Birna Þórsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Trausti Hjaltason skrifa:

Að leita að óvinum í samherjum

15.Júlí'15 | 10:48

Fyrir stuttu birtist grein á Eyjar.net frá hópnum “Horfum til framtíðar”. Í greininni var því m.a. haldið fram að kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn væru dragbítar í samgöngumálum og að þeir væru ekki að forgangsraða rétt. Það eru stór orð sem erfitt er sætta sig við enda það fjarri sannleikanum.

Í ljósi þess að samgöngumál eru þau mál sem eru eitt af okkar allra mikilvægustu hagsmunarmálum hafa samgöngur á sjó oftast verið til umræðu allra mála í bæjarstjórn Vestmannaeyja undanfarna mánuði og ár, og er baráttan fyrir bættum samgöngum sífellt haldið á lofti af bæjarfulltrúum í öllum samskiptum við þá sem fara með ferðina.

 

Hver er afstaða bæjarfulltrúa?

Bæjarstjórn og bæjarráð eru stjórnvald.  Vart þarf að útskýra hversu mikilvægt það er að stjórnvöld séu vönd að virðingu sinni. Vald þessa stjórnvalds er eingöngu virkt á lögformlegum fundum þess.  Þannig þarf aldrei að efast um afstöðu stjórnvaldsins, hún kemur einfaldlega fram í fundargerðum þess og er öllum opin til lesturs.  Undirrituð tóku sig til og glugguðu í bókanir núverandi og fyrrverandi bæjarstjórnar varðandi samgöngumál s.l. 2 ár og báru saman við umrædd greinarskrif .

 

Bara hlustað á vegagerðina en ekki sérfræðinga úr hópi greinarskrifara og bara horft á skipið en ekki höfnina.

Hópurinn gagnrýnir að bæjarfulltrúar taki mark á sérfræðingum Vegagerðar en ekki fulltrúum hópsins. Hópurinn segir niðurstöðu greiningar raunverulegra sérfræðinga úr þeirra hóp vera að vandamálið sé aðkoman að höfninni, en ekki skipin sjálf.  Í fjölmörgum bókunum bæjarráðs og bæjarstjórnar er þess einmitt getið að bæta þurfi ástand hafnarinnar og siglingaleiðarinnar en jafnframt tekið fram að bæjarfulltrúar séu sjálfir ekki sérfræðingar í þessum málefnum, svo nokkur dæmi séu tekin:

 

Bæjarráð 30. júní 2015: ,,Bæjarráð minnir enn fremur á að bygging nýs skips til siglinga í Landeyjahöfn er sannarlega nauðsynleg en ekki nægjanleg forsenda þess að hægt verði að tryggja samgöngur allt árið um Landeyjahöfn. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í framkvæmdir sem snúa að höfninni sjálfri, dýpkunarframkvæmdum og fl“.

 

...“Bæjarráð áréttar að smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju tekur að minnsta kosti 2 ár og því brýnt að ráðist verði i aðgerðir til að tryggja viðunandi ástand í samgöngumálum þar til ný ferja hefur siglingar í endurbætta höfn“.

 

3005. fundur bæjarráðs

,,Bæjarráð hefur ítrekað lagt fram þá einörðu kröfu að áfram verði haldið að þróa þá siglingaleið og einskis látið ófreistað til að tryggja öruggar samgöngur allt árið um Landeyjahöfn“.

 

Bæjarráð janúar 2015: ,,Bæjarráð ítrekar það sem margsinnis hefur áður komið fram um þá kröfu að samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar verði tafarlaust komið í viðunandi ástand. Skaði samfélagsins í Vestmannaeyjum vegna samgönguvanda á seinustu árum er með öllu óviðunandi. Krafa bæjarráðs er sú að án tafar verði Eyjamönnum tryggðar öruggar samgöngur allt árið um þjóðveginn sem liggur um Landeyjahöfn“.

 

Bæjarstjórn 20. september 2013: ,,Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur illu heilli ekki lausnir á vandanum. Annað færara fólk verður að koma með lausnirnar. Ástæða er einnig til að halda því til haga að jafnvel þótt bæjarstjórn hefði lausnirnar þá fer hún ekki með forræði málsins. Slíkt er hjá ríkinu. Bæjarstjórn gerir hinsvegar þá kröfu að samgöngum við Vestmannaeyjar verði svo fljótt sem verða má komið í þann farveg sem samfélagið þarf á að halda. Núverandi ástand er ill þolanlegt“.

