Vestmannaeyjabær:

Frístundakortin ekki í fjárhagsáætlun næsta árs

27.Nóvember'15 | 09:09

Eitt helsta baráttumál minnihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja er frístundakort til niðurgreiðslu íþrótta- og æskulýðsgjalda. Er þetta í þriðja skipti sem Eyjalistinn leggur málið fram, þar af í annað sinn í bæjarstjórn. Tillagan náði ekki fram að ganga og er ekki inní fjárhagsáætlun næsta árs.

Stefán Jónasson oddviti minnihlutans velti því upp á fundinum í gær hvort þetta snérist orðið um það hvaðan tillagan kæmi. Að ekki væri hægt að samþykkja það sem minnihlutinn leggur fram. Var hann verulega ósáttur við að tillagan hafi verið felld og sat minnihlutinn hjá er kom að því að greiða áætluninni atkvæði og setti fram eftirfarandi bókun:

Það er margt mjög gott og vel unnið við þessa fjárhagsáætlun. Það er ennfremur fagnaðarefni að verið sé að leggja meiri áherslu á málefni eldri borgara innan Hraunbúða sem og málefni fatlaðra. Það er hins vegar einnig ýmislegt sem við hefðum viljað sjá í þessari fjárhagsáætlun sem vantar og forgangsraða sumum málefnum ofar. Ákvörðun okkar að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls byggist einnig á því að við komum ekki að vinnu þessarar fjárhagsáætlunar.
Auður Ósk Vilhjálmsdóttir
Stefán Óskar Jónasson

 

Bitnar á börnunum ef þessir hlutir eru ekki í lagi

Eyjar.net setti sig í samband við Auði Ósk Vilhjálmsdóttur, bæjarfulltrúa Eyjalistans vegna málsins. ,,Það voru mér mikil vonbrigði að frístundakortin voru ekki inn í þessari fjárhagsáætlun, sérstaklega í ljósi þess að bæjarsjóður stendur mjög vel og við erum ekki að tala um gífurlegar fjárhæðir sem þetta verkefni kostar. Ef litið er til heildarútgjalda í málaflokki æskulýðs- og íþróttamála fyrir síðasta ár þá myndi áætlaður kostnaður frístundakortsins einungis hljóða upp á rétt rúm þrjú prósent af útgjöldunum.

Ég á erfitt með að trúa að ekki hafi verið hægt að verja 16 milljónum í þetta verkefni án þess að það hefði þurft að bitna á einhverju öðru málefni. Ég hef sagt það áður að ég telji mikilvægi þess að sveitarfélög bjóði upp á frístundakort gríðarlega mikið, sérstaklega í ljósi þess að börn á Íslandi í dag sitja alls ekki öll við sama borð þegar kemur að þeim möguleika að stunda tómstundir og íþróttastarf. Það reynist mörgum fjölskyldum mjög erfitt og sumum óyfirstíganlegt að kosta börnin sín í æskulýðsstarf. Mér finnst það þáttur í hlutverki sveitarfélagsins að styðja við barnafjölskyldur í þessum málum þar sem það bitnar á börnunum ef þessir hlutir eru ekki í lagi" sagði Auður.

 

Fólk er sjálft best til þess fallið að ákveða hvernig það verji eigum sínum

Elliði Vignisson sagði í samtali við Eyjar.net að hin svokölluðu frístundarkort eru náttúrlega virðingaverð hugmynd um það hvernig við getum stutt við bakið á heimilum í Vestmannaeyjum. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016 var hinsvegar farin sú leið að fullnýta ekki tekjustofna Vestmannaeyjabæjar.  Útsvar verður því 14,36% en ekki 14,48% eins og heimilt er. Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði verður 0,35% en ekki 0,5% eins og heimilt er. 

,,Þessi ákvörðun verður til þess að á árinu 2016 innheimtir  heimtir Vestmannaeyjabær 73.512.992 kr. minna af mögulegum tekjum af þessum stofnum en annars væri.  Það er einlæg trú meirihluta Sjálfstæðismanna að fólk sé sjálft best til þess fallið að ákveða hvernig það verji eigum sínum.  Það hefði því auðvitað ekki nokkur áhrif á rekstur Vestmannaeyjabæjar þótt við myndum hækka álögur á bæjarbúa um 16 milljónir og láta það til baka í formi afsláttarkorta. Í stað þess að hækka fasteignagjöld og taka hærra hlutfall af launum fólks til að niðurgreiða tómstundarstarf hyggst meirihluti Sjálfstæðismanna vera áfram trú þeirri stefnu sinni að reka sveitarfélagið sem best og láta bæjarbúa njóta þess í háu þjónustustigi og sem lægstu álögunum.

Ég vil líka að það liggi fyrir að Vestmannaeyjabær er með sérstakan lið í rekstri sínum til að mæta og aðstoða þær fjölskyldur sem erfitt eiga með að mæta kostnaði við tómstundariðkun barna sinna. Núna þegar árið er brátt á enda hefur einungis 66% af liðnum verið nýttur.  Það er mikilvægt að fólk sem þörf hefur á noti þá aðstoð sem svo sljáfsagt sé að veita" sagði bæjarstjóri að lokum.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.