Áramótagrein bæjarstjóra

Til móts við nýja tíma

- Árið 2016 verður ár nýsköpunar í Vestmannaeyjum

31.Desember'15 | 07:05

Afi var fæddur árið 1903 í lágreistum moldorkofa, sama ár og Fríkirkjan í Reykjavík vígð og Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands.  Þá voru Vestmannaeyjar fátækt sjávarþorp með um 550 íbúa. Pabbi fæddist árið 1946, sama ár og Ísland sat í fyrsta skipti þing Sameinuðu þjóðanna. 

Þá voru Vestmannaeyjar stöndugt sjávarbyggð með um 3700 íbúa.   Sjálfur er ég fæddur árið 1969 inn í Eyjasamfélag með yfir 5000 íbúa.  Sonur minn fæddist árið 1997 og þá voru íbúar í Vestmannaeyjum 4640.  Árið 2007 voru þeir um 4000.   Þá fékkst loks viðspyrna og í dag eru rétt tæplega 4300 íbúar í Vestmannaeyjum.  Nú velti ég því fyrir mér inn í hvernig samfélag næsta kynslóð Eyjamanna fæðist.

 

Krossgötur samtímans

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá staðreynd að íbúafjöldi í Vestmannaeyjum veltur ætíð á því hvernig gengur til sjávar.  Samtíma veruleikinn er sá að í kjölfar mikilla hagræðingakrafna á sjávarútvegsfyrirtæki hefur útgerðum fækkað og þær stóru orðnar enn stærri.  Tæknivæðing í veiðum og vinnslu hefur gert það að verkum að færri þarf til að vinna grunnvinnuna.  Það þarf færri sjómenn og færri verkamenn í landi.  Á sama tíma er það hverjum degi ljósara að Eyjamenn framtíðarinnar gera kröfu um öðruvísu vinnu en foreldrar þeirra, svo ekki sé nú talað um þau störf sem ömmur þeirra og afar unnu.  Það vilja svo sem allir vinna í sjávarútvegi.  Það eru bara færri og færri sem vilja koma við fiskinn.  Ungt fólk vill mennta sig og fá störf við hæfi.  Séu þau störf hér í Eyjum þá vilja þau búa hér, annars ekki. Í þessu felast krossgötur samtímans.

 

Aukin hagræðing og ný tækifæri

Með aukinni hagræðingu og bætri arðsemi hefur sjávarútvegur breyst mikið.  Þótt störfum við veiðar og vinnslu hafi sannarlega fækkað þá hefur afleiddum störfum fjölgað mikið á stuttum tíma.  Mikilvægi sjávarútvegs fyrir lífsgæði þjóðarinnar er því enn sem fyrr gríðarlegt og tækifæri sjávarbyggða mörg og mikil.  Störf við sölumennsku, vöruþróun, umbúðahönnun, rannsóknir, þróun, eftirlit, þjónustu, lyfjaþróun og ýmis fleiri afleidd störf eru í dag orðin langsamlega stærsti hluti starfa við sjávarútveginn.  Áætlað er störf við veiðar og vinnslu séu um 8500 en afleiddstörf séu um 30.000.  Vandi sjávarbyggða eru að ný störf verða ekki til í nábýli við veiðar og vinnslu.

 

Ekkert kemur úr engu

Í senn eru þetta ógnanir og tækifæri.  Styrkur Vestmannaeyja liggur ekki hvað síst í tvennu.  Annarsvegar í því að íbúar hér eru óhræddir við verkefni, mikla vinnu og aðlögun að breyttum tímum.  Þeir vita sem er að ekkert kemur úr engu og ef ekkert verður að gert þá gerist ekkert.  Hinsvegar liggja tækifærin í því að fyrirtækin í Vestmannaeyjum eru gríðarlega sterk.  Nærri liggur að að 10 til 13% af aflaheimildum Íslendinga tengist fyrirtækjum hér í Vestmannaeyjum.  Tækifærin eru því okkar en það þarf kjark, samstöðu og þor til að nýta þau.

 

Að grípa tækifærin, að sækja fram

Verkefni samtímans hér í Eyjum er ekki hvað síst að fjölga afleiddum störfum í sjávarútvegi.  Það er ekki eðlilegt að þar sem allt að 13% af aflaheimildum Íslendinga er veiddur og unninn séu tæp 2 stöðugildi hjá Hafrannsóknastofnun (af 160).  Það er ekki eðlilegt að Háskóli Íslands skuli ekki vera með starfsemi í stærsta sjávarplássi á landinu.  Það er slæmt ef nýsköpun á sér ekki jarðveg í Vestmannaeyjum.  Það er rangt gefið þegar nægt fjármagn er til í sjávarútvegi til að standa undir ofursköttum til ríkisins og háum arðgreiðslum til eigenda en 1,2% þjóðarinnar nær ekki að viðhalda byggð á forsendum sjávarútvegs.  Við vitum nú af tækifærunum og við ætlum að grípa þau.  Það þarf að sækja fram í Vestmannaeyjum undir formerkjum nýsköpunar og þróunar.  Það þarf að skapa ný störf í sjávarútvegi.  Það vill Vestmannaeyjabær að gera í samstarfi við Þekkingarsetur Vestmannaeyja, fyrirtæki í Vestmannaeyjum, fræðasamfélagið, íslenska ríkið og síðast en ekki síst – íbúa Vestmannaeyja.

 

Ár nýsköpunar

Á komandi ári verður áhersla lögð á nýsköpun, þekkingu og uppbyggingu í Vestmannaeyjum.  Horft er til stórvægilegrar uppbyggingar á þekkingarklasa, stofnun sjávarútvegsklasa,  uppbyggingu á háskólanámi og fjölgun fræðistarfa.  Árið 2016 verður ár nýsköpunar í Vestmannaeyjum.  Ef vel tekst til má vera að það auki líkurnar fyrir því að næsta kynslóð Eyjamanna fæðist inn í öflugra Eyjasamfélag en kynslóðirnar á undan.

 

Gleðilega nýsköpun

Elliði Vignisson

Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.