 

Bæjarráð 4. desember 2014: ,,Sérstaklega tekur bæjarráð undir útlistun á þeim áhyggjum sem bæjarfulltrúar hafa ítrekað lýst yfir vegna þessa verkefnis.  Þá krefst bæjarráð þess að samtíma vanda í samgöngum við Vestmannaeyjar verði gefin betri gaumur. Tíðar bilanir Herjólfs, reglulegar frátafir í siglingum í Landeyjahöfn, biðlistar og þjónustuskortur er meðal þess sem er orðið  daglegt brauð“.

 

Bæjarráð 30. september 2014: ,,Með vísan til þessa ítrekar bæjarráð fyrri áskoranir um að allra leiða verði leitað til að halda uppi samgöngum um Landeyjahöfn í vetur og minnir á að bæði Víkingur og Baldur eru heppilegri til vetrar siglinga þangað en Herjólfur“.

 

Bæjarfulltrúar standa gegn afleysingarskipi fyrir Herjólf

Í greininni er því haldið fram að bæjarfulltrúar hefðu haft eitthvað með það að segja að ekki yrði farið í leigu á annarri ferju sem gæti hentað betur í Landeyjahöfn.  Það er rangt.

 

Bæjarstjórn 8. maí 2014: ,,Vegna ummæla um störf bæjarstórnar sem féllu nýlega á borgarafundi um samgöngur leggur bæjarstjórn á það þunga áherslu að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur aldrei sett sig á móti nokkurri hugmynd sem verða má til lausnar á samgönguvanda Eyjamanna.  Fullyrðingar um slíkt eiga ekki við rök að styðjast.  Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur aldrei til með að finna lausn á vanda Landeyjahafnar.  Það verða fróðari aðilar að gera.  Hlutverk bæjarstjórnar er að þrýsta á ríkið sem er ábyrgðaraðili þessara mála.  Það hefur verið gert og það verður gert áfram“.

 

Bæjarfulltrúar vilja bara litla ferju og óbreytta höfn

Því er ekki að neita að bæjarfulltrúar telja þörf á nýrri ferju til siglinga í Landeyjahöfn.  Slíkt hið sama gera flestir sem til málsins þekkja.  Á kynningarfundi með bæjarfulltrúum og skipstjóra Herjólfs í kjölfar prófana á nýrri ferju í siglingarhermi, kom fram að nýja ferjan myndi auðvelda til muna siglingar inn í höfnina við þær aðstæður sem geta skapast í dag.  Bæjarfulltrúar hafa í ræðu og riti sagt að koma nýrrar ferju sé nauðsynleg forsenda betri samgangna en ekki nægjanleg. Það merkir að bæjarfulltrúar telja að það þurfi bæði nýja ferju og að laga höfnina ef vel á að vera.

 

Af hverju ekki stærri ferju

Hópurinn “Horfum til framtíðar” vill að farið verði í forgangsröðun og látið laga höfnina en að því gerðir skórnir að fresta eigi nýsmíði. Einnig segir að þeir óski eftir því að Landeyjahöfn sé heilsárs höfn og þeir vilji frekar stærra, gangmeira skip með meiri burðargetu hvað farþega og bíla varðar.   Skoðun bæjarfulltrúa er þessu lík.  Þeir vilja eins stóra ferju og mögulegt er en þó þannig að hún geti nýtt Landeyjahöfn allt árið.  Ítrekað hefur verið tekið fram í máli Vegagerðarinnar að verði skipið stækkað muni það einmitt valda meiri frátöfum í Landeyjahöfn og því hafi stærð og lögun skipsins verið hannað með það að leiðarljósi að ná fram algjörri bestun hvað varðar nýtingu á höfninni.  Flutningsþörfinni verður þá að mæta með fleiri ferðum og ef það dugar ekki þá þarf einfaldlega tvær ferjur.  Ekki má gefa eftir að siglingar verði í framtíðinni um Landeyjahöfn allt árið.

