Hópurinn Horft til framtíðar:

Uppgjöf bæjaryfirvalda?

Vilja fá borgarafund með ráðherra

10.Júlí'15 | 10:19

Í síðasta mánuði sendi bæjarráð Vestmannaeyja frá sér enn eina ályktunina um samgöngumál. Nú á að stofna stýrihóp um flugsamgöngur við Vestmannaeyjar.

Af þessari samþykkt bæjarráðs sýnist okkur að búið sé að gefast upp á að berjast fyrir bættum samgöngum á sjó, því kjörnir fulltrúar okkar í bæjarstjórn bugta sig og beygja fyrir svokölluðum sérfræðingum Vegagerðarinnar varðandi Landeyjahöfn, taka hinsvegar ekkert mark á raunverulegum sérfræðingunum. Það er að segja skipstjórnarmönnunum á Herjólfi, á dýpkunarskipunum og á Lóðsinum. Samkvæmt þeirra greiningu er vandamálið aðkoman að höfninni, en ekki skipin sjálf.

 

Bæjarráð boðið velkomið í hópinn

Vorið 2013 var haldinn einn fjölmennasti borgarafundur í Vestmannaeyjum. Fundurinn var um samgöngumál undir yfirskriftinni Horfum til framtíðar. Á þeim fundi var samþykkt ályktun í fjórum liðum. Síðan þá hefur þessi hópur reynt að berjast fyrir bættum samgöngum og hefur hann síðan kennt sig við yfirskrift borgarafundarins ,,Horft til framtíðar”.

Væri ekki tilvalið fyrir bæjarráð og koma til liðs við hópinn og krefjast úttektar óháðra aðila hvort og þá hvað sé hægt að gera til að laga aðkomuna að höfninni, því það er það sem Vestmannaeyingar vilja.

 

Hvar er skýrslan?

En aftur að deginum í dag. Nú flagga menn skýrslu þar sem Vegagerðin (þá Siglingastofnun)  hafi varað við því að árið 2014 myndi dýpið fyrir núverandi ferju verða of lítið. Þessi gögn er erfitt að finna og er hér með skorað á ráðamenn að upplýsa í hvaða skýrslu þetta er.

Það er líka hægt að flagga skýrslum sem segir að menn hafi átt að vita þetta frá upphafi samanber skýrslu frá PIANC MMX Congress Liverpool UK 2010 sem eru reyndar sömu kumpánar og Vegagerðin hefur sem ráðgjafa. Á blaðsíðum 7 og 8 og einnig á síðum 15 og 16 þar eru kunnulegar myndir af þessum höfnum fróðleg lesning.

 

Gríska ferjan

Eins hefur hópurinn bent á ferju sem gæti hentað til siglinga í Landeyjahöfn. Ólafur Briem, framkvæmdastjóri siglingasviðs hjá Samgöngustofu sem tekur út öll skip á Íslandi gerði úttekt á þessari ferju og taldi hann hana uppfylla skilyrði til siglinga án breytinga.

Vegagerðin sló þetta hinsvegar út af borðinu í minnisblaði til þingmanna Suðurlands og birtist samstundist í öðrum netmiðlinum hér í Eyjum með rakalausum fullyrðingum sem enginn fótur var fyrir. Meðal annars um að gera þyrfti  breytingar á skipi og hafnarmannvirkjum frá ( takið eftir ) 700 millj til 1700 millj hvorki meira né minna en 1000 milljóna kr sveifla. Ekki var rætt við Ólaf Briem sem vinnur hjá stofnun sem er í raun yfir Vegagerðinni.

Ferjan umrædda ristir 1 m minna en nú verandi ferja sem hefði komið sér vel í vor og sumar í þessum eilífu dýpisvandamálum í og við Landeyjahöfn. Þá værum við ekki að tala um neina biðlista núna ef þessi ferja hefði verið tekin á leigu.

 

Bæjarstjórn fer með ferðina

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kaus að hlusta á Vegagerðina frekar en að styðja okkur í að fá áðurnefnda ferju til prufu. Þessar staðreyndir höfum við fengið staðfestar frá ráðherra og þingmönnum sem segjast ekki fara gegn vilja kjörina fulltrúa. Enn og aftur eru kjörnir fulltrúar okkar þvi miður mestu dragbítarnir okkar í samgöngumálum. Við í Horfum til framtíðar höfum ekkert tjáð okkur opinberlega um væntanlega nýsmíði og við viljum sannarlega fá nýtt skip en fyrst þarf að fá það á hreint hvort hægt sé að laga höfnina. Ef það er hægt þá lögum við hana og leigjum skip meðan lagfæringar fara fram á aðkomu hafnarinnar. Smíðum í framhaldinu skip miðað við þarfir okkar Eyjamanna, en eins og á flestum stöðum þar sem menn þurfa að reiða sig á ferjusamgöngur þá leitast menn við að auka afköst með stærri ferjum og gangmeiri ekki öfugt með minni og gangminni ferjum.

 

Ástand sem enginn vill

Ekki segja að það sé hver höndin upp á móti annari því að það er rangt samanber vandaða skoðanakönnun sem Eyjar.net lét gera. Þar segir að við viljum að Landeyjahöfn sé heilsárs höfn og við viljum skip sem er stærra, gangmeira og tekur mun fleiri farþega og bíla. Frekar en skipið sem á að fara smíða.

Kæru bæjarfulltrúar, farið þið að forgangsraða rétt. Látum laga höfnina, ef það er ekki hægt þá sitjum við uppi með minna skip og samgöngumálin farin 30 ár aftur í tímann með ólýsanlegum áhrifum. Þetta er eitthvað sem enginn vill hvort það er ung eyjakona eða karlar á fimmtugs-sextugs og sjötugsaldri. Það hljóta allir að sjá að núverandi ástand er ekki boðlegt.

 

Borgarafund með ráðherra

Væri ekki ráðlegt að Innanríkisráðherra kæmi hingað og héldi opinn borgarafund með okkur bæjarbúum? Þar gætum við tjáð okkur milliliðalaust um þessi mál, þar sem kjörnir fulltrúar okkar virðast ekki geta komið því til skila hver vilji meirihluta bæjarbúa í þessu máli er samanber skoðannakönnun Eyjar.net, sem bæjarfulltrúar hunsa. Við í hópnum Horfum til framtíðar erum ekki hætt að berjast fyrir bættum samgöngum, því það er undirstaða góðrar búsetu hér í Vestmannaeyjum og það er það sem við viljum.

 

 

F.h Horft til framtíðar.

 

Halldór Bjarnason

Rúnar Bogason

Kristján Eggertsson

 

Horfum til framtíðar er hópur áhugamanna um bættar samgöngur milli lands og Eyja sem stofnaður var fljótlega eftir að Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010 og hefur fundað reglulega á þessum fimm árum.

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.