferju sem líklega getur ekki staðið undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar um að sigla 355 daga í Landeyjahöfn og í heildina truflist aðeins ferlið í 30 daga á ári?
  3. Finnst ráðherra ekki athugandi að fá nýja aðila að málinu til að meta markmið og reynslu þeirra sem stýrt hafa málum er varðar hönnun Landeyjarhafnar og nýrrar ferju?
  4. Hefur ráðherra rætt við Sævar M. Birgisson, skipaverkfræðing um ástæður þess að hann sagði sig úr smíðanefndinni?
  5. Mun ráðherra ræða við þá skipstjórnarmenn sem notað hafa Landeyjahöfn og munu bera ábyrgð í framtíðinni á siglingum þangað?

 

Opna bréf Tryggva.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).