 

Bæjarráð des 2014: ,,Í minnisblaðinu kemur fram að forsenda þess að hin nýja ferja ráði við fyrirliggjandi flutningsþörf sé sú að hún geti gengið fleiri ferðir en núverandi ferja hefur getað vegna kostnaðar og óhagræðis við losun og lestun.  Gangi áætlanir eftir eykst dagleg flutningsgeta verulega eða um 71% hvað bíla varðar og 61% hvað farþega varðar.  Ganghraði ferjanna er sá sami og þjónusta á siglingum í Landeyjahöfn sambærileg.  Hin nýja ferja er einnig búin til siglinga í Þorlákshöfn og eru í henni milli 30 og 40 kojur“.

 

Er rangt að vilja bæta flugsamgöngur?

Bæjarfulltrúar eru í umræddri grein bornir þeim þungu sökum að þeir hafi gefist upp í baráttu sinni fyrir samgöngum á sjó af því að þeir vilja einnig berjast fyrir bættum flugsamgöngum. Hið sanna er að góðar flugsamgöngur eru ein af lykilforsendum í öflugu Eyjasamfélagi, enda hraðvirkasta samgönguleiðin við meginlandið. Í Vestmannaeyjum hafa fjölmörg ný og öflug ferðaþjónustufyrirtæki sprottið upp sem eiga erfitt uppdráttar yfir þá vetrarmánuði þegar siglingar fara um Þorlákshöfn og jafnvel ekki einu sinni þangað. Það dylst engum að aukinn fjöldi ferðamanna bæði innlendra og erlendra hefur stóraukist með  tilkomu Landeyjahafnar en á meðan hennar nýtur ekki við, hríðfellur komutíðni ferðamanna þar sem fæstum finnst þriggja tíma Atlantshafssigling ákjósanlegur kostur. Flug er mikilvægt fyrir atvinnulífið sem oft þarf á sérhæfðri þjónustu að halda og fyrir almenna bæjarbúa getur flugið verið góður valkostur. Því er það nauðsynlegt til að tryggja ferðafrelsi heimamanna og þeirra sem vilja sækja okkur heim að leita allra leiða til að bæta flugsamgöngur sérstaklega á þeim tíma sem siglingar liggja niðri í Landeyjahöfn.

 

Fundur með ráðherra

Í greininni óskar hópurinn einnig eftir komu innanríkisráðherra.  Enn og aftur eru þeir þar sammála bæjarfulltrúum því bæjarráð óskaði eftir hinu sama í lok júní:

 

Bæjarráð 30. júní 2015: ,,Bæjarráð felur því bæjarstjóra að óska eftir fundi með Innanríkisráðherra og Vegamálastjóra svo fljótt sem verða má“.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er í heildina sú að bæjarfulltrúar, hópurinn “Horfum til framtíðar” og bæjarbúar eru í raun að tala alveg sama máli. Við viljum öll stórbættar aðstæður í Landeyjahöfn til að hún nýtist sem sú heilsárshöfn sem henni var ætlað að vera, við viljum nýja og hentuga ferju í Landeyjahöfn sem getur þó siglt til Þorlákshafnar við þær aðstæður þar sem Landeyjahöfn er ekki fær, við viljum meira ferðafrelsi til handa heimamönnum og gestum okkar, við viljum styrkja atvinnulíf og efla búsetuskilyrði  í Vestmannaeyjum.

Við bæjarfulltrúar tölum fyrir bættum samgöngum fyrir Vestmannaeyjar og það gerum við í öllum okkar samskiptum við þá sem með ferðina fara í samgöngumálum. Samgöngumál eru og verða alltaf eitt af okkar mikilvægustu hagsmunarmálum. Tekið skal fram að yfirferðin hér að ofan er aðeins brot af þeim bókunum sem lagðar hafa verið fram af bæjarstjórn Vestmannaeyja hvað þessi mál varðar en við teljum að þær gefi nokkuð glögglega til kynna að bæjarfulltrúar eru að róa í sömu átt og aðrir bæjarbúar. Enda búum við öll með fjölskyldum okkar hér í Eyjum og eigum líkt og aðrir bæjarbúar allt okkar undir að samgöngum verði komið í gott horf. Einnig skal það tekið fram að allar ályktanir og bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar hafa verið samþykktar einróma í bæjarstjórn.  Það er því óþarfi fyrir hópinn “Horfum til framtíðar” að leita að óvinum meðal samherja.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Birna Þórsdóttir

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Trausti Hjaltason

 

Bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum.

 

 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.