Gísli Stefánsson skrifar:

Sanngjörn krafa um öruggt heilbrigðiskerfi

- lágmark að bærinn sýni einhverja viðleitni

12.Júní'15 | 15:16

Ég er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur og er frekar stoltur af því.  Ég skammast mín hinsvegar fyrir stöðu sjúkrahússins okkar þegar kemur að fæðingarþjónustu og þykir ömurlegt að það sé ekki boðið uppá fullkomna fæðingarþjónustu hér í Vestmannaeyjum.

Mér finnst skjóta skökku við að sjá ágætan bæjarstjóra okkar, Elliða Vignisson, berja sér á brjóst og fagna því  að Eyjamenn séu að fjölga sér. 

Ég er sammála því að fólksfjölgun er eitthvað sem ber að fagna en það getur varla talist boðlegt að tæplega 5000 manna bæjarfélag skuli ekki bjóða upp á betri fæðingarþjónustu en raunin er.

Þann 13.maí fæddist  mér og unnustu minni gullfalleg Eyjamær á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Þrátt fyrir þrýsting frá fæðingardeildinni í Vestmannaeyjum  um að eiga barnið  í Eyjum. Ákváðum við að fara þá leið að þiggja boð tengdaforeldra minna og búa inná þeim á Akureyri. Sem betur fer fórum við þá leið því það fór svo að fæðingin endaði með keisaraskurði, sem hefði á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja þýtt sjúkraflug til Reykjavíkur, með allri þeirri áhættu og kostnaði sem því fylgir. Mér þykir það ábyrgðarleysi af ljósmæðrum í Vestmannaeyjum að hvetja konur til að fæða í Vestmannaeyjum þegar þær ættu að vita það manna best hversu vanmáttug fæðingarþjónustan er þar.

Það er ekkert sem jafnast á við þá tilfinningu að verða faðir og það er ómetanlegt með öllu. Það er engu að síður óþolandi að það fagnaðarefni þurfi að reynast jafn dýrkeypt og það er fyrir okkur Eyjamenn. Að þurfa að flytjast búferlum á meðan nýr fjölskyldumeðlimur er að gera sig tilbúinn fyrir heiminn er hreinlega vandræðalegt. Það þarf ekki að fjölyrða um samgönguleysið sem við búum við, af því vita allir landsmenn, og sérstaklega í ljósi þessa hlýtur það að vera sanngjörn krafa að við búum við öruggt heilbrigðiskerfi, sér í lagi þegar verið er að tala um mannslíf.

Unnusta mín fór til Akureyrar þann 12.apríl síðastliðinn ásamt börnunum okkar tveimur og ég fór svo norður tæpum tveim vikum síðar. Þar sem litla daman lét bíða töluvert eftir sér komum við ekki heim fyrr en 23.maí. Sem betur fer eigum við frábært fólk að á Akureyri en ég efast um að allir Eyjamenn búi svo vel að eiga fjölskyldu uppi á landi og veit til þess að fólk hefur þurft að leiga sér húsnæði eða búa á hótelherbergjum svo vikum skiptir með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Það er því með ólíkindum að Vestmannaeyjabær skuli ekki sjá sér fært að koma til móts við fjölskyldur sem eru í svona aðstæðum.

Skilningur og samúð bæjaryfirvalda lítill

Sonur okkar, sem er í 1.bekk, fékk að fara í skóla á Akureyri á meðan dvöl okkar stóð og kunnum við norðanmönnum, og þá sérstaklega starfsfólki Glerárskóla, bestu þakkir fyrir það. Við fórum þess á leit við Vestmannaeyjabæ að fella niður leikskólagjöld dóttur okkar á meðan við værum fyrir norðan. Þeirri beiðni var hafnað. Við vorum því að borga fullt gjald fyrir hana í meira en mánuð þegar hún neyddist til að vera hinumegin á landinu því að hún var að eignast litla systir.

Ég veit að samgöngur og fæðingarþjónusta er ekki á vegum bæjarfélagsins en það er lágmark að bærinn sýni að minnsta kosti einhverja viðleitni til að hjálpa fjölskyldum í þessari aðstöðu á meðan ástandið í samgöngum og fæðingarþjónustu er jafn ömurlegt og það er. Það er sorgleg staðreynd að þurfa að borga fyrir þjónustu á vegum bæjarins sem er ekki nýtt í ljósi aðstæðna. Þar er skilningur og samúð bæjaryfirvalda lítill.

 

Með vinsemd og virðingu

Gísli Stefánsson.

 

 

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.