Stefán Ó. Jónasson skrifar:

Við áramót

30.Desember'15 | 12:30

Við áramót er gott að horfa um öxl og líta jafnframt fram á veginn. Árið 2015 hófst með ágreiningi við meirihlutann um áherslur varðandi fjárveitingar til aldraðra og fatlaðra. Við í E-listanum vildum setja þá fjármuni sem eyrnamerktir voru Fiskiðjunni í fjárhagsáætlun 2015 í málefni aldraðra og fatlaðra.

Við urðum undir í baráttunni þá en dropinn holar steininn. Í síðustu fjárhagsáætlun bar svo við að 200.000.000 kr. voru settar í Hraunbúðir og ég er sannfærður um að ef ekki hefði komið til málefnaleg barátta okkar á síðasta ári hefði meirihlutinn aldrei sett fjármunina í Hraunbúðir heldur haldið áfram að hlaða undir eigin gæluverkefni.

Það merkilega er að samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Framkvæmdasjóði aldraðra hefur Vestmannaeyjabær aldrei sótt um úr þeim sjóði frá 2008 fyrr en núna. Vafalaust hefði meirihlutinn látið Hraunbúðir drabbast áfram niður ef ekki hefði komið til baráttu okkar fyrir þessum hagsmunum aldraðra. Þetta er því skýrt og augljóst dæmi um hvernig minnihlutinn getur haft jákvæð áhrif þótt oft þurfi að bíða eftir réttlætinu.   Almennt talað er samstarfið gott, en vandinn er sá að sjónarmiðin eru oft svo gerólík. Við viljum forgangsraða í þágu fjölskyldna eins og frístundakortin okkar er gott dæmi um. Kannske mun D-listinn sjá að sér árið 2016 líkt og með Hraunbúðir og koma sjálfur fram með hugmyndina um frístundakortin á næsta ári. Ég verð að segja að mér er sama hvaðan hugmyndin er sögð koma, bara ef hægt er að láta stjórnmálin snúast um að þjónusta bæjarbúa.

Sjálfum fannst mér skemmtilegasti tími ársins þegar ÍBV varð bikarmeistari í handbolta 2015. Úrslitaleikurinn var ótrúlegur og algerlega vonlaust að sitja kyrr yfir leiknum, heldur gekk maður milli herbergja og varð algerlega heltekinn. En að fara niður á bryggju og sjá nánast hálfan bæinn samfagna var ógleymanleg stund.

Almennt talað er árið 2015 gjöfult ár. Fyrirtækjum í sjávarútvegi gengur vel og það smitar út frá sér til alls samfélagsins. Því miður hefur þó ekki allt verið okkur hagfellt. Á árinu féll Sparisjóðurinn, þetta gamla og merka fyrirtæki, og var yfirtekið af Landsbankanum. Þetta var ótrúlegt áfall og ótrúlegt að aldrei hafi kviknað á viðvörunarljósum. D-listinn hefur fengið mikla gagnrýni fyrir að hafa fjárfest í Sparisjóðnum stuttu fyrir fall hans og þar með valdið því að bæjarsjóður tapaði stórum fjárhæðum.

Á árinu 2016 ætlar E-listinn sér áfram að stunda hagsmunabaráttu fyrir bæjarfélagið. Við einsetjum okkur að standa vörð um barnafjölskyldur, halda áfram að berjast fyrir frístundakortunum enda um ótrúlega brýnt hagsmunamál að ræða fyrir fjölskyldur. Við náðum árangri fyrir aldraða með því að fá D-listann til að sækja loksins í Framkvæmdasjóð aldraðra og eins munum við berjast fyrir bættum hag öryrkja. Þá stendur nú yfir vinna með aðalskipulag Vestmannaeyja fyrir næstu 20 árin. Hér er frábært tækifæri til að skapa enn betra bæjarlíf.

Hvað umhverfismálin áhrærir, ætlum við okkur að fá meirihlutann til að láta af því stórkostlega hirðuleysi sem hér viðgengst svo víða. Eldfellið okkar er orðið okkur til vansa, svæði víða um bæinn eru óslegin og almennt talað vantar meiri metnað. Þá eru málefni sjúkrahússins komin í öngstræti. Það er grundvallaratriði í samfélagi okkar að heilbrigðismálin séu í góðu lagi en þegar börn geta ekki lengur fæðst í heimabyggð þá höfum við farið áratugi aftur á bak í þróuninni. Samt ætti D-listinn að geta fengið heilbrigðisráðherrann til að huga að þessum málum, en kannske má ekki styggja flokksbróður.

Ég er sannfærður um að árið 2016 verður gott ár fyrir Vestmannaeyjar. Það er margt jákvætt að gerast í samfélagi okkar þótt samgöngurnar séu að sliga okkur nú um stundir. En nóg um það í bili.

Ég óska Vestmannaeyingum öllum gleðilegs árs og vona að við munum áfram sem hingað til standa saman í öllu því sem eflir og bætir mannlíf Vestmannaeyja.

 

                                    Stefán Jónasson

 

Höfundur er oddviti Eyjalistans.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.