Sigurður Áss og Andrés Þ. Sigurðsson:

Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur

2.Október'15 | 11:39

Sigurður Áss Grétarsson og Andrés Þ. Sigurðsson, sem sæti eiga í vinnuhópi um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Í Morgunblaðinu í gær birtist viðtal við Sævar M. Birgisson en hann sat fyrir tveimur árum síðan í vinnuhópi um hönnun og smíði Vest- mannaeyjaferju. Í viðtalinu lýsir hann því yfir að þetta hafi verið „vitlaus nálgun“ og hanna hefði átt öflugt skip til að sigla til Þorlákshafnar. Í skipunarbréfi vinnuhópsins kom skýrt fram að verkefnið var að hanna ferju sem gæti siglt til Landeyjahafnar og því hefði það ekki átt að koma honum á óvart hvert verkefnið var.

Hvað varðar fullyrðingar Sævars um að þetta hefði allt verið niðurneglt þá getum við sem sátum með honum í smíðanefndinni ekki tekið undir það. Sævar lagði til málanna á fyrsta fundi en eftir það tók hann lítinn þátt í starfinu og hafði lítið til málanna að leggja. Engar athugasemdir komu frá honum ef frá er talið innlegg hans á fyrsta fundi. Það hefði verið betra að hann hefði bókað þær athugasemdir sem hann nú kemur fram með þegar hann sat í nefndinni og þáði laun fyrir.

Hönnun nýrrar ferju fer að ljúka og eins og fram hefur komið þurfti að endurbæta hönnun hennar vegna þess að rannsóknir leiddu í ljós að hún uppfyllti ekki kröfur til siglinga í Landeyjahöfn. Nú telja hæfustu skipaverkfræðingar, eftir að hafa endurhannað og endurreiknað, að ferjan geti siglt í Landeyjahöfn. Það yrði stórt skref afturábak að fresta málinu enn og aftur eins og lagt er til í Morgunblaðinu í gær.

Ástæða er til að taka skýrt fram að sú ferja sem nú er verið að leggja lokahönd á getur auðveldlega siglt til Þorlákshafnar með fleiri farþega og mun fleiri bíla. Rannsóknir sýna að nýja ferjan er betra sjóskip en Herjólfur. Erfiðleikar við Landeyjahöfn felast í tvennu, að útreikningar danskra sérfræðinga á sandburði voru vanáætlaðir og ekki hefur enn verið smíðuð ferja sem hentar Landeyjahöfn. Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur. Að tryggja nægt dýpi fyrir nýrri ferju verður erfitt en viðráðanlegt.“

 

Yfirlýsingin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...