Óveðrið í síðustu viku

Tjónið hleypur á tugum milljóna

- mest á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum

16.Desember'15 | 07:05
smaragata_tjon_2015_hvati

Mynd: Sighvatur Jónsson/RÚV

Tilkynningar sem borist hafa stóru tryggingafélögunum þremur, VÍS, Sjóvá og Tryggingamiðstöðinni, vegna óveðursins á mánudagskvöld í síðustu viku eru farnar að nálgast 300. Flestar tilkynningarnar bárust VÍS. Allir búast við að talan eigi enn eftir að hækka.

Björn Friðrik Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi VÍS, segir að tilkynningar til þeirra séu farnar að nálgast 200. Um 170 tilkynningar eru vegna eignatjóns, en þar fyrir utan um 20 tilkynningar vegna tjóns á ökutækjum.

Hann segir að fólk sé seint að taka við sér og senda inn tilkynningar. Ástæðurnar séu margvíslegar. „Í sveitunum er þetta oft tjón á útihúsum,“ segir Björn. Bændur byrji þá á því að dytta að sjálfir og skoði svo skemmdirnar betur síðar meir og sendi inn tilkynningar.

Sigurjón Andrésson hjá Sjóvá segir að tilkynningarnar berist smátt og smátt. „Það eru um 70 tjón sem hafa verið tilkynnt til okkar. Það er ekkert mjög stórt tjón sem hefur verið tilkynnt til okkar,“ segir Sigurjón. Þetta séu mest allt rúður og foktjón, þakkantar og fleira. „Þetta eru einhverjir tugir milljóna en ekkert mjög stórt,“ segir hann. Tjónið hafi verið mest á suðurströndinni.

Tryggingamiðstöðinni bárust svo á milli 50 og 60 tilkynningar, einnig mest á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Matið núna bendi til þess að bótaskylt tjón nemi um 40 milljónum. „Það fór betur en á horfðist,“ segir Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir hjá TM. Hún tekur fram að flestar tilkynningar sem bárust hafi verið vegna lekamála. Það séu óbótaskyld tjón sem hafi orsakast af því að fólk hafði ekki hugað að því að opna fyrir niðurföll og moka af svölum, húsþökum og öðru slíku. Mikilvægt sé að hafa þetta í huga núna þegar búist er við því að það hláni mikið á næstu dögum. Það sé enn hægt að koma í veg fyrir tjón. „Það er um að gera að hvetja fólk til þess að komast hjá því að lenda í því. Þetta voru flest málin sem tengdust óveðrinu síðast. Mál sem voru utan trygginga,“ segir hún. Hún segir að nákvæmara tjónamat eigi eftir að fara fram á stærri málum. En stærstu málin séu fok í Vestmannaeyjum þar sem þakið fór og svo söluskáli sem eyðilagðist við Skógafoss.

 

Fréttablaðið greindi frá.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.