Vestmannaeyjabær fer fram á hluthafafund í Landsbankanum vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar

Bæjarstjóri þungorður um málið

21.Júlí'15 | 14:26
nyr_landsbanki

Afstöðumynd af nýja bankanum

Nú fyrir skömmu lauk fundi bæjarráðs Vestmannaeyja.  Þar var meðal annars fjallað um byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans enda Vestmannaeyjabær meðal hluthafa í bankanum. Þar var bæjarstjóra falið að óska eftir hluthafafundi í Landsbankanum og kalla þar eftir frekari rökstuðningi um fyrirhugaða nýbyggingu bankans.

Ákvörðun Landsbankans um byggingu höfuðstöðvar.

Bæjarráð fjallaði um ákvörðun Landsbanka Íslands um að reisa höfuðstöðvar við Hörpu í Reykjavík.

Fram hefur komið að forsenda ákvörðunar um nýjar höfuðstöðvar sé meint hagræðing af því að koma sem mest af starfsemi undir eitt þak.

Bæjarráð Vestmannaeyja vekur athygli á því að Vestmannaeyjabær og aðrir fyrrum eigendur Sparisjóðs Vestmananeyja eru nú í eigendahópi Landsbankans. Undrun vekur að ákvörðun bankaráðs Landsbankans hefur ekki komið til formlegrar afgreiðslu á hluthafafundi heldur hyggst bankaráð eitt og sjálft taka slíka ákvörðun, segir í bókun ráðsins.

Bæjarráð Vestmannaeyja telur að því fari fjarri að hluthöfum hafi verið sýnt fram á að mest hagræði skapist fyrir Landsbankann, hluthafa hans og viðskiptavini, með því að reisa nýja glæsibyggingu á verðmætustu lóð landsins.

Bæjarráð hefur fullan skilning á því að hagræðing sé fólgin í því að fara í heppilegra húsnæði en þær sem bankinn er í núna í miðborg Reykjavíkur. Bæjarráð Vestmannaeyja telur hinsvegar að í ljósi þess að opinberir aðilar svo sem Íslenska ríkið og Vestmannaeyjabær (þótt í ólíkum hlutföllum sé) eru nánast einir eigendur að Landsbankanum sé sérstaklega brýnt að vanda til verka hvað nýframkvæmdir við höfuðstöðvar varðar og þá ekki síst að þess verði gætt að hvergi séu send þau skilaboð að óráðssía, glæframennska og flottræfilsháttur verði látin viðgangast. Vítin eru til að varast þau.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska þegar eftir hluthafafundi í Landsbankanum vegna þessa og kalla þar eftir frekari rökstuðningi. Þá felur bæjarráð bæjarstjóra að óska sérstaklega eftir því að stjórn Landsbanka láti fara fram óháð mat á því hvað staðsetning sé hagkvæmust fyrir Landsbanka Íslands.

Í því samhengi verði meðal annars horfti til þess að höfuðstöðvunum verði fundin staður annarstaðar en í miðborg Reykjavíkur svo sem í Kópavogi, Garðabæ, Selfossi eða Reykjanesbæ. Þá hefur nýlega verið bent á að heppilegar lóðir til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu séu í Hvassahrauni, segir að endingu í bókun bæjarráðs.

 

Endurhvarf banka til fyrra gjálífs kemur ekki til greina

Elliði Vignisson, bæjarstjóri hafði þetta að segja í samtali við Eyjar.net: „Það er í mínum huga alveg ljóst að endurhvarf banka til fyrra gjálífs kemur ekki til greina og allra síst hjá Landsbankanum sem er eign ríkis og sveitarfélaga.  Það kemur ekki til greina í okkar huga að þeir örfáu aðilar sem skipa bankaráð taki prívat ákvarðanir um hvernig slíkt verði gert og byggi 8000 milljóna höfuðstöðvar á verðmætustu lóð í landinu án þess að við eigendur komum að slíkri ákvörðun.  Við verðum að hafa meiri upplýsingar og axla ábyrgð sem eigendur.  Að mínu mati er slíku hinu sama fyrir að fara hjá ríkinu sem er jú lang stærsti eigandinn og þar með landsmenn allir"                                                                                                                                                                                                                                

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...