Magnús Kristinsson skrifar:

Út af með aðkomumenn!

20.Júní'15 | 15:16

Magnús Kristinsson

Ég hætti seint að undrast stórkallalegar yfirlýsingar bæjarstjórans í Vestmannaeyjum í tilefni af því að nauð rak mig til að selja eignarhlut minn í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.  Ég hef starfað við þessa útgerð  í yfir 40 ár. Það var því ekki með glöðu geði að ég seldi hlut minn í félaginu þegar gamli Landsbankinn knúði mig til greiða fyrir ónýt hlutabréf í þessum sama banka. Það var búið að reyna allt til að fá bankann til að hægja á sér.

Kvóti til Eyja

Bergur-Huginn ehf. er öflugt félag hér í Vestmannaeyjum meðal annars vegna þess að á árunum 1996- 2009 keypti félagið 4.740 tonna aflaheimildir í botnfiski.   Keyptur kvóti var þannig í reynd um eða yfir 80% af aflaheimildum félagsins.  Þessar aflaheimildir voru keyptar í 21 viðskiptum og að langmestu leyti af útgerðaraðilum í öðrum byggðarlögum.  Ég man ekki til þess að bæjarstjórinn hafi gert athugasemdir við þau viðskipti. 

Bæjarstjórinn hefur nú á þriðja ár haldið því fram að ég hafi selt kvótann frá Vestmannaeyjum.  Þetta er auðvitað rangt því ég seldi félagið árið 2012 og það gerir enn út frá Vestmannaeyjum eins og ekkert hafi í skorist.  Ekki er það fyrir orð bæjarstjórans heldur af því að Vestmannaeyjar er frábær útgerðarstöð með afbragðs sjómenn, fiskverkendur og þjónustufyrirtæki. Það er því undrunarefni að bæjarstjórinn og aðrir bæjarfulltrúar skuli ekki bjóða nýja og öfluga eigendur velkomna til starfa í Vestmannaeyjum og leggja frekar grunninn að góðu samstarfi í stað þess að ala á tortryggni og óvild.   

Tvískinnungur bæjarstjórans

Það er ótrúleg einangrunarhyggja og ámælisverð varðstaða um þröngva sérhagsmuni að bæjarstjórinn fari hamförum gegn því að utanbæjarmenn fái fjárfest og starfað hér í bænum.   Krafa hans er sú að eingöngu útgerðarfélög í Vestmannaeyjum megi kaupa ráðandi hluti í öðrum útgerðarfélögum í bænum.  Á endanum kynnu þóknanlegir kaupendur því aðeins að vera einn eða tveir!   Engar athugasemdir heyrast frá bæjarstjóranum þegar þessir aðilar kaupa félög í öðrum bæjarfélögum.  Viðskiptabannið er víst aðeins á aðra hliðina.

Tvískinnungurinn sem birtist í þessum málflutningi er bæjarstjóranum ekki til framdráttar. Afstaða hans þjónar í ofanálag alls ekki hagsmunum Eyjamanna til langs tíma. Skipulag í kringum veiðar og vinnslu sjávarfangs hefur verið forsenda þess að viðhalda hér samkeppnishæfu atvinnulífi. Að ýta undir óánægju og tortryggni í garð sjávarútvegsins eykur óvissu í rekstri og setur framtíðaruppbyggingu í uppnám. Það er ekki í þágu sjávarbyggða í kringum landið að ýta enn frekar undir pólitíska óvissu um fyrirkomulag fiskveiða. Bæjarstjórinn er frekar að hugsa um sína pólitísku stundarhagsmuni en hagsmuni bæjarfélaga eins og Vestmannaeyja til langs tíma.

Bjóðum fólk velkomið

Er ekki kominn tími til að velviljaðir menn sýni bæjarstjóranum fram á að hann gætir hagsmuna bæjarins best með því að bjóða fólk með mikla reynslu af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja ofan af landi velkomna til starfa í Vestmannaeyjum?  Auðvita er samkeppni milli bæjarfélaga um fjárfestingar og staðsetningu atvinnurekstrar.  Sjálfur hefði ég geta flutt starfsemi Bergur-Huginn ehf. hvert á land sem var meðan félagið var í minni eigu og minnar fjölskyldu.  Það kom hins vegar aldrei til greina því hér er ákjósanlegur staður til að gera út. Það er mikilvægt að tryggja að svo verði áfram og við treystum áframhaldandi festu í starfsemi fyrirtækja í sjávarútvegi. Það hlýtur að vera mikilvægur mælikvarði á frammistöðu eins bæjarstjóra  hvort honum tekst að láta aðkomumönnum líða eins og heimamenn væru.   Ég trúi að það skipti máli.

 

Magnús Kristinsson

Útgerðarmaður

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.