Gregg hlaðinn lofi hjá Þrótturum

ÍBV mætir Þrótturum í bikarnum í dag

18.Júní'15 | 06:59

„Hann kom inn í þetta með fínar áherslur og er toppþjálfari. Hann er búinn að búa til stórskemmtilegan og samheldinn hóp,“ sagði Hallur Hallsson reyndasti leikmaður Þróttar. Ennfremur segir Hallur í samtali við Fréttablaðið að ráðning Gregg Ryder hafi verið mikið gæfuspor fyrir félagið. ÍBV fékk Gregg einmitt upphaflega til landsins.

Fyrst var Gregg með yngri flokka ÍBV en síðar aðstoðaði hann Hermann Hreiðarsson með meistaraflokk félagsins í eitt ár. Þróttarar eru í dag hæstánægðir með ráðningu Gregg en þeir eru með fullt hús stiga í 1. deildinni.

Eins og áður segir er arkitektinn að þessum frábæra árangri Þróttar Gregg Ryder sem starfaði hjá ÍBV áður en hann kom í Laugardalinn. Gott orð fer af Ryder en hvað er það sem gerir hann að svona góðum þjálfara að mati Halls?

„Hann er fyrst og síðast heilshugar í þessu og það er ekkert hálfkák hjá honum. Hann vinnur sína vinnu hrikalega vel; er skipulagður, undirbýr liðið mjög vel fyrir hvern leik og það er ekkert sem kemur honum né okkur á óvart,“ sagði Hallur en Ryder virðist sjá hvern einasta leik sem fram fer hér á landi, sama í hvaða deild það er.

Aldurinn ekkert vandamál

Hallur segir að ungur aldur Ryders sé ekki vandamál þótt það muni til dæmis átta árum á þeim tveimur: „Það er ekki neitt vandamál. Það var mikið rætt um þetta þegar hann kom upphaflega og ég viðurkenni að í upphafi setti maður smá spurningarmerki við aldurinn. En í dag finnur maður ekkert fyrir þessu. Hann er með allt sitt á hreinu eins og sést á stöðutöflunni. Ég hef fulla trú á honum.“

Hallur hefur verið manna lengst í Þrótti en hann kom inn í meistaraflokk félagsins árið 1998, fyrir 17 árum síðan. Á þessum tíma hefur hann verið með marga færa þjálfara. Þrátt fyrir það er hann ófeiminn að setja Ryder á meðal þeirra bestu sem hann hefur spilað fyrir.

„Hann er í topp tveimur. Ég hef miklar mætur á honum sem þjálfara,“ sagði Hallur en hinn þjálfarinn sem er efstur á blaði hjá honum er goðsögnin Ásgeir Elíasson heitinn.

„Ég var mjög hrifinn af Ásgeiri. Hann var virkilega góður þjálfari og góður maður.“

Þróttarar eru einnig komnir áfram í 16-liða úrslit Borgunarbikarsins og mæta þar ÍBV, botnliði Pepsi-deildarinnar, klukkan 17:30 í dag. Hallur segir þetta gott tækifæri til að máta sig við lið í Pepsi-deildinni, þar sem Þróttur ætlar að vera á næsta ári.

„Þetta verður mjög spennandi og áhugaverður leikur. Þeir eru í smá brasi og líta eflaust á þennan leik sem snúningspunkt á tímabilinu hjá sér. En þeir fá ekkert gefins hjá okkur og þurfa að hafa fyrir hlutunum,“ sagði Hallur Hallsson að lokum.

 

Nánari umfjöllun.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.