Elliði Vignisson um íbúaþróunina:

Takist ekki að laga samgöngur á allra næstu árum verður byggðavandinn verulegur

2.Desember'15 | 06:48

Í gær bárum við saman íbúafjöldaþróunina í Eyjum annarsvegar og á höfuðborgarsvæðinu hinsvegar. Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur sterkar skoðanir á þessu og lýsir þeim hér í viðtali við Eyjar.net.
 

Greiddum fyrir hagræðinguna með 20% fækkun íbúa

Elliði segir aðspurður að Vestmannaeyjar séu búnar að vera að berjast fyrir tilveru sinni í langan tíma.  Í dag búa um 4300 manns í Vestmannaeyjum og hefur íbúum hér fjölgað hægt en bítandi eftir tvö samdráttarskeið á undangengnum árum. Fyrra samdráttarskeiðir var eftir Vestmannaeyjagosið 1973 þegar íbúum fækkað úr 5000 í 3700 en síðara samdráttarskeiðið hófst árið 1991 þegar frjálst framsal aflaheimilda og kvótakerfið var tekið upp. Íbúum Vestmanaeyja sem um það leyti voru aftur orðnir 5000 tók þá að fækka á ný.  Þótt frjálsa framsalið á aflaheimildum hafi verið nauðsynlegt þá fylgdu því margskonar erfiðleikar.  Sumstaðar töpuðu byggðalögin öllum aflaheimildum en þannig var því ekki farið hjá okkur.  Hér í Eyjum bættu fyrirtækin stöðuna með því að bæta við sig aflaheimldum og stækka.  Það kallaði á miklar og erfiðar hagræðingaraðgerðir.  Við Eyjamenn greiddum fyrir hagræðinguna með 20% fækkun íbúa. 

Það er því eðlilegt að bæjarbúar setji spurningarmerki við það að loksins þegar möguleiki er orðið á að nýta tækifærin sem hagræðingin skapaði þá skuli eiga að skattleggja fyrirtækin í drep og nýta skattinn í samlegðina í borginni. Það er ekki ósanngjörn krafa sjávarbyggðanna að núna þegar sjávarútveginum vegnar vel þá njóti sjávarbyggðirnar sjálfar góðs af því en ekki bara ríkið, segir bæjarstjóri.

 

Atvinnustigið gott hér

Hér í Eyjum erum við svo heppin að atvinnustig er gott en þó er hér ákveðin þróun í gangi sem við verðum að bregðast við í samstarfi við fyrirtækin okkar.  Ég, eins og svo margir Eyjamenn, kem úr fjölskyldu sem hefur verið fiskverkafólk í margar kynslóðir.  Þannig er móðir mín fiskverkakona og hefur verið alla mína ævi. Nú er það hins vegar þannig að dóttir mín sem er 14 ára ætlar ekki að verða fiskverkakona.  Hennar kynslóð hefur aðrar hugmyndir um framtíðina en eldri kynslóðir og það eru einfaldlega sífellt færri sem vilja vinna störfin sem eru lægst í virðisaukakeðjunni.  Þessi þróun er svo að eiga sér stað á sama tíma og þessum störfum í fiskvinnslu hafi verið að fækka vegna aukinnar sjálvirkni og því hefur það ekki valdið teljandi vandræðum fyrir greinina.  Áður hafi þurft hundruðir manns til að koma afla í gegnum vinnsluna sem í dag eru unnin af fáeinum starfsmönnum.  

Elliði segir það einnig mikilvægt fyrir okkur að halda því til haga að þótt störfum í vinnslunni hafi fækkað er því fjarri að störf sem tengjast sjávarútvegi séu færri nú en áður.  Um leið og störfum við veiðar og vinnslu er að fækka hafa orðið til fjölmörg ný störf sem tengjast hvers kyns markaðssetningu, sölustarfi, rannsóknum, fullvinnslu og þróunarvinnu í greininni.  Keppikefli okkar verður því að vera að sjá til þess að nýju störfin í sjávarútveginum sem eru ofar í virðiskeðjunni verði til í nábýli við fyrirtækin sem stunda veiðar og vinnslu en sogist ekki öll til höfuðborgarinnar.

