Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Það var þetta með jólin ……...

14.Desember'15 | 06:48

Jólin og allt það sem þeim fylgir er eitt það sem ég elska mest við að vera til. Ég elska aðdraganda jólanna, undirbúninginn og það að finna spennuna magnast jafnt og þétt. Ég byrja að hlusta á jólalög á afmælisdaginn hennar Erlu systur, 21.október og á vandræðalega margar jólamyndir sem ég horfi reglulega á þar til aðfangadagur rennur upp í allri sinni dýrð. Það er bara eitthvað svo hrikalega fallegt og sérstakt við þennan tíma.

Jólin mín hafa ekki alltaf verið auðveld og fyrstu og einu jólin sem ég hélt alveg sjálf voru vægast sagt afskaplega einkennileg. Þann 21.desember 2009 skildi ég við þáverandi eiginmann minn og barnsföður. Ótrúlega frábær tímasetning og hef ég oft hugsað hvernig í fjandanum ég komst í gegnum þessa daga sem á eftir komu.

 Það stóð mikið til þessi jól þar sem Erla systir, Hjörtur og frænkukrúttin mín þrjú ætlaðu að eyða jólunum með okkur í fyrsta skiptið í  mörg ár. Á þorláksmessukvöld ákvað ég að ég gæti ekki boðið fólkinu mínu upp á það að halda jól með okkur þar sem við vorum svo illa sett andlega að það myndi eyðileggja allt fyrir öllum. Þannig að á aðfangadagsmorgun skrölti ég í Krónuna, útgrátin og með ekka, keypti hamborgarhrygg(sem mér “bæ the vei” finnst ekki einu sinni góður en fannst ég þurfa að elda), pakkasósu, gular baunir, forsoðnar kartöflur(já eldhússtörf eru ekki alveg “mæ thing”), jólaöl og glerkönnu því ekki átti ég svoleiðis í fórum mínum. Ég rakst á marga í þessari búðarferð minni, reyndi að brosa og reyndi líka að meina það þegar ég sagði: ,,Gleðileg jól og hafið það ofsalega gott“.

Aðfangadagskvöld leið svo hjá í einhverju móki, ég druslaðist til að elda þennan mat sem ég hafði keypt, óskaði stelpunum mínum gleðilegra jóla, gróf langt inn í sálina mína eftir örlitlu umburðarlyndi og setti upp grímuna sem ég þurfti til að leika leikritið með manninum sem ég var að skilja við. Ég hef aldrei á ævinni verið eins sorgmædd, hrædd og leið og þegar ég setti jólagjafir okkar mæðgna í poka, fann litlu hendur dætra minna læðast inn í mínar, barðist við tárin og fór heim til mömmu og pabba. Þegar þangað var komið óskaði ég fólkinu mínu gleðilegra jóla, bað stelpurnar mínar að sýna frænkum sínum jólagjafirnar sínar, rölti upp á loft, lagðist í rúmið og grét þar til ég hélt ég myndi springa.

Það er samt svo magnað að þegar ég lagðist á koddann þessa jólanótt, þá færðist yfir mig svo undarlegur friður. Þrátt fyrir hörmungar ástandið á mér, söknuðinn, sorgina og hræðsluna við hið ókomna þá náðu jólin samt til mín á þann dásamlega hátt sem þau höfðu og hafa alltaf gert. Minningar um frábær æskujól streymdu fram í hugann og mér tókst svo sannarlega að njóta þess í smá stund að eiga falleg jól, ein með sjálfri mér, mitt í öllu myrkrinu.

Jólin eru nefnilega svo ótrúlega mögnuð ef við leyfum okkur að njóta, leyfum okkur að staldra aðeins við og finna gleðina, hamingjuna og dásemdina sem jólin bera með sér. Það eru engar gjafir, enginn matur, ekkert punt og prjál sem þetta í rauninni snýst um. Þetta snýst, eins og svo margt annað frábært, um tilfinningar. Tilfinningar sem við geymum í hjartanu og huganum okkar. Ástina sem við berum til fólksins okkar, þakklætið fyrir að fá gjafir og eiga mat á borðum, hamingjuna yfir brosum barnanna okkar þegar gjöfin sem við gáfum þeim slær í gegn og síðast en ekki síst friðinn og kyrrðina sem er hvergi eins mikil eins og á jólanótt….. Meira að segja þegar maður er staddur í miðri rússíbanareið lífs síns og  ekkert virðist framundan nema myrkrið.

Með gleði í hjarta og bros í kinnunum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla. Munið að njóta og hafið hugfast að dreifa gleðinni og leyfa þeim sem minnst mega sín að njóta með ykkur.

Ást, hamingja og gleði

Lóa ☺

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).