Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Allskonar Ég

25.Júní'15 | 08:39

Stundum kemur það fyrir að ég vakna með feituna og ljótuna. Ég lít í spegilinn um leið og ég bursta tennurnar sem mér finnast einstaklega skakkar og ljótar þann morguninn. Ég greiði yfir hárið á mér sem getur auðvitað ekki drullast til að falla í réttar skorður og ekki láta mig byrja á hvað augun í mér eru einstaklega lítil. Það hefði líka eflaust getað drepið þann sem öllu ræður að hafa almennilegan lit á þessum augum, ekki einn lit í dag og annann á morgun (já augun á mér skipta um lit eftir skapferli, veðurfari og gangi himintunglanna).

Ég bisast síðan við að koma mér í föt, aðhaldsbolurinn gerir ekkert fyrir mig og ég er löðursveitt við að reyna að troða honum yfir það sem ég vil fela. Ég máta mögulega allann fataskápinn minn en hjálpi mér hamingjan hvað ég er eitthvað ólöguleg í öllu. Ég enda svo yfirleitt bara í hlaupabuxum en ekki láta það blekkja ykkur þótt ég eigi hlaupabuxur, ég myndi aldrei gera sjálfri mér né öðrum það að hlaupa. Ja nema ég væri í bráðri lífshættu. Utan yfir þessar fínu buxur fer ég svo í einhvern teygðan stuttermabol svona rétt til að undirstrika hvað ég er einstaklega falleg og vel vaxin þann daginn. Allan ljótu/feitudaginn er ég alveg hrikalega meðvituð um sjálfa mig og hvernig ég lít út. Ég er alltaf að toga teygða kvennahlaupsbolinn niður fyrir rass og reyni eins og ég get að halda maganum inni, allt þar til ég er við það að falla í yfirlið af súrefnisskorti.

Næsta dag vakna ég svo aftur á móti við fuglasöng og lækjarnið (lesist bílaumferð og gelt í Depli Mána). Ég valhoppa fram á baðherbergi og í speglinum blasir við mér þessi líka myndarlega stelpukona með fallega hárið, enn fallegri augu og tennurnar, maður minn. Ég spígspora inn í svefnherbergi þar sem ég tek fram fallegasta kjólinn minn, klæði mig létt og löðurmannlega í aðhaldið, sem ég þarf í raun ekkert á að halda, en fer í af gömlum vana. Því næst klæði mig í einkar sjarmerandi og fallegar sokkabuxur, bregð peysu yfir axlirnar og dansa kát og glöð út í daginn sem býður upp á endalausa gleði, hamingju og ást.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þessar tvær stelpukonur skuli vera ein og sama manneskjan. Ég hef svo oft velt því fyrir mér hvað það er sem gerir það að verkum að ég fyllist óöryggi og minnimáttarkennd annan daginn en hinn treysti ég mér til að sigra heiminn og er handviss um að ráða við hvað það sem lífið býður upp á. Þegar allt kemur til alls þá er það einungis ég sjálf sem ber ábyrgð á því hvernig ég vel mér að mæta lífinu frá degi til dags. Það er ægilega auðvelt að halda því fram að með því að velja hamingju og gleði þá verði allt frábært, það segir sig kannski sjálft að þá verður auðvitað allt frábært. En það er svo annað mál að velja sér það og að virkilega standa við það.

Það var fyrir fimm árum sem ég ákvað að hætta að vera áhorfandi í þessu ég lífi og fara að einbeita mér að því að vera þátttakandi, taka eins mikinn virkan þátt og ég mögulega gæti. Ég hef átt tímabil þar sem ég tek svo mikinn þátt í lífinu að ég er næstum því orðin framkvæmdarstjóri þess, þá líður mér vel og finnst ég allt geta. En ég hef líka átt mörg tímabil þar sem mig langar nákvæmlega ekkert að vera þátttakandi og finnst þrúgandi þegar einhvers er ætlast til af mér. Á þeim tímapunkti langar mig helst að hátta upp í rúm og vera þar, alltaf. Þá er erfitt að segja við sjálfa sig: ,, Láttu ekki svona, veldu hamingju og gleði og þá verður allt gott.” Það getur nefnilega verið snúið að velja sér hamingju og gleði þegar inni í þér hrópar rödd sem segir: ,,Ég vil vera í friði, ég vil ekki hitta neinn og alls ekki taka þátt í neinu.” Þá þarf ég virkilega að taka á honum stóra mínum og grafa djúpt, mjög djúpt, eftir viljanum til að velja hamingjuna og gleðina.

 

Ég er sannfærð um að stundum má ég bara vera leiðinleg, félagsfælin og langa bara ekkert að taka þátt. Þegar þannig stendur á leyfi ég mér bara að veltast í því í smá stund. En ég er sem betur fer alltaf að læra það betur og betur að þetta tímabil má bara alls ekki standa yfir of lengi. Með það í huga hefur mér tekist að stytta þau tímabil umtalsvert og hef sett mér sem reglu að ,,óhvaðégáhrikalegaerfitt-dagurinn“ minn má aldrei vara lengur en hálfan sólarhring. Að því loknu tek ég mig saman í andlitinu og leita eftir öllu því sem gerir mig glaða og hamingjusama. Ég horfi á Friends í ómældu magni, tala leeeeeeengi við Erlu systir og krúnkast og kankast með dætrum mínum. Einnig fer ég í mat til pabba, mömmu og Arnars þar sem “fórnarlambs-ég” fæ þau til  að sleikja sárin og að því loknu benda þau mér pent á að svona sé staðan og að nú sé kominn tími til setja hausinn undir sig og halda áfram.

Þarna tekur “hamingjusama-ég” við og maður minn hvað  mér finnst hún skemmtileg og það sem ég er alltaf glöð þegar hún skýtur aftur upp kollinum. Sú kona fílar nefnilega að hafa hátt, tala mikið, hlæja enn meira og bulla út í eitt með skemmtilega fólkinu sínu.”Hamingjusama-ég” er alltaf til í ves og bras og langar endalaust að hitta skemmtilegt fólk, jafnvel drekka smá hvítt og verða glöð í öxlunum.

Elsku fólkið mitt. Við erum svo ótrúlega margar og ólíkar manneskjur sem erum saman komnar í einum og sama líkamanum. Við skulum alltaf fagna því hvernig við erum og hvað við höfum að gefa hverju sinni. Ég hef lært svo ógnar margt af “fórnarlambs-mér” og þá helst það, að vera í hlutverki fórnarlambs er algjör hörmung og vegna þess ætti maður alltaf að krefjast þess að fá að vera í aðalhlutverki. Ég ákvað fyrir löngu síðan að” hamingjusama-ég” væri aðalhlutverkið í mínu lífi en “fórnarlambs-ég” væri minnsta aukahlutverki sem í boði væri. Af þessari ástæðu kemur það æ sjaldnar fyrir þó það sé að sjálfsögðu enn möguleiki á að fækka þeim skiptum enn frekar.

 

Ást, hamingja og gleði út í sumarið dásemdirnar mínar

Hamingjusama-Lóa ☺

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).