Við verðum ótrúlega oft vör við það hvernig hið opinbera reynir að einfalda sér hlutina með því að hlaða störfum og tækifærum niður í höfuðborginni. Við í bæjarstjórnum megum okkur lítil ein í þessari baráttu og mikilvægt að greinin sjálf sporni við þessu til að mynd með því að stunda rannsóknir og þróun innan fyrirtækjanna sjálfra og efla þannig fyrirtækin og sjávarbyggðirnar um leið, segir Elliði.

 

Mætum stöðunni með nýsköpun

Eins og margir þekkja þá höfum við hjá Vestmannaeyjabæ unnið með fyrirtækjunum að greiningu á því sem helst vantar til þess að styrkja byggðina og nú stefnir í að boðið verði upp á háskólanám í nýsköpun í sjávarútvegi hér í Eyjum haustið 2016 á vegum Háskólans í Reykjavík. Það er gagngert gert til að mæta þessum nýju áskorunum sjávarbyggða og fyrirtækja í sjávarbyggðum.  Við verðum einfaldlega að reyna að mæta stöðunni með nýsköpun og fölgun tækifæra til ungt fólk.

 

Vill tengja meira saman sjávarútveg og ferðaþjónustu

Elliði segir ferðaþjónustuna skapa okkur mikil tækifæri og við finnum vel fyrir vaxandi ferðamannastraumi.  Ferðaþjónustan er klárlega meðal þess sem mun stuðla að áframhaldandi vexti bæjarfélagsins.  Reyndar tel ég að það sé ástæða til að tengja sjávarútveg og ferðaþjónustu langtum meira saman en nú er.  Við finnum vel að ferðamenn sem hingað koma hafa mikinn áhuga á sjávarútveginum.  Þeir vilja borða ferskar sjávarafurðir og vita hvernig aflinn er unninn og hvar fiskurinn var veiddur.  Meðal annars vegna þessa höfum við falið Þekkingarsetri Vestmannaeyja að annast alla umsjón með ferðaþjónustu fyrir hönd sveitarfélagsins en hingað til hefur setrið fyrst og fremst verið stoðeining fyrir sjávarútveginn. Með þessu tökum við vonandi skref í átt að auknu samstarfi þessara tveggja greina.

 

Ögurstund - er kemur að samgöngum

Er bæjarstjóri er spurður út í mikilvægi samgangna í samhengi við byggðavandann segir hann það einfaldlega lykilatriði að það takist að tryggja tíðar og öruggar samgöngur um Landeyjahöfn allt árið.  Við höfum ekki tíma til að bíða í fjölda ára eftir því að „eitthvað“ gerist. Patent lausnir eru ekki í sjónmáli. Við verðum að fá nýtt skip tafarlaust sem ræður við siglingar í 3,5 metra ölduhæð.  Smíðatíma skipsins þarf svo að nýta til að gera þær breytingar sem þegar er hægt að gera á höfninni sjálfri.  Hvorki ungt fólk né við sem eldri erum getum sætt okkur við núverandi ástand.  Takist ekki að laga samgöngur á allra næstu árum verður byggðavandinn verulegur.  Mér liggur nærri að segja að við séum á ögurstundu.

En hvernig sér Elliði framtíðina fyrir sér hér í Eyjum? Trú mín á framtíðina er þó alger.  Hér er vilji til að þróa og efla byggð mikil og samstaðan alger.  Við sjáum stöðuna sem hér að ofan er lýst ekki sem vandamál heldur sem verkefni.  Þegar þannig er í pottana búið er hægt að ráðast í aðgerðir og uppskera árangur, sagði Elliði að lokum í samtali við Eyjar.net.

 

Tengd frétt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%